KVENNABLAÐIÐ

Áhrif vaktavinnu á heilsu, líðan og svefn

Lengi hefur verið ljóst að vaktavinna hefur veruleg áhrif á líðan manna og jafnvel heilsufar. Það er þó tiltölulega stutt síðan ljóst varð í hverju þessi áhrif liggja og hvaða atriði það eru sem hafa mest áhrif. Vitað er að máli skiptir hvernig vinnan er skipulögð, hvernig vaktir skiptast á og jafnframt að ýmsir aðrir þættir en vinnufyrirkomulagið sjálft hafa áhrif, svo sem eðli viðkomandi starfa, ásamt aldri og heilsufari einstaklings. Hér á eftir verður fjallað í mjög stuttu máli um megináhrif vaktavinnu á svefn, líðan og heilsu starfsmanna, og verður lögð áhersla á niðurstöður rannsókna, sem hafa almennt gildi varðandi skipulag vaktavinnu af ýmsu tagi. Þessar niðurstöður verða tengdar staðreyndum um svefn og dægursveiflur, en flestir eru nú sammála um að samspilið á milli vinnufyrirkomulags, svefns og dægursveiflu er mikilvægast þegar áhrif vaktavinnu eru skoðuð.

Auglýsing

Svefn og dægursveiflur

Veigamesti þátturinn hvað varðar áhrif vaktavinnu á andlega og líkamlega líðan manna, er hvort einstaklingurinn nær að sofa a.m.k. hluta af svefni sínum á venjulegum svefntíma, þ.e. á nóttunni. Svefninn er ákaflega reglulegt fyrirbæri og stjórnast að verulegu leyti af fyrri vöku og tíma sólarhrings. Þannig eru líkur á svefni auknar ef lengi hefur verið vakað og einnig eru auknar líkur á svefni á ákveðnum tímum sólarhrings, þegar líkamshiti er lægstur og önnur starfsemi í lágmarki. Svefninn skiptist í ákveðin svefnstig, sem eru ákvörðuð út frá heilarafriti og hefur hann nánast sömu uppbyggingu og form hjá öllum sem sofa eðlilega og ótruflaðir. Hver nótt skiptist þannig á milli hinna fimm svefnstiga, þar sem um 1% næturinnar er á svefnstigi 1, sem er léttasti svefninn, um 50% á svefnstigi 2, um 20% á svefnstigum 3 og 4 og um 25% í svokölluðum draumsvefni, eða REM-svefni (1).

Álitið er að REM-svefnog djúpsvefn (svefnstig 3 og 4), séu mikilvægustu svefnstigin, enda kemur í ljós að ef þau eru stytt t.d. eina nótt, verður aukning á þeim næstu nótt eða nætur (2). Þannig má einnig sjá hjá þeim sem sofa að jafnaði of lítið, talsverða aukningu á djúpsvefni og jafnvel þannig að svefn þrengi sér inn í vöku að degi til (3; 4). Ef svefnskorturinn er mikill getur viðkomandi jafnvel sofið og/eða sofnað óafvitandi.

Þannig getur svefnskortur valdið verulegri hættu þar sem menn stunda störf þar sem líf og heilsa sjálfra þeirra og/eða annarra er í húfi (5; 6). Í ljós hefur komið að við síbreytilega vaktavinnu, þar sem unnið er á mismunandi tímum, er sérstaklega mikil hætta á því að svefnskortur hafi þær afleiðingar að þreyta og syfja hlaðist upp (7; 8) með þeim afleiðingum að einstaklingurinn verður þreyttur og syfjaður, á erfitt með einbeitingu og athygli og sofnar jafnvel óafvitandi og kannski án þess að vita af því að hann hafi sofið. Þetta síðastnefnda er eðlilegt, vegna þess að einstaklingurinn tekur ekki eftir því að hann hafi sofnað nema svefninn vari að minnsta kosti í tvær til þrjár mínútur. Styttri svefn fer oftast fram hjá mönnum, en er engu að síður svefn með tilheyrandi meðvitundarleysi og skorti á viðbrögðum við umhverfisáreitum. Ef slíkt gerist þar sem menn þurfa á stöðugri athygli og árvekni að halda skapast að sjálfsögðu hættuástand.

