Ung stúlka tók líf sitt eftir að hafa legið í fimm daga inni á geðdeild. Hafði hún hótað fjölskyldu sinni sjálfsvígi en fjölskyldan reyndi að hafa hemil á líkamsræktarástundun hennar.
Pippa ‘Pip’ McManus hljóp að heiman, fór á lestarstöð og henti sér fyrir lest í Manchester, Bretlandi. Lést hún samstundis. Veikindi Pippu byrjuðu þegar hún var 12 ára og man faðir hennar eftir að hún hafi skoðað hliðarsvipinn á sér í spegli og spurt hvort „kinnarnar á henni væru feitar.“ Hugsaði hann ekkert um þetta þá, en rekur vandann þangað.
Dánardómstjórinn sagði að verið væri að rannsaka hvort Pippu hafi verið hleypt heim of snemma. Foreldrar hennar vissu hversu veik hún væri en þau höfðu ekkert val, hún átti að útskrifast.
Pip var með alvarlega útlitsþráhyggju og hugsaði mest um hvað hún borðaði og hvað hún stundaði mikla líkamsrækt. Hljóp hún mikið, boxaði og át sáralítið. Foreldrar hennar fóru fyrst með hana á jólunum árið 2012 þegar hlutirnir voru orðnir stjórnlausir.
Móðir hennar hefur nú sett á stofn styrktarsjóð Pip Foundation for ABC Anorexia & Bulimia Care og skrifaði hún af því tilefni: „Fallega dóttir mín Pip tók sitt eigið líf þann 9 desember 2015, aðeins 15 ára gömul. Fjölskyldan verður aldrei söm. Hún eyddi síðustu þremur árum af lífi sínum í lystarstoli, vannæringu, þunglyndi og sjálfsskaða. Ég vil ekki að hún hafi lifað til einskis, hún reyndi að hjálpa öðrum í sömu stöðu og ég vil halda því góða starfi áfram.“