Bryndís Erna Thoroddssen, MA í félagsráðgjöf rannsakaði upplifun og líðan systkina einstaklinga með vímuefnaröskun og fjallar hér um niðurstöður rannsóknar sinnar sem ber heitið „Systir mín var eiginlega bara ófreskja á þessu tímabili“ Leiðbeinandi var Dr. Freydísi Jónu Freysteinsdóttur dósent við félagsráðgjafardeild Háskóla Íslands.
Markmið rannsóknar Bryndísar var annars vegar að fá innsýn í upplifun og reynslu fólks sem á það sameiginlegt að hafa átt systkin í vímuefnavanda á uppvaxtarárum sínum. Hinsvegar var markmiðið að kanna hvaða stuðningur og bjargráð hafi reynst vel meðal þeirra sem alist hafa upp á heimili með systkini í vímuefnavanda. Mikilvægi rannsóknarinnar felst í því að varpa ljósi á vímuefnavandann í samfélaginu frá sjónarhorni systkina. Þættir sem spurt var út í voru a) andleg og líkamleg líðan þátttakanda í barnæsku, b) systkina-, fjölskyldu- og vinatengsl, c) nám og störf þeirra og d) hvaða bjargráð reyndust vel.
Megináhersla í rannsóknum á þessu sviði hefur verið lögð á áhrif vímuefnaröskunar einstaklings á maka og börn en hún hefur einnig veruleg áhrif á foreldra og systkin. Vímuefnamisnotkun er oft veruleg byrði fyrir einstaklinginn, fjölskylduna og samfélagið vegna neikvæðra áhrifa á líkamlega og sálræna heilsu. Vímuefnaneysla hefur allajafna neikvæð áhrif á fjárhag og eykur líkur á andfélagslegri hegðun og heimilisofbeldi.
Aðspurð segist Bryndís hafa haft áhuga lengi á efninu. Valdi hún það vegna þess að lítið hefur verið fjallað um sjónarhorn systkina í erlendum rannsóknum og engin rannsókn hefur verið gerð hérlendis: „Í BA-ritgerð minni skrifaði ég um systkinatengsl og áhrif vímuefnavanda unglings á systkin sín og langaði mig að halda áfram á þeirri braut vegna þess hversu mikilvægt það er að mínu mati að fá innsýn inn í upplifun og líðan systkina þeirra sem átt hafa við vímuefnavanda að stríða. Ég hef lengi haft áhuga á áfengis- og vímuefnafræðum ekki síst vegna eigin starfsreynslu síðastliðin ár með fólki sem haldið er áfengis- og vímuefnaröskun.”
Hvaða ráð hefur þú til systkina sem alast upp með veikan einstakling í lífi sínu?
Mikilvægt er fyrir bæði foreldra, systkin og aðra aðstandendur að fá fræðslu um aðstæður sínar og öðlast skilning á þeim. Þá þurfa foreldrar að fá sérhæfðan stuðning til að takast á við vímuefnahegðun barns síns. Með sérhæfðri fjölskyldumeðferð er hægt að aðstoða fjölskylduna til betra lífs og bæta velferð, lífsgæði og framtíðarmöguleika systkina einstaklinga með vímuefnavanda sem og annarra aðstandenda. Systkin geta upplifað meðal annars reiði, sorg, kvíða, gremju, skömm og öryggisleysi. Það er því er mikilvægt að huga að andlegri og líkamlegri heilsu foreldra. Systkin vilja oft gleymast í óreiðunni sem skapast þegar foreldrar sitja uppi ráðalausir vegna vímuefnavanda barns síns og upplifa oft reiði, sorg og söknuð gagnvart því fjölskyldulífi sem áður var.
Hvað með ráð til foreldra?
