Langflest stofnum við til langvarandi ástarsambands við annan einstakling einhvern tíma á ævinni. Algengast er hér á landi að til slíkra sambanda sé stofnað nokkuð snemma á meðan víða annars staðar sé algengara að fólk festi ekki ráð sitt fyrr en það tekur að nálgast þrítugt eða síðar. En hvað er það, sem gerir það að verkum að við löðumst frekar að einum einstaklingi en öðrum?
Sumir segja að þar ráði „efnafræði“ mestu, aðrir segja að „sálrænir/sálfræðilegir“ þættir ráði meiru og enn aðrir segja að skynsemi eða praktísk hugsun ráði mestu. Vafalaust eru til fleiri hugmyndir um það hvað stjórnar því með hvaða einstaklingi við stofnum til ástarsambands og með hverjum ekki. Líklegast er að um samspil margra þátta sé að ræða. Nýjar rannsóknir segja okkur að efnafræðin kemur eitthvað við sögu alveg eins og hjá dýrunum. Sálfræðin hefur komið fram með kenningar um að styrkur, sjálfstraust, framkoma og hegðun ráði þarna allnokkru og einnig er líklegt að mjög margir einstaklingar láti skynsemi og praktísk sjónarmið hafa áhrif á val sitt.
Hvað sem líður ástæðunum er alveg ljóst, að það er langt í frá að öll ástarsambönd haldi til lengri tíma eða alla ævina. Hér á landi hefur sýnt sig að hátt í helmingur hjónabanda heldur ekki og langflestir stofna til nýrra sambanda eftir skilnað. Á undanförnum árum hefur umræðan um fjölgun hjónaskilnaða vaxið og ýmislegt hefur verið gert til þess að gefa fólki kost á að efla hjónabandið eða sambúðina. Tilgangurinn er þá fyrst og fremst sá að fækka skilnuðum og að viðhalda góðu sambandi lengur. Nægir þar að nefna fjölda námskeiða og fyrirlestra um efnið.
Gott kynlíf
Flestir líta svo á að gott kynlíf sé mikilvægt til að viðhalda góðum samböndum. Það er þó til að sambönd haldist árekstralítið og að pör séu vel samheldin án þess að kynlíf sé mikið stundað eða það mjög fullnægjandi fyrir annan eða báða aðila. Krafan um gott kynlíf fer þó vaxandi í hinum vestræna heimi og þar á meðal hér á landi. Öll ástarsambönd og þar með talið hjónabönd og sambúðir byggja á því í upphafi að kynlíf sé til staðar. Einnig held ég að í langflestum þeirra sé það nokkuð fullnægjandi í byrjun. Líklegast þó hjá mörgum, vegna þess að ýmislegt annað gerir það að verkum að krafan um fullnægjandi kynlíf er önnur í upphafi sambanda en þegar líður á þau.
Mér sýnist að margir afsaki það að kynlífið er ekki alveg fullnægjandi í upphafi og telji að það muni batna eða ganga betur þegar líður á sambandið. Í sumum tilvikum batnar það líka, en í mörgum tilvikum gerist það ekki. Ef kynlífið verður ekki fullnægjandi minnka sumir kröfuna til þess og sætta sig við það eins og það er, einkum ef margir aðrir þættir í sambandinu eru góðir.
Þó eru einnig til aðrar ástæður fyrir því að krafan um gott kynlíf minnkar, eins og t.d. ótti við skilnað, lítið sjálfstraust, meðvirkni o.fl. Aðrir geta ekki sætt sig við að kynlífið verður ekki fullnægjandi. Þeir leita sér þá aðstoðar, leita út fyrir sambandið eða skilja. Mér virðist sem þeim fari stöðugt fjölgandi, sem leita sér aðstoðar við að gera kynlíf sitt fullnægðara og betra. Fólk á öllum aldri og stundum með margra ára sambönd að baki leita sér aðstoðar í kynlífi.
Kynlíf er samskipti.