Rannsóknir sýna að þetta gerist hjá þeim sem starfa við að vakta tæki og vélar, hjá lestarstjórum á fullri ferð sem bera ábyrgð á mörg hundruð farþegum og jafnvel hjá flugmönnum í flugi, svo ekki sé minnst á ökumenn sem eru einir á ferð, sérstaklega að næturlagi. Í öllum slíkum tilvikum getur óafvitandi svefn, jafnvel þótt hann standi aðeins í örskamma stund, haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar.

Í líkamanum er svokölluð líkamsklukka sem stýrir því hvenær menn vaka og hvenær þeir sofa. Þessi klukka stjórnast að verulegu leyti af reglubundnum birtubreytingum, sem hafa áhrif á framleiðslu hormónsins melatóníns, en það myndast í svokölluðum heilaköngli í heilanum og á mikinn þátt í að stýra svefni og vöku. Þannig verða reglubundnar breytingar á líkamlegri og andlegri starfsemi mannsins á hverjum sólarhring. Hæfni manna til þess að leysa af hendi verk sín, árvekni þeirra, athygli og einbeiting er að talsverðu leyti háð tíma sólarhrings. Þekktar eru ýmsar breytingar á líkamsstarfseminni, svo sem breytingar á hitastigi og ýmsum hormónum sem eru háðar tíma sólarhrings, og einnig eru þekkt vandamál því samfara að reyna að sofa og vaka á öðrum tímum en líkamsklukkan segir til um. Kunnasta dæmið um slíkt er hin svokallaða „þotuveiki“ (jet-lag) sem er fyrst og fremst erfiðleikar við að sofna og vakna eftir langar flugferðir, oftast yfir mörg tímabelti, sérstaklega ef flogið er í austur.

Einnig kemur fyrir, einkum á meðal ungs fólks, að líkamsklukkan seinkar sér verulega og því fylgja erfiðleikar við að sofna að kvöldi og við að vakna að morgni. Sumt vaktavinnufólk upplifir jafnframt ámóta vandræði, þegar það þarf að skipta um vinnutíma/vaktir.

Flestir hafa líkamsklukku sem gengur með um það bil 25 klukkustunda takti, þannig að við 24 stunda sólarhring fer alltaf fram ákveðin tilfærsla. Þó er talsverður einstaklingsmunur hér á, eins og vikið verður að síðar, þannig að sumir hafa styttri dægursveiflu og aðrir lengri. Þetta hefur áhrif á getuna til þess að lagast að breytilegum vinnu- og svefntíma.

Rannsóknir hafa sýnt að þeir sem hafa stutta dægursveiflu og eru yfirleitt kvöldsvæfir og árrisulir eiga oft í erfiðleikum með síbreytilegan vinnutíma og vaktir. Þeir sem hafa langa dægursveiflu og geta auðveldlega vakað lengi á kvöldin og sofið fram eftir á morgnana ráða hins vegar betur við breytilegar vaktir og skiptingar á milli þeirra.

Áhrif vaktavinnu

Margar rannsóknir sýna að vaktavinnufólk fær allt að 7 klst. styttri svefn á viku en aðrir, einnig að allt að 20% þess hóps kvartar um slæman svefn og að margir kvarta jafnframt um einbeitingarörðugleika og þreytu. Því er ljóst að rekja má algengustu erfiðleikana tengda vaktavinnu til tveggja meginþátta, annarsvegar þess að verða að vaka og vinna þegar líkamsklukkan segir að viðkomandi eigi að sofa og hinsvegar þess að sofa þegar líkamsklukkan segir að hann eigi að vaka. Oft er erfitt að sofa á daginn vegna truflandi áreita, svo sem hávaða, og einnig vegna þess að líkaminn er ekki stilltur inn á svefn, nokkuð sem leiðir til styttri svefns og léttari en að næturlagi.

