„Ég var svangur,“ var svarið sem lögreglumenn fengu þegar þeir stöðvuðu för systkina í bílalúgu McDonalds í Ohioríki í Bandaríkjunum á dögunum. Drengurinn sem er átta ára, tók fjögurra ára systur sína og alla peningana úr sparibauknum. Settist hann undir stýri og hún í framsætið og óku þau af stað. Lögreglumaðurinn Jacob Koehler sagði í viðtali við Morning Journal að lögreglan hefði fengið ótal ábendingar um að það væri barn við stýri í umferðinni. Ótrúlegt nokk virtist litli ökumaðurinn hafa ágætis ökuhæfileika og stöðvaði á rauðum ljósum, hleypti umferð á réttum stöðum og skemmdi hvorki bíl föður síns né aðra bíla!
Ók hann á skyndibitastaðinn sem var nokkra kílómetra frá heimili þeirra til að kaupa eitthvað að borða. Starfsmenn McDonalds héldu að um hrekk væri að ræða og foreldrarnir væru í aftursætinu. Svo var þó ekki.
Þegar lögreglan mætti fór drengurinn að gráta og útskýrði að hann hefði verið svangur og viljað ostborgarar. Hann hafði þá þegar pantað kjúklinganagga og franskar fyrir systur sína. Sagði hann einnig að hann hefði ekki ekið bíl áður en hefði verið duglegur að horfa á kennslumyndbönd á YouTube.
Koehler sagði foreldrana hafa verið sofandi og höfðu enga hugmynd um að börnin hefðu stungið af. Engar kærur voru lagðar fram því ekki var um vanrækslu að ræða; börnin höfðu þá þegar borðað þrisvar þennan sama dag. Foreldrarnir gátu því sótt börnin á lögreglustöðina.