Það er stundað í sameiningu og til þess að það sé fullnægjandi þurfa báðir aðilar að njóta þess. Frumforsendan fyrir nautn er slökun. Einskis er hægt að njóta án þess að slaka á og taka á móti. Neikvæðar hugsanir, spenna, erfiðleikar, kvíði, ótti, áleitnar hugsanir, stöðugar vangaveltur, hugsanir um hvað aðrir haldi um mann og margt fleira veldur streitu, sem kemur í veg fyrir nautn á öllum sviðum. Ekki hvað síst í kynlífi eða í því að njóta samvista hvors annars í sambandi, sambúð eða hjónabandi almennt. Allt þetta og meira til getur valdið því að kynlíf er ekki fullnægjandi í upphafi sambands, en einnig þegar líður á samband.
Öll samskipti hafa tilhneigingu til að festast í ákveðnu fari. Það verða til ákveðin „norm“, sem fyrst og fremst er ætlað að auka öryggi í samskiptunum. Til þess að maður viti hvar maður hefur hvert/hvort annað. Svo ekki þurfi stöðugt að velta fyrir sér hvað hinn/hinir séu að meina eða hvert þeir séu að fara með hegðun sinni. Þannig er það líka með kynlífið. Það hefur tilhneigingu til að verða alltaf eins. Jafnvel þó okkur finnist að við lifum góðu kynlífi. Í sjálfu sér er ekkert við það að athuga, en langflestir hafa þó þörf fyrir að brjóta líf sitt upp öðru hvoru. Ögra „normunum“. Við setjumst í stól við matarborðið/ í matsalnum, sem „annar á“, leggjumst þeim megin í rúmið sem makinn er vanur að vera, breytum uppröðun húsgagna íbúðinni, förum aðra leið í vinnuna, skiptum um vinnu, hegðum okkur „barnalega“ á almannafæri o.s.frv. Sama þörfin gerir vart við sig í kynlífi, ef það er orðið fast og fylgir fyrirfram þekktum reglum hjá parinu. Þegar svo er komið má segja að þó það sé gott, er það ekki fullnægjandi. Við höfum þörf fyrir að brjóta það up p, gera eitthvað annað og öðru vísi.
Þó hefur lítið mátt ræða þessi samskipti. Það hefur talist dónalegt eða rangt. Það er því sveipað dulúð og veldur þannig oft erfiðleikum. Skortur á umræðum veldur bábiljum, sem svo valda erfiðleikum. Við eigum að standa okkur í kynlífi í stað þess að njóta þess. Við eigum að fullnægja hinum aðilanum í stað þess að sjá til þess að við sjálf séum fullnægð. Við megum ekki segja hvað við viljum í kynlífi því það gæti upplifast sem klámfengið eða komið upp um sóðalega kynóra eða eitthvað enn verra. Konur mega ekki vera of ágengar því það gæti „slökkt“ á manninum eða gefið honum í skyn að hann sé ekki „karlmaður“. Maðurinn má ekki vera of ágengur því það gæti gefið í skyn að hann taki ekki tillit til konunnar. Svona mætti lengi telja upp bábiljur, sem tengjast kynlífi, en ekki öðrum samskiptum parsins. Sjúkdómar og slys geta einnig haft áhrif á það að samskipti pars þurfa að breytast og það hvernig parið getur stundað kynlíf. Í tengslum við slys og sjúkdóma hafa einnig myndast alls kyns bábiljur, sem veldur því að nauðsynlegt er að ræða saman um samskipti og framhald kynlífs hjá pari sem í slíku lendir.
Ræðum saman
Til þess að viðhalda góðu ástarsambandi og góðu kynlífi er því nauðsynlegt að ræða saman um sambandið, samskiptin og kynlífið. Við þurfum að gefa okkur tíma til að setjast niður og segja hvort öðru frá löngun okkar, hugmyndum, væntingum og viðhorfum til sambandsins, samskiptanna og kynlífsins. Við þurfum einnig að gera það sem okkur langar til að gera til að brjóta upp, endurnýja og örva sambandið og kynlífið. Við þurfum þar af leiðandi að gefa hvort öðru leyfi til að koma fram með hugmyndir bæði í orði og í athöfnum. Það hefur svo í för með sér að við þurfum líka að hafa leyfi til að hafa eigin skoðun og hafna hugmyndum hins aðilans, ef okkur sýnist svo. Frelsi til að hafa eigin frumkvæði ásamt frelsi til að hafna er nauðsynlegt öllum samböndum, ef okkur á að líða vel í þeim. Einmitt þess vegna er svo nauðsynlegt að geta rætt saman um alla hluti.