Vaktavinnan hefur þess vegna oft í för með sér, að svefn og hvíld skerðist og þar með minnkar vinnuhæfnin en syfja og þreyta hleðst upp í hverri vaktatörn. Oft reynist erfitt að bæta þetta allt upp í stuttu fríi á milli vaktatarna, sérstaklega ef um er að ræða miklar skiptingar á milli t.d. dag-, kvöld- og næturvakta og ef hvíldartími er skertur, t.d. vegna aukavinnu. Vitað er að líkamsklukkan er á bilinu 5-7 daga að endurstillast alveg og því er ekki raunhæft að búast við að hægt sé að venja sig fljótt við vinnu á nóttunni. Reyndar benda nýjustu rannsóknir til þess að hjá allflestum eigi sér alls ekki stað nein veruleg eða alger aðlögun að næturvinnu og hjá sumum einstaklingum er aðlögunin jafnvel engin eða mjög lítil.(9)

Einstaklingsmunur

Rannsóknir sýna talsverðan einstaklingsmun í aðlögun að vaktavinnu eða síbreytilegum vinnutíma (10). Ljóst er að vinnuskipulagið sjálft skiptir hér mestu máli, en aldur, kyn, persónuleikaþættir, lengd dægursveiflu, félagslegar aðstæður og viðhorf til vaktavinnunnar skipta einnig verulegu máli. Almennt virðist aðlögun að vaktavinnu verða erfiðari þegar fólk eldist og sérstaklega virðast erfiðleikarnir aukast þegar fólk er komið yfir fimmtugt (11; 12). Jafnframt virðist skipta máli hversu lengi einstaklingurinn hefur unnið breytilega vaktavinnu, þar sem menn virðast ekki venjast þessu fyrirkomulagi, heldur virðast erfiðleikarnir aukast eftir því sem lengur er unnið á þennan hátt. Margir vaktavinnumenn gefast því upp eftir nokkur ár, skipta jafnvel um vinnu og fara ef til vill í vaktavinnu aftur síðar á ævinni og a.m.k. í upphafi þolað þetta fyrirkomulag þokkalega. Því er ljóst að hér er um samspil að ræða á milli aldurs og reynslu, þar sem mikilvægt er að gera sér grein fyrir því að reynslan er hér ekki til góðs, heldur þvert á móti (12).

Rannsóknir hafa einnig sýnt, að yfirleitt eiga konur erfiðara með að venjast vaktavinnu en karlar og þær finna til meiri svefntruflana og þreytu en þeir. Hugsanlega má rekja hluta þessa munar til lífeðlislegs mismunar karla og kvenna, en líklegast er þó að félagsleg staða og hlutverk kvenna í nútímasamfélagi ráði hér mestu um. Konur þurfa oftast að sinna heimili og börnum í mun meira mæli en karlar, þrátt fyrir fulla vinnu, og ná því ekki þeirri hvíld og svefni utan vinnutíma sem karlarnir fá. Jafnframt hefur reynslan sýnt að sumar konur sofa verr í kringum tíðir og að sjálfsögðu er mjög algengt að konur fái talsverðar svefntruflanir á meðgöngu. Einnig eru svefntruflanir hjá konum verulega auknar í kringum tíðahvörf. Því er ljóst að taka þarf tillit til þessara sérstöku tilvika þegar um konur í vaktavinnu er að ræða, og þurfa vaktakerfi helst að vera sveigjanleg þannig að þegar og ef tímabundin vandkvæði koma upp, sé hægt að bregðast við þeim á viðeigandi hátt með breyttum vinnutíma.

Þó virðist vera til lítill hópur manna sem lagast vel að síbreytilegum vinnutíma, en flest bendir þó til þess að slík vinnutilhögun verði sífellt erfiðari fyrir fólk þegar það eldist, hún sé erfiðari fyrir þá sem þurfa langan svefn og þá sem eru að eðlisfari árrisulir og kvöldsvæfir (morgunhanar). Þó er hægt að finna leiðir til þess að bæta líðan og svefn vaktavinnumanna, en slíkt þarf þá að gera í tengslum við breytingar á vinnufyrirkomulagi og miðast við skipulag og eðli þeirra verka sem vinna á (13; 14; 15)

Félagslegar aðstæður og andlegt ástand

Reynslan sýnir að vaktavinna hentar verr þeim sem eru að eðlisfari kvíðnir og hafa tilhneygingu til að hafa áhyggjur. Hún hentar einnig verr þeim sem sem hafa neikvæð viðhorf til hennar (16) og hún getur átt þátt í að valda depurð og kvíða í nokkrum mæli (17).

