Hjón nokkur hafa nú fengið að vita að þau eru tvíburar eftir að þau reyndu að eignast barn með aðstoð tæknifrjóvgunar. Parið ónafngreinda fékk fréttirnar frá lækni sem tók eftir ótrúlegum líkindum í erfðamengi þeirra. Ótrúlegt en satt voru þau aðskilin þegar þau voru smábörn eftir að líffræðilegir foreldrar þeirra létust og þau voru ættleidd til sitt hvorrar fjölskyldunnar og vissu þau aldrei að þau hefðu átt tvíburasystur og -bróður.
Mississippi Herald flutti fréttir af þessu. Þegar þau fréttu að þau væru skyld fóru þau að reyna að púsla saman brotum úr lífum sínum, barnæskunni. Þau komust að því að báðir foreldrar þeirra hefðu látist í bílslysi en vegna mistaka í ættleiðingarskráningu fengu þau aldrei að vita að þau væru tvíburar, fengu aldrei að vita að þau hefðu átt systkini.
Parið hittist í háskóla og átti afar margt sameiginlegt og þau urðu fljótt ástfangin: „Þau drógust að hvort öðru því þau voru svo lík. Þau fundu raunverulega tengingu. Ef einungis þau gætu hafa vitað að þau væru skyld…þau hefðu þá sparað sér mikinn sársauka síðar,“ segir læknirinn sem uppgötvaði í hvernig málunum lá: „Fyrir mér er þetta afskaplega óvenjulegt mál, því það sem ég geri er að hjálpa fólki að eignast barn. Þetta er í raun í fyrsta skipti á ferlinum sem ég er ánægður með að það gekk ekki.“
Refsingin í Mississippi fyrir blóðskömm/sifjaspell eru allt að 10 ára fangelsi og 500 dala sekt en ekki er búist við ákæru vegna óvenjulegra aðstæðna parsins.