KVENNABLAÐIÐ

Góð ráð fyrir svefninn

Mikilvægi góðrar næringar og reglubundinnar hreyfingar hefur verið mikið í umræðunni á meðan gildi svefns fyrir heilsuna hefur verið vanmetið og viðhorf til svefns jafnvel verið á skjön við það sem telst heilsusamlegt. Margir líta á það sem merki um dugnað og styrk að komast af með lítinn svefn á meðan meiri svefn er tengdur við leti og slóðaskap.

Svefn er náttúruleg hvíld manna og dýra og felur í sér meðvitundarleysi, auk þess sem hlé verður á meðvitaðri líkamsstarfsemi. Svefn er samt ekki hlutlaust ástand því á meðan við sofum eiga sér stað mörg mikilvæg ferli sem stuðla að endurnýjun og enduruppbyggingu líkamans.

Of lítill svefn hefur mjög fljótt áhrif á athygli okkar og einbeitingu, auk þess sem við finnum fyrir orkuleysi og pirringi. Geta okkar til að takast á við það sem dagurinn hefur upp á að bjóða verður minni og það getur auðveldlega komið niður á starfi okkar, fjölskyldu og félagslífi. Rannsóknir sýna að langvarandi svefnleysi getur bitnað á andlegri og líkamlegri heilsu okkar.

Svokölluð líkamsklukka stjórnast að miklu leyti af reglubundnum dægursveiflum á líkamsstarfssemi og birtubreytingum í umhverfi okkar. Góðar og reglubundnar svefnvenjur eru því lykilatriði þegar kemur að því að tryggja góðan nætursvefn.

  • Sofðu eins mikið og nauðsynlegt er til þess að þér líði vel næsta dag, ekki minna og ekki meira.Of langur svefn getur truflað svefnmunstrið.
  • Reglulegur fótaferðatími og reglulegur háttatími styrkir líkamsklukkuna og leiðir til betri svefns.
  • Líkamleg áreynsla í formi daglegrar hreyfingar leiðir til betri svefns
  • Hungur truflar svefn og sama gildir um að vera of saddur.
  • Forðast á örvandi drykki að kvöldi, sérstaklega með koffeini s.s. kaffi, te, kóla- og suma orkudrykki.
  • Áfengi getur hjálpað spenntum manni að sofna en það truflar svefninn og sama gildir um tóbak
  • Tryggja þarf ró í umhverfi og huga áður en lagst er til svefns. Forðast að taka áhyggjurnar með í rúmið
  • Gefðu líkamanum skilaboð um að hann sé að fara í hvíld með því að dempa ljósið og hætta tölvuvinnu/sjónvarpsáhorfi tímanlega fyrir svefn.
  • Gott rúm bætir svefninn og í herberginu ætti að vera hæfilegur hiti, myrkur og kyrrð.
  • Ekki liggja andvaka í rúminu, farðu fram í smástund og gerðu eitthvað allt annað og reyndu svo aftur að sofna
  • Svefnlyf geta hjálpað í stuttan tíma en notkun þeirra til lengri tíma er árangurslaus og jafnvel skaðleg.

Doktor.is – allur fróðleikur um heilsu og lyf!

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!