Félagslegar aðstæður vaktavinnufólks skipta líka verulegu máli, varðandi aðlögun að síbreytilegu vinnufyrirkomulagi, þar sem komið hefur í ljós að á meðal vaktavinnumanna eiga sér stað félagsleg samskipti við færra fólk en tíðkast meðal annarra og oft verða samskiptin verri en meðal þeirra sem vinna dagvinnu. Þetta fólk hefur einfaldlega ekki tækifæri til þess að hitta aðra, til dæmis ættingja og vini, í sama mæli og aðrir. Samskiptin innan kjarnafjölskyldunnar hafa einnig tilhneygingu til að versna og getur vaktavinnan leitt til þess að hlutverkaskipting innan fjölskyldunnar breytist eða riðlist. Sá sem stundar vaktavinnu á ekki frí á sama tíma og aðrir í fjölskyldunni, sér jafnvel ekki eigin börn dögum saman nema sofandi, getur kannski ekki tekið þátt í tómstundum fjölskyldunnar nema að takmörkuðu leyti og oft veldur þetta allt saman ákveðinni streitu í samskiptum á milli foreldra og barna og á milli maka. Kynlíf verður oft tilviljanakennt eða líður á annan hátt fyrir hinn síbreytilega vinnutíma. Einnig hafa rannsóknir sýnt að viðhorf maka vaktavinnumanns verða oft afar neikvæð gagnvart þessu vinnufyrirkomulagi, og telja makar oft að þar sé að leita rótanna að þeim erfiðleikum sem verða í hjónabandi og fjölskyldulífi (18).

Auglýsing

Því miður skapast oft vítahringur sem erfitt getur reynst að rjúfa, a.m.k. ef vaktavinnumaðurinn og fjölskylda hans eru ekki vel á verði gagnvart hættunum. (19; 20).

Heilsa

Áhrif vaktavinnu á heilsufar, bæði líkamlegt og andlegt, hafa verið talsvert rannsökuð. Sumar rannsóknir sýna aukna tíðni áfengissýki á meðal vaktavinnumanna og flestar sýna mjög aukna tíðni svefntruflana og svefnlyfjanotkunar. Einnig hafa menn fundið aukna tíðni meltingarvandamála ýmisskonar sem eflaust eru fyrst og fremst streitutengd einkenni og sumir hafa jafnvel haldið fram kenningum um aukna tíðni hjarta- og æðasjúkdóma. Þó eru niðurstöður nokkuð mótsagnakenndar varðandi síðasttalda atriðið (21). Ljóst er að til viðbótar við þá streituvalda, sem vinnan í sjálfri sér eða verkefnin skapa, getur vinnufyrirkomulag, þar sem upp hleðst þreyta og syfja, valdið mjög auknu álagi og sýna rannsóknir aukningu á hormóninu cortisoli, ásamt aukningu í almennri lífeðlislegri örvun hjá vaktavinnumönnum á erfiðum vöktum. (22)

Skipulag vaktavinnunnar

Talsverðar rannsóknir hafa verið gerðar á því hvaða áhrif mismunandi skipulag síbreytilegrar vaktavinnu hefur. Menn hafa gert tilraunir þar sem reynt hefur verið að stytta og lengja vinnutarnir, þar sem athugað hefur verið hvernig best sé að skipta af einni vakt yfir á aðra og hvaða áhrif frítími hefur á frammistöðu manna í vinnu og almenna líðan þeirra.