Mikilvægt er að fræða unglinga um mögulegar afleiðingar áfengis- og vímuefnaneyslu, að þeir fái fræðslu við að setja sér og öðrum mörk og styrkja jafningjatengslin. Kenna ætti unglingum aðferðir við að standast jafningjaþrýsting og styrkja unglinga í félagslegri færni, samskiptum og persónulegum skuldbindingum. Foreldrar þurfa að auki að fá fræðslu um sitt hlutverk í vímuefnafræðslunni og réttar upplýsingar um vímuefni til að tala við börn sín um vímuefni og vímuefnanotkun. Þegar vímuefnavandi unglings er orðin alvarlegur er mikilvægt að huga að andlegri og líkamlegri heilsu foreldra.
Viðmælendur rannsóknar minnar töluðu flestir um hjálparleysi foreldra sinna sem samræmist niðurstöðum erlendra rannsókna að foreldrar þurfi stuðning og faglega aðstoð til að takast á við vímuefnahegðun unglings síns. Það er því mikilvægt að aðstandendur þ.e. foreldrar og systkini fái fræðslu um vímuefnaröskun einstaklings og áhrif þess á fjölskyldumeðlimi. Oft eru foreldrar ráðalausir og vita ekki hvert eigi að leita og því þurfa bæði skólinn og allir sem koma að barninu að vera á varðbergi gagnvart vanlíðan barns sem gæti tengst vímuefnavanda unglings á heimili. Einnig þarf fagfólk að vera upplýst um þau úrræði sem til eru t.d. fjölskyldunámskeið á vegum SÁÁ fyrir aðstandendur og Foreldrahús sem hafa reynst foreldrum og öðrum aðstandendum vel sem veitir t.d. fræðslu til foreldra og símaráðgjöf allan sólarhringinn.
Hvernig er helst hægt að lýsa svona ástandi sem skapast með ungan, veikan einstakling á heimili?
Niðurstöðurnar styðja við fyrri rannsóknir um að vímuefnaneyslu geti fylgt fjölskylduátök og heimilisofbeldi sem hefur áhrif á félagslega hegðun og andlega heilsu systkina þeirra. Það er ljóst að vímuefnavanda einstaklings fylgir oft ýmiss konar reiðihegðun og árásargirni. Þegar unglingur á heimili er í vímuefnavanda myndast oft fjölskyldukreppa og upplifa fjölskyldumeðlimir þá fjölskyldustreitu, svik, ofbeldi og vantraust innan fjölskyldunnar. Fjölskyldan virkar vel þegar hlutverkin eru skýr og samskiptamynstur á milli fjölskyldumeðlima er opið og jákvætt. Þegar streita er á hinn bóginn viðvarandi verða viðbrögð óskipuleg og óreiða myndast í samskiptum. Hegðun innan fjölskyldu verður óeðlileg og fjölskyldumeðlimir upplifa tilfinningasveiflur. Rannsóknir gefa til kynna að samskipti á milli fjölskyldumeðlima þar sem einn er með vímuefnaröskun geti verið flókin, erfið og aðstæðubundin. Þau geta verið flókin á þann hátt að hjálparlausum foreldrum hætti til að styðja barn með vímuefnaröskun óeðlilega mikið og á kostnað samskipta við önnur börn á heimilinu. Hætta er á að mest öll athyglin beinist að því barni sem á við vímuefnavanda að etja og hegðunarerfiðleikar þess fara að hafa neikvæð áhrif á velferð systkina þess.
Þema sem kom skýrt í ljós í gögnunum var streita og álag vegna ofbeldishegðunar systkina og rifrilda á heimili. Allir viðmælendur töluðu um að rifrildi á milli systkinis í vímuefnaneyslu og foreldris hafi verið mikill streituvaldur á heimilinu og haft mest áhrif á líðan þeirra. Auk þess töluðu flestir um rifrildi á milli foreldra. Viðmælendur upplifðu flestir á einhverjum tímapunkti hræðslu við systkini sitt sem var í vímuefnavanda. Flestir viðmælendur rannsóknarinnar töluðu um rifrildi á heimili, annarsvegar á milli unglings og foreldra og hinsvegar á milli foreldra sinna. Flestir upplifðu streitu vegna áhyggna af ráðalausum foreldrum og upplifðu rifrildið mikinn áhrifavald á sína líðan. Nokkrir hylmdu yfir vímuefnaneyslu systkina sinna til þess að halda frið á heimilinu. Einnig töluðu viðmælendur um að erfitt var að horfa upp á foreldra sína í þessu hjálparleysi og vonleysi og lýstu áhyggjum af foreldrum sínum.
