Ekki er lífið alltaf dans á rósum og enginn verður óbarinn biskup. Stundum virðist lífið yfirþyrmandi. Allir upplifa einhvern tímann áföll, þjáningar og erfiðleika á lífsleiðinni. Það er hluti af því að vera manneskja. Sumt er hægt að harka af sér og það líður hjá en annað ekki. Þegar maður sér ekki leið út getur utanaðkomandi aðstoð komið manni á rétt spor. Mikla sálræna vanlíðan ber alltaf að taka alvarlega. Sífelldar áhyggjur og varanleg vanlíðan ætti að kveikja viðvörunarljós.
Fyrst er að átta sig á og viðurkenna að maður eigi við vanda að etja sem maður telur sig ekki geta ráðið fram úr upp á eigin spýtur. Maður þarf hugsanlega hjálp ef skapþyngsli, vonleysi, kvíði, áhyggjur, reiðiköst, örvænting, pirringur eða skapsveiflur hrjá mann sem varir í nokkrar vikur samfleytt þó maður reyni að hrista það af sér. Álagið sem fylgir vinnu eða námi fer að verða mjög íþyngjandi og áður auðveldar hversdagslegar athafnir eins og að kaupa í matinn, þrífa, elda eða fara í banka fara að vefjast fyrir manni. Afköst og frammistaða minnkar þá umtalsvert vegna skertrar einbeitingar og eirðarleysis. Oft kemur vanlíðan niður á svefni og hann fer úr skorðum, oft þannig að hann versnar og dagsyfja gerir vart við sig.
Stórvægilegar breytingar á lífshögum eins og skilnaður, slys, sjúkdómur, atvinnu- eða ástvinamissir gera miklar kröfur um aðlögun sem getur verið um megn og kallað á aðstoð. Slæm andleg líðan kemur gjarnan niður á samskiptum við aðra þannig að þau verða íþyngjandi og samskiptaörðugleikar koma ítrekað upp. Erfiðleikar eins fjölskyldumeðlims valda oft öðrum fjölskyldumeðlimum áhyggjum sem geta farið út í það að aðstoðar verður þörf Lágt sjálfsmat fylgir iðulega þegar sálarlífið hefur hlotið skipbrot. Matarlyst getur aukist eða minnkað þegar mikil vanlíðan gerir vart við sig og sumir leita í áfengi eða ávanalyf til að deyfa tilfinningar sínar. Kynlífslöngun minnkar einnig oft þegar vanlíðan gerir vart við sig.
Ef nánustu ættingjar og vinir hafa orð á því að þú sért ekki eins og þú átt að þér að vera er rétt að staldra við. Mikilvægt er að láta ekki eigin stolt og fordóma og fordóma úr umhverfinu hindra sig í því að leita sér hjálpar. Ef maður á ástvini sem maður treystir fyrir sínum innilegustu málum getur verið gott að spyrja þá álits. Ef þú sérð ekki leið út úr vandanum er rétt að leita sér hjálpar. Best er að hlusta á skynsemiröddina innra með sér og horfa raunsætt á eigin vandamál. Rétt er að leita sér aðstoðar fagmanneskju eða hvetja aðra til þess ef vanlíðan er farin að hefta daglega virkni og maður getur ekki lengur eða á erfitt með að gera það sem mann langar og þarf að gera. Því lengur sem beðið er og ekkert er að gert því stærra verður vandamálið og erfiðara viðureignar. Mikilvægt er að bíða ekki þangað til að allt er í þrot komið.
Hér á landi hefur það til langs tíma þótt launungarmál og skammarlegt að kljást við sálræna erfiðleika og fólk ekki leitað sér hjálpar eða gert það seint og síðar meir. Sálræn vandamál geta þó ekki síður krafist meðhöndlunar en líkamleg og eru viðhorf landans að breytast til betri vegar í þessum efnum, sem sést á aukinni eftirspurn eftir sálfræðiþjónustu. Ekki ætti að berjast einn í bökkum ef hægt er að fá aðstoð og létta lífsróðurinn. Sálfræðingur getur hjálpað þér að bera kennsl á vandann og finna út leiðir til að takast betur á við lífið; að breyta neikvæðum hugsunum og venjum og læra uppbyggilegar leiðir til að takast við erfiðar eða að því er virðist óyfirstíganlegar aðstæður.
Hvert á að leita eftir aðstoð?
Það eru ekki aðeins sálfræðingar sem stunda sálfræðimeðferð heldur líka sumir geðlæknar, geðhjúkrunarfræðingar og félagsráðgjafar. Margir leita fyrst til heimilislækna með sálræna vanlíðan og er hægt að biðja þá um tilvísun. Félagsráðgjafar ráðgefa aðallega með félagsleg vandamál eins og búsetu og fjármál en einnig persónuleg vandamál.
Lyfjameðferð getur verið gagnleg samhliða sálfræðimeðferð ef um mikinn vanda er að ræða, en þá þarf einnig að leita til geðlæknis þar sem sálfræðingar ávísa ekki lyfjum.
Geðlæknar hafa sérþekkingu í líkamlegum ástæðum og afleiðingum geðsjúkdóma og geðlyfjum. Geðlyf eru nauðsynleg þegar um erfiða geðsjúkdóma er að ræða eins og geðklofa, geðhvörf og mikið, langvarandi þunglyndi. Þegar lyfin byrja að virka er svo hægt að beita annars konar meðferð.
