Eru til einhver ráð við þessum hvimleiða kvilla?
Tugir milljóna manna og kvenna um allan heim þjást af eyrnasuði (tinnitus). Um er að ræða stöðugan tón fyrir öðru eða báðum eyrum sem dynur á sjúklingnum allan sólarhringinn, allt árið. Erfitt er að lýsa eyrnasuði fyrir þeim sem aldrei hafa fengið það sjálfir en því hefur verið lýst sem suði, hringingu, öskri, hvísli, klið eða öðru þvílíku. Eyrnasuð er ekki sjúkdómur heldur sjúkdómseinkenni og ekki finnst á því skýring nema stöku sinnum en það helst oft í hendur við heyrnartap. Ekki er vitað nákvæmlega á hvern hátt eyrnasuð myndast en það gerist oftast í innra eyranu. Allir geta fengið eyrnasuð eftir áreyti eins og mikinn hávaða eða viss lyf en í slíkum tilfellum verður sjaldnast varanleg skemmd og þegar áreytið er farið hverfur eyrnasuðið fljótt.
Allir sem þjást af stöðugu eyrnasuði ættu að fara í rannsókn hjá háls- , nef- og eyrnalækni.
Orsakir geta verið fjölmargar svo sem:
- mikill hávaði,
- bakteríusýking í miðeyra,
- veirusýking í innra eyra,
- æxli í heyrnartaug,
- sjúkdómar í kjálkalið,
- eyrnamergur.
Oft finnst engin orsök þrátt fyrir ýtarlega leit. Sum lyf geta valdið eyrnasuði og má þar nefna acetýlsalicýlsýru (Aspirin, Magnýl o.fl.) og sum sýklalyf, en eyrnasuðið hverfur fljótt eftir að lyfjatöku er hætt eða skammtar minnkaðir. Í flestum tilfellum fara saman eyrnasuð og heyrnartap og getur þetta gerst í öðru eða báðum eyrum. Við læknisrannsókn er stundum hægt að finna orsökina eða a.m.k. útiloka ýmsar af hugsanlegum orsökum eyrnasuðs. Suma af þessum sjúkdómum er hægt að lækna, aðra ekki. Eyrnasuð fylgir einnig Meniers sjúkdómi en það er sjaldgæfur sjúkdómur í innra eyra, sem einkennist af heyrnartapi, eyrnasuði og slæmum svimaköstum.
Fólk þolir eyrnasuð misvel. Sumir taka þessu eins og hverju öðru sem hráir okkur og læra að lifa með því og láta það ekki angra sig um of. Aðrir þjást, geta ekki einbeitt sér og falla jafnvel í þunglyndi eða sjálfsvorkunn. Þetta getur gert ástandið verra vegna þess að við streitu og spennu versnar eyrnasuð oftast. Það getur einnig aukið erfiðleikana að fjölskylda og vinir sjúklingsins eiga oft erfitt með að skilja vandamálið vegna þess hve óáþreifanlegt það er.
Sumt gerir eyrnasuð verra
Hægt er að varast sumt af því sem getur gert eyrnasuð verra. Mikill hávaði getur framkallað tímabundið eyrnasuð og gert það verra hjá þeim sem hafa eyrnasuð fyrir. Hér má nefna:
- háværa tónlist,
- vélknúin verkfæri
- skotvopn.
Í sumum tilfellum má verja sig með heyrnarhlífum eða eyrnatöppum. Aspirín (Magnýl o.fl.) og nokkur önnur lyf geta valdið eyrnasuði eða gert það verra. Koffein hefur mikil áhrif á eyrnasuð hjá sumum sjúklingum og gerir það háværara. Það getur verið fyrirhafnarinnar virði að forðast allt sem inniheldur koffein (kaffi, te, kóladrykki, kakó, súkkulaði) í einn mánuð til að kanna hvort eyrnasuðið minnki. Áfengi í hófi hefur ekki áhrif á eyrnasuð en óhófleg áfengisdrykkja gerir það verra. Kannabis er þekkt af því að geta valdið eyrnasuði eða gert það verra.
Er til lækning?
Ekki er til nein góð lækning á eyrnasuði og til eru rannsóknir sem sýna að um 95% þeirra sem hafa langvarandi eyrnasuð þurfa enga meðferð nema e.t.v. útskýringar. Sumir þessara einstaklinga eru verulega illa haldnir og þá er hægt að reyna ýmislegt til að minnka suðið eða gera það bærilegra. Þeir sem eru með heyrnarskerðingu lagast stundum við að fá heyrnartæki, þannig að eyrnasuðið verður minna áberandi. Stundum er gagn að því að fela suðið með tæki sem lítur út eins og heyrnartæki en gefur frá sér stöðugt hljóð sem felur eyrnasuðið og er þægilegra að hlusta á. Einnig eru til tæki sem sameina heyrnartæki og feluhljóð. Sumir nota einfaldlega tónlist í sama tilgangi. Ýmis lyf hafa verið reynd en þau hafa ýmist reynst gagnslaus eða gagnslítil eða að þau hafa aukaverkanir sem hrjá viðkomandi meira en eyrnasuðið. Það lyf sem hefur gefið einna bestan árangur er bæði slævandi og verulega vanabindandi og þess vegna ónothæft nema í algerum undantekningartilfellum. Stöðugt eru í gangi rannsóknir á eyrnasuði, orsökum þess og aðferðum til lækninga.