KVENNABLAÐIÐ

Var hópnauðgað á brúðkaupsdaginn sinn

Þegar Terry Gobanga – áður Terry Apudo – mætti ekki í eigið brúðkaup datt engum í hug að henni hefði verið rænt, henni nauðgað og hún skilin eftir við vegakant til að deyja. En Terry er sigurvegari – lestu magnaða sögu hennar hér að neðan.

Terry segir frá: Þetta átti að verða stórt brúðkaup. Ég var sóknarprestur og allir í söfnuðinum ætluðu að mæta ásamt ættingjunum. Unnusti minn, Harry og ég, vorum mjög spennt. Ég hafði leigt afar fallegan kjól og við ætluðum að ganga í hjónaband í All Saints kirkjunni í Nairobi.

Kvöldið fyrir brúðkaupið áttaði ég mig á því að ég hafði einhver föt af Harry, þar með talið hálsklútinn hans. Hann gat ekki mætt án hans svo gestur sem dvaldist hjá mér bauðst til að fara með hann næsta morgun. Við vöknuðum við sólarupprás og ég gekk með honum að strætóskýlinu.

Þegar ég er á leiðinni aftur heim gekk ég framhjá gaur sem sat á húddi bíls – allt í einu stökk hann á mig og henti mér í aftursætið. Þar voru fyrir tveir menn og þeir keyrðu af stað með mig. Þetta gerðist allt á sekúndubroti.

Auglýsing

Tusku var troðið í munninn á mér og ég sparkaði og sló og reyndi að öskra. Þegar mér tókst að ná tuskunni úr munninum öskraði ég: „Þetta er brúðkaupsdagurinn minn!“ Þá fékk ég fyrsta höggið. Einn mannanna sagði mér að „vera samvinnuþýð annars yrði ég myrt.“

a br 6

Mennirnir skiptust á að nauðga mér. Ég var handviss um að ég myndi deyja. Ég var þó enn að berjast fyrir lífi mínu og þegar einn mannanna tók klútinn frá vitum mér beit ég hann í typpið. Hann öskraði af sársauka og einn af þeim stakk mig í magann. Svo opnuðu þeir dyrnar og hentu mér út á ferð.

Ég var tugum kílómetra frá heimilinu mínu, komin í næsta land. Meira en sex klukkutímar höfðu liðið frá því að mér var rænt. Barn sá mig þeytast úr bílnum og hringdi í ömmu sína. Fólk kom hlaupandi. Þegar lögreglan kom reyndu þeir að finna púls en gátu það ekki. Þeir héldu að ég væri dáin og vöfðu mér í teppi og voru á leið með mig í líkhúsið. Á leiðinni kúgaðist ég út af teppinu og hóstaði. Lögreglumaðurinn spurði: „Er hún á lífi?“

Þeir sneru við og fóru með mig á ríkisspítalann í Kenya. Ég var í töluverðu áfalli og muldraði eitthvað samhengislaust. Ég var hálfnakin og öll í blóði – andlitið á mér var stokkbólgið eftir höggin. Eitthvað hlýtur forstöðukonan að hafa áttað sig á því hún giskaði á að ég væri brúður: „Hringjum í kirkjurnar og spyrjum hvort brúður hafi horfið,“ sagði hún við hjúkrunarkonurnar.

Tilviljun réði því að fyrsta kirkjan sem hringt var í var All Saints: „Mætti brúður ekki í brúðkaupið?“ spurði hjúkrunarkonan. „Já, það átti brúðkaup að fara fram klukkan 10 en hún mætti ekki.“

a br 2

Þegar ég mætti ekki í brúðkaupið voru foreldrar mínir viti sínu fjær af hræðslu. Fólk var sent út að leita. Gróusögur flugu. Sumir héldu að ég hefði hætt við en aðrir sögðu að það væri afar ólíkt mér. Eftir nokkra klukkutíma þurfti að taka niður skrautið fyrir næstu athöfn. Harry hafði verið settur í skrúðshúsið þar sem hann átti að bíða.

Þegar þau heyrðu hvar ég var flykktust gestirnir á sjúkrahúsið. Harry mætti með brúðarkjólinn. Fjölmiðlar höfðu einnig fengið veður af málinu og þar voru fréttamenn líka.