Samanburður á 8 og 12 tíma vöktum hefur verið undir smásjánni og eru niðurstöður ekki einhlítar. Nokkrar rannsóknir gefa til kynna að 12 tíma vaktir séu mun vinsælli meðal starfsmanna, sérstaklega vegna hina löngu fría sem þeim fylgja, og bendir margt til þess að andleg og líkamleg heilsa starfsmanna geti batnað við slíkt fyrirkomulag (23; 24). Þó er rétt að taka fram að hér er um samanburð að ræða, þar sem hópur manna var færður af 8 tíma vöktum á 12 tíma vaktir, en 8 tíma síbreytilegar vaktir eru það fyrirkomulag sem verst hefur reynst. Því er samanburður af þessu tagi 12 tíma vöktunum í hag. Taka ber fram að einnig hefur komið í ljós að slysatíðni og líkur á mistökum aukast mjög verulega þegar komið er fram yfir 8 klukkustundir á 12 tíma vinnudegi, sérstaklega ef 12 tíma vaktin er að næturlagi. Líkur á mistökum og óhöppum breytast þannig lítið fyrstu 8 tímana, en taka síðan stökk upp á við eftir því sem lengra líður. Við val á 12 tíma vöktum þarf að taka tillit til kosta þeirra og galla og vega og meta hvort er mikilvægara, almenn ánægja starfsmanna með vinnufyrirkomulagið eða aukin hætta á mistökum.

Menn hafa borið saman mismunandi skipulag 8 stunda vakta með tilliti til þess hvernig skiptingar á milli vakta fara fram og komið hefur í ljós að versta líðanin tengist því að skipta um vaktir á móti klukkunni, þ.e. fara t.d. af kvöldvakt yfir á morgunvakt, eða af næturvakt yfir á kvöldvakt. (19) . Því eru nú flestir sammála um að skiptingar eigi helst að fara fram með klukkunni, þ.e. ef breyta á um vinnutíma sé heilladrýgst að seinka honum, þannig verði svefn með skásta móti og líkurnar á langvarandi svefnskorti og vandkvæðum minnki.

Eins og áður er komið fram tekur það líkamsklukkuna um 5-7 daga að laga sig algerlega að nýjum svefn- og vökutíma. Því er ákaflega óheppilegt að skipta um vinnutíma á viku fresti eins og algengt mun vera. Það leiðir til þess að svefn- og vökutakturinn er sífellt að breytast og nær aldrei að stöðvast. Þetta getur leitt til svefnvandamála sem geta orðið varanleg og verulegt vandamál sem þarfnast meðferðar. Mun skárra er að skipta örar um vaktir, þannig að dægursveiflan nái ekki að breytast að neinu marki. Þetta er mögulegt í vaktakerfum þar sem næturvaktir eru verulega færri en dag- eða kvöldvaktir, en erfiðara þar sem næturvaktirnar eru jafnmargar.

Þetta hefur verið rannsakað, og fylgst hefur verið með heilsu, og líðan starfsmanna, einnig svefni þeirra, og hefur komið í ljós að í flestum tilfellum eru örar skiptingar mun skárri og falla starfsmönnum betur í geð. (10) . Með því móti er komið í veg fyrir að dægursveifla einstaklingsins raskist verulega, en þó er þetta háð því að ekki séu margar næturvaktir í röð og því að einstaklingurinn standi vörð um svefntíma sinn, þannig að ekki verði um skrið á dægursveiflunni að ræða.

Vaktafyrirkomulagið sjálft getur því leitt til þess að svefn og hvíld skerðist og það getur leitt til minnkaðrar getu, athygli og árverkni í vinnu, syfja og þreyta hlaðast upp í hverri vinnutörn, ef hvíld er ekki næg og svefn of stuttur, og jafnframt geta skapast vandræði ef ekki næst að bæta upp í vaktafríi þann svefnskort sem síðasta vaktatörn hlóð upp. Þegar um er að ræða mikla aukavinnu, eins og stundum vill verða, verða ofangreind atriði enn alvarlegri og þá verður alltaf erfiðara og erfiðara að vinna upp tapið. Þá hlýtur eitthvað undan að láta, heilsan brestur eða í vinnunni eru gerð mistök sem ekki verða aftur tekin.