Viðmælendur töluðu um að unglingsár og fyrstu fullorðinsár hefðu einkennst af hjálparleysi og vonleysi en barnæskan hefði einkennst af skilningsleysi barnsins og heimilislífi sem þau hefðu þá haldið að væri eðlilegt en síðar komist að annarri niðurstöðu. Með auknum vitsmunaþroska sögðu þeir hafa áttað sig á því að þetta væri kannski ekki eins og á flestum heimilum. Greina mátti af orðum viðmælenda og frásögnum að þegar fram í sótti og viðmælendur eltust hafi þeir fundið fyrir vonbrigðum, vonleysi, pirringi, hjálparleysi, vanmætti og uppgjöf gagnvart vímuefnaneyslu systkina sinna. Sumir sögðust hafa upplifað hugsanir á fullorðinsárum sem fólu í sér að það væri betra ef systkinið sem átti við vímuefnavanda að etja myndi deyja, þá slyppu þeir við hinar endalausu áhyggjur.
Er um meðvirkni að ræða í fjölskyldum?
Oft hafa aðstandendur þróað með sér ákveðin bjargráð í gegnum erfiðleikatímabil og leggja þá til hliðar slæmu tilfinningarnar, en eru ekki meðvitaðir um tilfinningar sínar eins og einkenni meðvirkni bera með sér. Meðvirkni hefur verið lýst sem eðlilegum viðbrögðum í óeðlilegum aðstæðum. Algengt er í fjölskyldum þar sem einhver glímir við vímuefnavanda að fjölskyldumeðlimir hafi lítið sjálfstraust, skorti trú á eigin getu og treysti um of á aðra.
Viðmælendur rannsóknar minnar lýstu flestir einkennum meðvirkni. Þeir settu eigin þarfir til hliðar, pössuðu upp á að standa sig vel og að koma sér ekki í vandræði þannig að foreldrar þeirra þyrftu ekki að hafa áhyggjur af þeim. Viðmælendur töluðu einnig um laskaða sjálfsmynd og lítið sjálfstraust og nefndu að hegðun systkina í vímuefnaneyslu og áhyggjufullir foreldrar hefðu haft mikil áhrif á líðan þeirra og sjálfsmynd. Viðmælendum bar einnig saman um feluleikinn og skömmina sem fylgdi áfengis- og vímuefnaneyslu systkina þeirra og stundum foreldra. Það hefði verið almenn regla í fjölskyldunni að ekki væri leyfilegt að tala um viðkvæma hluti eða að þeir væru bara ekki ræddir og ekki mátti ræða um tilfinningar eða um vanlíðan.
Hver var niðurstaða rannsóknarinnar? Muntu geta nýtt niðurstöðurnar til hjálpar fjölskyldum?
Niðurstöður rannsóknarinnar gefa vísbendingar um mikilvægi þess að systkin og foreldrar barna með vímuefnaröskun fái aðstoð og ráðgjöf frá fagaðilum, bæði til að auka skilning á heimilisaðstæðum sínum og til að draga úr afleiðingum óeðlilegra fjölskylduaðstæðna. Viðmælendur voru sammála um að rifrildi á milli fjölskyldumeðlima og álag og streita á heimilinu hafi haft mest áhrif á líðan þeirra. Viðmælendur í rannsókninni upplifðu allir öryggisleysi, kvíða, skömm, áhyggjur og reiði í garð systkina sinna í vímuefnavanda. Auk þess upplifðu þeir streitulíðan vegna togstreitu í fjölskyldunni, annarsvegar á milli foreldra og systkinis í vímuefnaneyslu og hinsvegar á milli foreldranna innbyrðis vegna vímuefnaneyslu systkinis.