Ég var flutt á annað sjúkrahús þar sem var meira næði. Læknarnir saumuðu mig saman en færðu mér slæmar fréttir: „Hnífsstungan fór svo langt inn í legið að þú munt sennilega ekki getað gengið með börn.“

Ég fékk „daginn-eftir-pillu“ og vörn gegn kynsjúkdómum og AIDS. Ég slökkti á heilanum á mér, ég neitaði að trúa því sem ég hafði orðið fyrir.

Harry vildi enn kvænast mér: „Ég vil hugsa um þig og koma þér til heilsu, í húsinu okkar.“ Í sannleika sagt var ég ekki í stöðu til að svara játandi eða neitandi því hugurinn var bundinn við þessa þrjá hrotta og það sem hafði gerst.

Nokkrum dögum seinna var ég ekki svo lyfjuð og ég gat horft í augun á Harry. Ég baðst afsökunar, mér leið eins og ég hefði brugðist honum. Sumir sögðu að þetta væri mér að kenna fyrir að hafa farið svo snemma morguns af stað. Það særði mig mjög en Harry og fjölskylda mín stóðu með mér.

Auglýsing

Lögreglan náði aldrei mönnunum sem nauðguðu mér. Ég skoðaði myndir og fór í sakbendingar en bar ekki kennsl á neinn. Það var sárt að fara í hvert einasta skipti. Ég rokkaði í batanum, 10 skref áfram, 20 aftur á bak. Í lokin sagði ég á lögreglustöðinni: „Vitiði hvað, ég er búin á því. Ég vil láta þetta eiga sig.“
Þremur mánuðum eftir árásina var ég greind HIV-neikvæð og ég var mjög spennt en ég þurfti samt að bíða í þrjá mánuði í viðbót til að vera viss. Ég og Harry fórum að skipuleggja seinna brúðkaupið.

Ég var fjölmiðlum reið fyrir athyglina en ein blaðakona las frásögnina og var líka þolandi nauðgunar. Vip Ogolla hét hún. Hún sagði mér að hún og vinir hennar vildu borga fyrir brúðkaupið mitt og gaf mér algerlega frjálsar hendur. Ég var í skýjunum – fékk dýrari og flottari tertu, keypti mér fallegan brúðarkjól.

Harry og
Harry og Terry á brúðkaupsdaginn

Í júlímánuði 2005, sjö mánuðum eftir árásina, giftum við Harry okkur og fórum í brúðkaupsferð.

Mánuði seinna vorum við heima eitt kvöld og það var virkilega kalt. Harry kveikti á kolaofni og kom með hann inn í svefnherbergi. Eftir matinn fjarlægði hann ofninn því hlýtt var í herberginu. Ég fór undir sæng meðan hann læsti húsinu. Þegar hann kom upp í rúm sagðist hann finna fyrir svima en við pældum ekki meira í því. Það var svo kalt að við gátum ekki sofið. Ég stakk upp á að ná í aðra sæng.

Harry sagðist ekki geta það, hann hefði ekki næga orku. Furðulegt nokk en ég gat ekki staðið upp heldur. Við áttuðum okkur á að eitthvað mikið var að. Það leið yfir hann, svo mig. Ég reyndi að kalla á hann. Stundum svaraði hann, stundum ekki. Ég ýtti sjálfri mér út úr rúminu og kastaði þar upp. Ég fékk aukna orku svo ég skreið í símann. Ég hringdi í nágranna minn og sagði að eitthvað skrýtið væri í gangi, Harry gæti ekki svarað.

Hún kom yfir um leið en það tók mig óratíma að komast að hurðinni til að hleypa henni inn þar sem það leið yfir mig, trekk í trekk. Ég sá fullt af fólki koma inn öskrandi. Og svo leið yfir mig aftur.

Ég vaknaði á spítalanum og spurði hvar eiginmaður minn væri. Þau sögðust vera að vinna í honum í næsta herbergi. Ég sagði: „Ég er prestur, ég hef séð ýmislegt og þið þurfið að vera hreinskilin við mig.“ Læknirinn svaraði: „Mér þykir það leitt. Eiginmaður þinn hafði það ekki af.“

Að fara aftur í kirkjuna var hryllilegt. Mánuðum fyrr var ég í hvítum kjól, Harry fyrir framan mig, myndarlegur í fötunum sínum. Nú var ég svartklædd og hann í kistu. Fólk sagði að á mér hvíldi bölvun og hefði illa anda í kringum mig. Þau héldu börnunum sínum frá mér. Ég var farin að trúa því sjálf á tímabili. Í sorgarferlinu ásökuðu sumir mig um að hafa myrt hann. Það var ofboðslega erfitt.