Alltof oft er það þannig að aðeins eru ræddir slæmir hlutir. Þegar eitthvað er að. Hins vegar gefum við okkur of sjaldan tíma til að ræða saman um hvað okkur líður vel saman, hvað er gott í sambandinu. Hrósa makanum og okkur sjálfum við makann. Þegar við ræðum um vandamál fylgir því ákveðinn alvöruþungi og oft er hætta á að samræðurnar byggist á ásökunum og rifrildi. Þegar við ræðum um góða hluti, hrósum hvort öðru og ræðum um vellíðan, fylgir því slökun og uppbygging. Ef samræður verða of einhliða um vandamál verður því alvöruþungi, ásakanir og rifrildi einkennandi í sambandinu. Í sambandi, sem einkennist of mikið af slíkri neikvæðni, getur verið erfitt að stunda gott kynlíf. Spennan er of mikil í sambandinu.
Í mörgum samböndum verður gott jafnvægi á milli alvöruþrunginnar umræðu og afslappaðrar uppbyggilegrar umræðu. Ef svo er ekki er þarf meðvitað að sjá til þess að jafnvægi náist. Ekki má sleppa alvöruþrungnum samræðum. Slíkt leiðir eingöngu til þess að parið forðast vandamál. Það má ekki heldur sleppa afslappaðri og uppbyggilegri samræðu. Slíkt leiðir til spennu í sambandinu og niðurbrots. Ég hef grun um að það sé algengara að það vanti þessa síðar nefndu umræðu í sambönd.
Opin umræða leiðir til betra kynlífs
Að setjast saman að kvöldi, slökkva á sjónvarpinu, símanum og tölvunni, hita gott kaffi eða opna góða rauðvínsflösku, setjast niður í góða stóla eða sóffa við kertaljós í notalegu andrúmslofti er góð leið til þess að opna góða og uppbyggilega samræðu, sem síðan getur gjarnan leitt til góðs kynlífs. Einnig getur verið gott að fara saman í gott freyðibað, fara í góðu veðri í notalega kvöldgöngu eða skreppa saman í bíltúr eða gönguferð út fyrir skarkala bæjarlífsins. Slíkt leiðir gjarnan til ánægjustunda. Vinna saman í garðinum, að matargerð eða undirbúningi veislu. Fara saman út að borða, í leikhús eða bíó, á tónleika eða á listsýningar. Allt er þetta vel til þess fallið að vera aðdragandi að góðri, uppbyggilegri og afslappaðri samræðu parsins.
Þegar kemur að kynlífinu þarf einnig oft að hjálpa meðvitað til með því að leggja áherslu á slökun. Það er hægt að gera með því að lengja forleikinn, nota meðvitað gæluorð og gælur. Leggja áherslu á að líkaminn er miklu meira en bara kynfærin og brjóstin. Víða um líkamann leynast staðir, sem örva kynferðislega löngun. Hjálpa hvort öðru til að finna þessa staði. Gefa hvort öðru kost á að slaka á, án þess að þurfa að gefa gælur á móti í nokkrar mínútur. Hefja forleikinn um miðjan dag í almennum samskiptum. Hefja forleikinn saman í sturtu eða baði. Hefja forleikinn í samræðum við kertaljós, ljúfum gönguferðum eða við að njóta listviðburða. Svona mætti lengi telja. Forleikur í kynlífi, sem stendur í 45 – 90 mínútur eða lengur gefur miklu dýpri fullnægingu, en forleikur, sem aðeins stendur í 5-10 mínútur og er eingöngu til þess fallinn að gera báða aðila líkamlega færa um stunda samfarir.
Meginatriðið við að viðhalda góðu ástarsambandi og góðu kynlífi er sem sagt það að vinna meðvitað að því í stað þess að láta allt ganga sinn vanagang og vona hið besta.