Sonurinn fannst næsta morgun einn í skóginum með rispur og sár en annars var hann við góða heilsu: Matthew Meinert, 38 ára, tók son sinn Oliver í veiðiferð hjá Grapevine Lake í Texas á mánudaginn síðasta, en báturinn fannst mannlaus við ströndina. Sonurinn fannst sem áður sagði einn í skóginum. Fjölskylda Matthew sendi frá sér yfirlýsingu í dag en lík hans fannst eftir fjögurra daga leit.
Fjölskyldan sagði: „Fjölskylda Matthew Meinert er í sárum eftir að hafa misst yndislegan eiginmann, faðir, son og frábæran vin. Ást hans á konu sinni og Oliver var ótrúleg. Síðustu klukkutímum hans var varið í það sem hann elskaði mest: Að veiða og vera með Oliver. Við teljum að hann hafi vakað yfir Oliver þessa nótt sem hann eyddi einn í skóginum.“ Þau þökkuðu svo leitarfólki og öllum þeim sem komu að málinu.
Matthew hafði tekið selfie með Oliver og sent konu sinni.
Á mánudag fékk lögreglan símtal eftir að báturinn fannst þar sem hann hafði skolað að landi. Hann var tómur fyrir utan síma, skó, veiðidót og björgunarvesti.
Oliver fannst næsta morgun, í stuttbuxum og stuttermabol þar sem hann ráfaði um skóginn. Hann var með nokkrar rispur og sár en spurði strax lögregluna hvort hann gæti fengið djús.
Fjórum dögum seinna fannst líkið eftir að lögregla hafði slætt vatnið. Ekki er grunur um glæpsamlegt athæfi en beðið er eftir niðurstöðum úr krufningu.
Fyrr í vikunni kom sjónvarpsstöðin KVUE með þá kenningu að Matthew hefði fallið útbyrðis en báturinn hefði haldið áfram þar sem vélin var í gangi. Svo hafi hann komið að strönd og stoppað.