Krufningin leiddi í ljós að um kolsýrlingseitrun var að ræða vegna ofnsins. Harry kafnaði. Ég fékk algert áfall, kenndi guði um, kenndi öllum um. Ég skildi ekki hvernig fólk gat haldið áfram að hlæja, gera hluti, halda áfram lífi sínu. Ég brotlenti algerlega.

Ég datt í mikið þunglyndi. Ég sat inni með dregið fyrir gluggana. Vikur, mánuðir, ár leið hjá. Það var erfitt tímabil. Ég sagði öllum að ég myndi aldrei gifta mig aftur. Sársaukinn er svo svakalegur, þú finnur hann jafnvel í nöglunum.

Það var þó einn maður, Tonny Gobanga, sem hélt áfram að heimsækja mig. Hann hvatti mig til að tala um Harry og hugsa um góðu stundirnar. Einn daginn hringdi hann ekki í þrjá daga og ég varð reið. Þá áttaði ég mig: Ég var orðin ástfangin af honum.

Tonny bað mín en ég sagði honum að kaupa blað og lesa mína sögu – sjá svo hvort hann elskaði mig. Hann kom til baka og sagðist vilja kvænast mér. Ég sagði: „Heyrðu – það er annað. Ég get ekki eignast börn svo við getum ekki gift okkur.“ „Börn eru gjöf guðs,“ sagði hann. „Ef við eignumst einhver, amen. Ef ekki, hef ég meiri tíma til að elska þig.“ Ég hugsaði: „Vá, hvað þetta er flott lína!“ þannig ég játaðist honum.

Terry og
Terry og Tonny

Tonny fór heim og sagði foreldrum sínum frá. Þau voru mjög spennt þar til þau heyrðu mína sögu: „Þú getur ekki gifst henni – það hvílir bölvun á henni.“ Tengdafaðir minn neitaði að mæta í brúðkaupið en fram fór það þó. Við fengum um 800 gesti – margir mættu fyrir forvitnis sakir. Þetta var þremur árum eftir að ég gifti mig fyrst. Ég var dauðhrædd. Þegar við skiptumst á heitum hugsaði ég: „Góði guð, hér er ég aftur, ekki láta hann deyja.“ Þegar söfnuðurinn bað fyrir okkur fór ég að hágráta.

Ári eftir að við giftum okkur leið mér ekki vel og fór að hitta lækni – ég varð steinhissa þegar hann sagði mér að ég væri ólétt!

Ég þurfti að liggja seinni hluta meðgöngunnar vegna stungusársins en allt gekk vel og við eignuðumst dóttur sem við nefndum Tehille. Fjórum árum seinna eignuðumst við aðra dóttur, Towdah.

a br 4

Í dag erum ég og tengdapabbi bestu vinir. Ég skrifaði bók, Crawling out of Darkness, um málið mitt til að gefa fólki styrk um að allt sé hægt. Ég stofnaði hjálparsamtökin Kara Olmurani. Við vinnum með nauðgunar-sigurvegurum, ég vil ekki kalla þau nauðgunarfórnarlömb. Við bjóðum upp á stuðning og ráðgjöf. Við viljum koma á stofn áfangaheimili fyrir sigurvegarana til að hjálpa þeim að fóta sig á ný.

Ég hef fyrirgefið árásarmönnunum. Það var ekki auðvelt en það var verra fyrir mig – þeim er sennilega alveg sama hvort ég sé reið. Trúin hjálpar mér að fyrirgefa og gjalda ekki illt með illu, heldur góðu. Mikilvægast er þó að leyfa sér að syrgja. Farðu í gegnum allt ferlið. Æstu þig, gerðu allt sem þig langar þar til þú vilt gera eitthvað í eigin málum. Þú þarft að halda áfram að hreyfa þig, skríddu ef þú þarft. Færðu þig nær örlögum þínum því þau bíða þín, þú þarft bara að fara og ná þeim.

Heimild: BBC

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!