Þeim fræðimönnum sem hafa rannsakað fjölskyldumeðlimi fólks með vímuefnaröskun ber saman um að vímuefnaröskun eins fjölskyldumeðlims hefur áhrif á lífsgæði annarra í fjölskyldunni. Foreldrar og systkin upplifa streitu vegna hegðunar og atferlis barns eða unglings í vímuefnavanda.
Sumir viðmælendur rannsóknarinnar tengdu vímuefnavanda systkina þeirra við námserfiðleika, jafningjaþrýsting og skort á félagslegri hæfni. Viðmælendur töluðu allir um mikilvægi stuðnings og ráðgjafar við að ráða fram úr vanlíðan vegna streitu og álags í fjölskyldu sinni. Viðmælendur lýstu flestir hjálparleysi foreldra og ráðaleysinu sem fylgir því að eiga barn með vímuefnaröskun, og hvernig þeir upplifðu sjálfa sig útundan í fjölskyldunni vegna þess að orka foreldranna fór að mestu í systkinið sem átti við vímuefnavanda að etja.
Þessar niðurstöður samræmast erlendum rannsóknarniðurstöðum sem greina frá algengi þess að foreldrar upplifi hjálparleysi og skömm auk sektarkenndar vegna vímuefnaneyslu barns síns. Auk þess sem fræðimenn leggja áherslu á mikilvægi þess að foreldrar fái ráðgjöf og stuðning.
Aðstoð er nauðsynleg
Sumir viðmælendur nutu aðstoðar Al-Anon samtakanna sem eru samtök fyrir aðstandendur alkóhólista, til að vinna úr vanlíðan sinni. Það gaf þeim aukið sjálfstraust og sjálfsvirðingu að geta talað við aðra í sömu stöðu og fengið ráðleggingar um líðan sína. Aðrir fengu faglega aðstoð frá sérfræðingi auk meðvirkninámskeiða til að efla sjálfstraust sitt og vinna úr tilfinningum sínum. Nokkrir viðmælenda áttu samheldna fjölskyldu sem nýttist vel til að vinna úr sínum málum.
Leiða má líkur að því samkvæmt niðurstöðum rannsóknar minnar og erlendra rannsókna að börn sem alast upp með systkini í vímuefnavanda þurfi aðstoð til að takast á við líðan sína. Kennarar í skólum og annað fagfólk innan skólaumhverfis, til dæmis skólafélagsráðgjafar, er vel til þess fallið að greina aðstæður barna og hjálpa þeim og fjölskyldum þeirra að draga úr sálfélagslegum skaða. Þegar í hlut eiga börn foreldra með vímuefnaröskun og systkin einstaklinga með vímuefnaröskun, er snemmtæk íhlutun mikilvæg og nauðsynleg til að allir aðstandendur fái aðstoð við hæfi. Snemmtæk íhlutun gæti eflt sjálfstraust barnsins og trú þess á eigin getu og þar með gefið barninu betri framtíðarmöguleika. Það er því mikilvægt að skoða öll nærkerfi barnsins, skóla, heimili og aðrar stofnanir sem tengjast barninu beint.
Rannsóknir á þessu sviði geta gefið innsýn í það hvers konar úrræði, stuðning og ráðgjöf er best að veita til að efla fjölskyldur sem kljást við þennan erfiða vanda. Þær geta um leið gagnast samfélaginu í heild. Með fræðslu og stuðningi er mögulega hægt að auka lífsgæði barna sem búa með systkinum í vímuefnavanda. Fræðsla og stuðningur getur auk þess mögulega bætt lífsgæði foreldra sem eiga börn með vímuefnavanda. Með frekari rannsóknum, aukinni þekkingu og skilningi á upplifun og reynslu einstaklinga sem alast upp með systkini í vímuefnavanda er vonandi hægt að veita systkinum og fjölskyldum þeirra sem eiga við vímuefnavanda að stríða þann stuðning og þjónustu sem rannsóknir hafa sýnt að sé mikilvægur.