Lággjaldaflugfélagið VivaColombia er að íhuga að taka öll sætin úr flugvélum sínum og láta farþegana standa í stað þess að sitja. Í því skyni að halda niðri verði með því að troða fleiri farþegum í hvert flug getur fleira miðstéttarfólk leyft sér að fljúga. Í vikunni tilkynnti flugfélagið að það hyggðist kaupa 50 nýjar Airbus 320 til að bregðast við aukinni eftirspurn ferðamanna. Þessar flugvélar munu hafa fleiri sæti og hagstæðari rekstrarkostnað en áður. Þær verða teknar í gagnið árið 2018.
Stofnandi VivaColumbia og framkvæmdastjórinn William Shaw sagði við Miami Herald að þeir væru að skoða „lóðréttan“ ferðamáta. Hann sagði: „Það er fólk núna þarna úti sem er að rannsaka hvort hægt sé að fljúga standandi og við erum til í að skoða hvað sem er sem lækkar ferðakostnað.“
Hverjum er ekki sama þó þú hafir ekki einhverja skemmtidagskrá í klukkutíma flugi? Hverjum er ekki sama þó það séu ekki marmaragólf eða fríar salthnetur?
Þessi hugmynd er þó ekki ný af nálinni því flugfélög hafa verið að velta þessu fyrir sér í nokkur ár. Árið 2003 kom Airbus með þá hugmynd að farþegar gætu verið festir í „lóðrétt sæti.“
Ryanair bauð einnig upp á standandi svæði árið 2010. Forstjórinn, Michael O’Leary, lýsti standandi sætum eins og „barstólum með sætisbeltum,“ og hafði efasemdir um að sætisbelti væru yfir höfuð nauðsynleg: „Flugvél er bara strætó með vængi. Ef flugvélin hrapar, guð lofi, mun sætisbelti ekkert bjarga þér. Þú þarft ekkert belti í neðanjarðarlestum í London. Þú þarft ekki belti að ferðast um í lestum.“
Flugmálayfirvöld eru þessu hinsvegar ekki sammála og hafa standandi sæti hvergi verið samþykkt í reglugerð. Það kann að vera að kólumbísk yfirvöld muni ekki samþykkja heldur. Flugumferðastjórinn Alfredo Bocanegra sagði í viðtalið við útvarpsstöðina RCN að hann sé þessu ekki sammála: „Fólk þarf að ferðast eins og manneskjur. Allir sem hafa ferðast með almenningssamgöngum vita að það er ekki þægilegt að ferðast standandi.“