Ásgeir var staddur í Ástralíu á dögunum til að kynna væntanlega plötu, Afterglow sem kemur út 5. maí. Þar heimsótti hann m.a. Triple J útvarpsstöðina sem er ríkisstöð sem heyrir undir ABC broadcasting og höfðar sérstaklega til yngri áheyrenda. Þar er venjan að biðja bönd sem spila í útsendingu að taka ábreiðu af vinsælum lögum á stöðinni og Ásgeir skellti sér nokkuð óvænt á rapplagið Love$ick með tónlistarmanninum Mura Masa frá Guernsey. Hér má sjá upphaflegu útgáfu lagsins sem hefur gert það gífurlega gott víða um heim undanfarið og fór m.a. í fyrsta sæti á Spotify Viral listanum bæði í Bretlandi og Ameríku:
Auglýsing
Hér fyrir neðan má svo hlýða á útgáfu Ásgeirs af laginu en hún vakti strax mikla athygli í Ástralíu og hefur fengið yfir 10.000 Like á Facebook-síðu Triple J, yfir 1.000 deilingar, yfir 2.200 athugasemdir og yfir 260.000 áhorf síðan útgáfan var spiluð á miðnætti síðastliðið fimmtudagskvöld að okkar tíma.
Ásgeir naut mikilla vinsælda í Ástralíu þegar In the Silence kom út árið 2014 og lenti King and Cross (Leyndarmál) í 10. sæti á Triple J Hot 100 2014 listanum og í janúar 2015 hélt Ásgeir tvenna uppselda tónleika í Óperuhúsinu í Sydney.
Ásgeir heldur aftur til Ástralíu í júlí þar sem hann spilar á tónlistarhátíðinni Splendour In The Grass og heldur tónleika í Sydney, Melbourne og Perth. Þar mun tónlistarkonan Gordi hita upp fyrir Ásgeir en hún var einmitt stödd hér á dögunum til að taka upp plötu með Alex Sommers og hélt þá tónleika á KEX.
21. júlí: Enmore Theatre, Sydney
22. júlí: Splendour In The Grass
24. júlí: Forum, Melbourne
25. júlí: Astor Theatre, Perth
Auglýsing
Í framhaldinu heldur Ásgeir svo til Suður Kóreu þar sem hann spilar á Valley Rock tónlistarhátíðinni ásamt Sigur Rós, Major Lazer og Lorde meðal annarra og Japan þar sem hann spilar á Fuji Rock ásamt Björk, Lorde, Major Lazer, Gorillaz og LCD Soundsystem svo nokkrir séu nefndir.
Eins og áður segir kemur Afterglow út þann 5. maí næst komandi en frekari upplýsingar er að finna á heimasíðu Ásgeirs.