Móðir Jack Collins, fimm ára drengs, fékk áfall þegar hún reyndi að klæða son sinn úr sundbuxunum eftir venjulega sundferð í sumarfríi. Þau komu frá lauginni og hún ætlaði að hjálpa honum úr þegar hann öskraði hátt: „Hann öskraði svo, ég hafði aldrei heyrt annað eins. Engin móðir vill heyra slík öskur,“ segir Laura Collins.
Á meðan Jack var að leika sér í vatninu hafði innra byrði sundbuxnanna, netið, vafist um typpið. Móðir hans hljóp að móttökuborðinu á hótelinu og ætlaði að fá skæri til að klippa þær af. Starfsmenn hótelsins ráðlögðu henni frekar að fara á spítalann.
Netið í buxunum hafði flækst of fast um typpið til að hægt væri að losa það með góðu móti. Læknarnir á spítalanum þurftu að gefa Jack deyfingu til að losa netið. Var hann undir eftirliti í nokkra klukkutíma til að athuga hvort um skemmdir á þvagrás væri að ræða.
Þótt ótrúlegt megi virðast var þetta ekki í fyrsta skipti sem læknarnir þurftu að eiga við slíkt tilfelli. Annar drengur hafði lent í því sama nokkrum vikum áður.
Laura hvetur því alla foreldra til að fjarlægja netið úr sundbuxum drengja til að koma í veg fyrir slíkt slys. Fyrirtækið Tesco sem framleiddi buxurnar hefur beðist afsökunar og ætla þeir að láta kanna málið.
Heimild: San Fransisco Globe