Það verður því að gera þá kröfu til vaktavinnumanna, a.m.k. þeirra sem vaka yfir heilsu og öryggi annarra, að þeir fái ekki aðeins eðlilega hvíld á milli vakta, heldur einnig að þeir noti þau frí sem þeir fá til þess að hvíla sig, bæta sér upp svefn ef þurfa þykir og vari sig á hverskyns atferli sem vinnur gegn því að þeir geti sinnt störfum sínum af fullri athygli og með fullum afköstum.

Hvernig má bæta hin neikvæðu áhrif?

Hvað er þá hægt að gera til þess að draga sem mest úr slæmum áhrifum síbreytilegs vinnutíma? Rannsóknir hafa sýnt að eftirtalin atriði eru mikilvæg:

  1. fræða starfsmenn um áhrif vaktavinnu til að gera einstaklingum kleift að fyrirbyggja og/eða milda þessi áhrif
  2. koma í veg fyrir eða fækka sem kostur er vöktum sem sífellt eyðileggja eðlilegan svefntíma, þ.e. svefn á eðlilegum tíma sólarhrings
  3. breyta um vinnutíma með klukkunni, en ekki á móti henni, ef um t.d. þrískiptar vaktir er að ræða
  4. hafa sem mesta reglu á vaktabreytingum og skipulagi .
  5. fræða starfsmenn um svefn og svefnheilsufræði, þannig að þeir geti tryggt sér sem bestan svefn þegar þeir þurfa að sofa
  6. tryggja nægilega langa og góða hvíld og frí á milli vakta, þannig að ekki hlaðist upp þreyta og syfja (koma í veg fyrir aukavinnu sem kemur niður á hvíld)
  7. vanda sem mest til lýsingar á vinnustað þar sem unnið er á nóttunni, þar sem vitað er að framleiðsla melatóníns stöðvast af birtu.Þannig má stuðla að því að starfsmaðurinn verði betur vakandi þegar hann þarf á því að halda
  8. leggja sig stuttan tíma fyrir næturvakt. Það er betra en að leggja sig á vaktinni
  9. taka tillit til þess að vaktavinna eða síbreytilegur vinnutími og næturvinna er erfiðara fyrir þá sem eru kvöldsvæfir og árrisulir
  10. taka tillit til þess að svefn og dægursveifla breytist/styttist með hækkandi aldri og laga vinnufyrirkomulagið að þeim sem eiga orðið erfitt með skiptingar, gefa þeim eldri tækifæri til að hætta vaktavinnu ef mögulegt er
  11. gefa starfsmönnum tækifæri til þess að leggja sig stuttan stund á vaktinni, ef tækifæri er til, þetta bætir líðan þeirra, kemur í veg fyrir óafvitandi syfju, eykur árvekni og bætir athygli
  12. hafa næturvaktir sem fæstar í einu

Lokaorð

Hér hafa í stuttu máli verið tíundaðir kostir og gallar mismunandi tegunda vaktavinnu og reynt hefur verið að tengja þá umræðu við fyrirliggjandi vitneskju um svefn og dægursveiflur. Eins og fram hefur komið er ákaflega mismunandi hvernig vaktakerfi hentar hverjum vinnustað og hverju verkefni og verður að sjálfsögðu að meta það í hverju tilviki fyrir sig. Engar algildar reglur eða leiðbeiningar eru til um hvað sé besta vaktakerfið og því er afar erfitt að meta fyrirfram kosti og galla mismunandi kerfa. Hinar almennu reglur sem tíundaðar hafa verið hér eru að sjálfsögðu mikilvægar við skipulagningu vaktavinnu, en brýnna er að fylgjast kerfisbundið með reynslunni af því kerfi sem er í notkun. Ef slíkt er gert er ekki nóg að spyrja fólk hvernig því líki vinnufyrirkomulagið, heldur er nauðsynlegt að fram fari kerfisbundin rannsókn á svefni og vökuástandi, að fylgst sé með svefnmynstri og dægursveiflum á löngu tímabili, ásamt því að meta á hlutlægan hátt líkamlegt og andlegt ástand þeirra sem í kerfinu vinna. Þannig mætti fá svör við því hvernig kerfið reynist og í framhaldi af slíkri rannsókn má breyta og reyna að laga þá galla sem fram kæmu.

Doktor.is – allur fróðleikur um heilsu og lyf!

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!