KVENNABLAÐIÐ

Ingunn kom í veg fyrir að veski væri stolið af 87 ára manni með göngugrind

Ingunn Jóna Þórhallsdóttir sem býr í Odense, Danmörku sýndi af sér ótrúlegt hugrekki þegar hún kom í veg fyrir að eldri maður væri rændur veskinu sínu. Ingunn er að læra multimedia design og vinnur með skóla. Hún segir svo frá:

Váá! Það reyndi svo sannarlega á réttlætiskenndina í mér í dag!!
Ég skrapp upp í mollið sem er hérna beint á móti húsinu mínu eftir vinnu að sækja pakkasendingu heiman frá Íslandi og var s.s. á leiðinni út úr mollinu eftir smá Tiger-ferð að taka út smá pening áður en ég sæki böggulinn. Verð þá vitni að því að tveir menn á milli fertugs og fimmtugs ræna veski af manni sem ég komst svo að seinna að væri 87 ára.

Auglýsing
Einn maðurinn „missir“ jakkann sinn beint fyrir framan gamla manninn og á meðan sá gamli er upptekinn við að fylgjast með því og er stopp auðvitað því sá fyrri hindrar að hann komist eitt né neitt, þá kemur sá seinni þétt upp að honum að aftan og stelur veskinu úr vasanum hans. Þetta var alveg þaulæft og pottþétt menn sem stunda svona athæfi!
Ég er svo á leiðinni út beint á eftir þeim og skynja að þarna er eitthvað ekki alveg eins og það á að vera og spyr gamla manninn strax hvort hann sé með veskið sitt í vasanum. Hann segir mér að það sé horfið og ég snöggreiðist alveg á nóinu.

Ingunn Jóna Þórhallsdóttir
Ingunn Jóna Þórhallsdóttir

Ég strunsa í áttina að manninum sem var með veskið, gargandi og öskrandi, skipa honum að skila veskinu strax og kalla hann öllum illum nöfnum. Hann hafði greinilega hent veskinu frá sér án þess að ég tæki eftir því og bendir á það og segist ekki vera með neitt veski. Ég held áfram að garga á hann, elti hann alveg yfir planið, fálmandi í veskinu mínu eftir símanum mínum til að hringja í lögguna. Segi honum að það séu upptökur til af honum og hann ætti bara að passa sig, ég væri að hringja á lögregluna.

Úthúða honum alveg fyrir að vera svona mikill aumingi að stela af gömlum manni, hvers konar manneskja hann sé eiginlega. Hann stakk reyndar af, ég náði ekki að elta hann svo ég fór bara til baka til gamla mannsins og þá var einhver annar maður búinn að láta hann fá veskið sitt og var eitthvað að tala við hann.

Auglýsing
Lögreglan tekur skýrslu af okkur báðum símleiðis og greyið maðurinn situr þarna á göngugrindinni sinni (já, þeir stálu veski af gömlum manni í göngugrind!!!) og þakkar mér endalaust fyrir að hafa hjálpað sér og kallaði mig „dejlige og søde unge dame“ 
Veit ekkert hvernig framhaldið er, það eru upptökuvélar við inngangana í centerið svo þetta er alveg til á upptökum og lögreglan hefur svo bara samband við annað okkar ef þörf er á fleiri upplýsingum, tóku alveg niður kennitölur og símanúmer okkar beggja.
Mennirnir nást pottþétt ekki en kannski nást skýrar myndir af þeim svo það sé hægt að bera kennsl á þá og vonandi stinga þeim inn ef þeir verða teknir einhvern tímann í framtíðinni.

Vitið þið það, ég skil ekki hvaðan ég fékk þetta þor. Eins og ég get verið mikil mús að þarna fékk ég bara einhvern ofurkraft og umbreyttist í eitthvað svaka skass. Er ekki að ýkja þegar ég segi að þjófurinn var skíthræddur við mig, ég var svo hvöss og öskrandi á hann ókvæðisorðum, alveg gargandi og bölvandi, og með mjög ógnandi líkamstjáningu held ég!
Ég er bara mjög sátt við að þetta endaði allt saman vel fyrir greyið gamla manninn og hann fékk veskið sitt til baka, þjófurinn náði ekki neinum pening úr því eða neitt, þökk sé mínum fljótu viðbrögðum!
Allt er gott sem endar vel!

Færslan birtist fyrst á Góðu systur og er birt hér með góðfúslegu leyfi Ingunnar

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!