Samband Hollywoodleikarans Jim Carrey og írska förðunarfræðingsins Cathriona White byrjaði sem alger draumur en endaði sem martröð. Jim hafði verið í sambandi með leikkonunni Jenny McCarthy en þau voru skilin. Cathriona, eða Cat eins og hún var kölluð, var afskaplega hrifin af Jim en glímdi um leið við þunglyndi og persónuleikaraskanir.
Jim og Cat hættu saman árið 2012 og nokkrum dögum seinna fann lögreglan hana látna heima hjá sér í Los Angeles. Dánarorsökin var of stór skammtur af lyfjum.
Á staðnum fundust tvö bréf, annað bréfið var sérstaklega ætlað Jim Carrey. Í því stóð meðal annars: „Jim þú eyðilagðir líf mitt. Og eftir að hafa gert það bættirðu svívirðu ofan á svívirðuna til að toppa það.”
Nokkrum dögum eftir þetta sendi Jim frá sér yfirlýsingu og sagðist hafa verið „í mikilli vantrú” (e. disbelief). Lögreglan yfirheyrði Jim en var aldrei grunaður um neitt misjafnt. Jim var náinn fjölskyldu Cats og bar jafnvel kistuna hennar í jarðarförinni sem haldin var á Írlandi. Eftir dauða hennar styrkti hann fjölskylduna fjárhagslega.
Eftir að Cat dó fékk Jim óvæntar fréttir: Kærastan fyrrverandi var gift á þeim tíma sem þau voru saman. Hún giftist Mark Burton – eitthvað sem lögfræðingur Jims lýsti sem „græna korts hjónabandi” þ.e. að hún hafi gifst Mark til að fá græna kortið í Bandaríkjunum svo hún gæti unnið og búið þar.
Mark sá sér leik á borði eftir að Cat tók sitt eigið líf og höfðaði mál á hendur Jim. Hélt hann því fram að Jim hefði útvegað Cat lyfin sem urðu þess valdandi að hún dó.
Cat tók blöndu af svefntöflum, hjartalyfjum og verkjalyfjum. Samkvæmt sms-skeytum sem fóru á milli Jim og Cat segir Mark að lyfjunum hefði verið ávísað á Jim. Hafi hann vitað að Cat væri í sjálfsmorðshugleiðingum en samt hafi hann látið hana fá lyfin.
Móðir Cat, Brigid, hefur nú gengið í lið með Mark sem segir að dóttir hennar hafi verið í sjálfsmorðshugleiðingum vegna þess að hún hafi smitast af kynsjúkdómum frá Jim: „Jim Carrey ætti að skammast sín fyrir það sem hann gerði dóttur minni. Sem fjölskylda viljum við að heimurinn viti sannleikann um hver Jim Carrey raunverulega er.”
Í aprílmánuði á næsta ári fara réttarhöldin fram og þar getur Jim gert sitt besta til að afsanna ásakanirnar á hendur honum: „Ég mun ekki líða þessa grimmilegu tilraun til að koma mér eða konunni sem ég elskaði í vandræði. Vandræði Cat voru löngu hafin áður en ég hitti hana og hörmulegur endir var ekki á neins valdi nema hennar. Ég vona að einn daginn muni fólk hætta að reyna að hagnast á þessu og leyfi henni að hvíla í friði.”
Cat, sem hafði margoft hótað sjálfsvígi, skrifaði á Twitter áður en hún dó árið 2015: „Ég er hætt útsendingu Twitter, ég vona ég hafi verið ljós minna nánustu. Ást og friður til ykkar allra.”