Sálfræðingar hafa yfir að ráða vísindalegum aðferðum og hæfni og reynslu í að vinna með raunveruleg vandamál fólks. Þeir leita í hagnýtar niðurstöður rannsókna og sumir stunda rannsóknir sjálfir. Þeir sálfræðingar sem stunda meðferð á geðröskunum kallast klínískir sálfræðingar. Þeir hafa þjálfun í að hjálpa fólki að skilja tilfinningar sínar og breyta hegðun sinni og hugsunum til betri vegar. Lágmarksmenntun sálfræðinga er 5 ár hér á landi og þurfa þeir leyfi frá Heilbrigðisráðuneytinu til að starfa. Sálfræðingur með doktorsgráðu hefur að lágmarki 8 ára nám að baki. Sálfræðingar hafa m.a. lært um nám, þroska, hugræna getu, tilfinningar og viðhorf. Til að öðlast sérfræðings-viðurkenningu þurfa þeir að hafa starfað í fimm ár í faginu og endurmenntað sig.
Til að komast að á stofu hjá sérfræðingi getur þurft að bíða í nokkrar vikur svo þar er enn meiri ástæða að draga ekki að leita sér hjálpar. Símanúmer og staðsetningu margra sálfræðinga er hægt að finna í Gulu síðunum í símaskránni undir sálfræðingar og geðlækna er hægt að finna undir læknar og síðan geðlæknar.
Hvernig á að velja sér sálfræðing?
Ágætt er að byrja á því að gera óformlega könnun með því að spyrjast fyrir hvort vinir og vandamenn viti um einhvern álitlegan sérfræðing. Kannski hefur einhver nákominn eða sem maður kannast við sjálfur farið til sálfræðings eða einhver sem viðkomandi þekkir. Hvernig lét hann/hún af viðkomandi? Mikilvægt er að maður velji sér meðferðaraðila með tilskilin réttindi; þjálfun og hæfni. En vert er að hafa í huga að þótt sérfræðingur henti einhverjum öðrum sem mælir með honum er ekki víst að hann henti þér.
Viðkomandi þarf að vera vingjarnlegur og skilningsríkur og vera fær um að veita stuðning, leiðsögn og aðhald. Sá sem þú leitar til þarf að vera fær um að beita aðferðum sem hafa sýnt sig að virka; að kenna þér nýja færni og leiðrétta óraunhæfar hugmyndir um sjálfa(n) þig og lífið.
Hugsanlega þarf að leita til fleiri en eins aðila til að finna þann sem hentar. Okkur líkar misjafnlega vel við fólk og á það einnig við um fagfólk. Við erum öll einstök; með ólíkar væntingar og þarfir og getum ekki búist við að allir uppfylli þær. Prófgráða meðferðaraðila er ekki trygging fyrir að manni líði vel hjá honum. Mikilvægt er að meðferðaraðilinn sé viðkunnanlegur og traustvekjandi því maður þarf að geta rætt um hvaðeina sem manni liggur á hjarta við hann og treyst honum fyllilega. Þér þarf að líða vel í návist viðkomandi svo þú treystir þér til að opna þig tilfinningalega. Gott og traust samband við meðferðaraðilann er forsenda fyrir að árangur náist. Mundu að þú munt þurfa að vinna náið saman með meðferðaraðilanum og því er þýðingarmikið að þér líki vel við hann.
Ágætt er ef nokkrir sérfræðingar koma til greina. Upplagt er að hringja í þá og spyrja þá nokkurra vel valdra spurninga. Meðferðaraðili ætti að vera viljugur að svara hverri spurningu sem upp kann að koma er viðkemur meðferðinni. Ekki hika í símtalinu við að spyrja hvers þess sem þig fýsir að vita t.d. um bakgrunn viðkomandi og meðferðarnálgun. Slíkt er eðlilegt þegar maður kaupir sér dýra þjónustu hverskonar hvort sem er hjá rafvirkja, innanhúsarkitekt, bifvélavirkja eða sálfræðingi. Ef að sálfræðingurinn er ófús að svara spurningum þínum er rétt að leita annað. Síðan er hægt hringja aftur og panta tíma hjá þeim sem manni fannst svara spurningum manns best. Veldu þann sem að þú telur að muni sinna þínum hagsmunum best og þú telur að þér muni geta liðið vel hjá.. Ef þú treystir þér ekki til að hringja og spyrja spurninga fáðu þá einhvern þér nákominn til að gera það.
Gangtu úr skugga um að sá/sú sem þú velur muni verða starfandi næstu mánuði svo þú getir fengið reglulega tíma og þurfir ekki fyrirséð að skipta um meðferðaraðila. Viðkomandi gæti séð fram á að fara í frekara nám, taka sér rannsóknarleyfi eða skipta um starfsvettvang.
Fyrst er eðlilegt að spyrja sjálfan sig nokkurra spurninga:
Hvers konar hugsanir og hegðun er að valda mér vanlíðan?
Hvenær og hvar kemur vanlíðanin upp?
Hversu oft og lengi líður mér svona?
Hvernig truflar þetta líf mitt?
Á hvaða aldri finnst mér æskilegt að meðferðaraðilinn sé?
Hvort vil ég frekar leita til karls eða konu?
Hversu mikið er ég tilbúin að leggja á mig til að ná bata?
Hvaða markmiðum langar mig að ná?
Spurningar sem eðlilegt er að leita svara við áður en meðferð hefst:
Hvaða menntun og reynslu hefurðu?
Hversu lengi hefurðu stundað meðferðarstörf?
Hvaða grunnaðferðum beitirðu í meðferðarstarfinu?
Hversu langan tíma má ég búast við að meðferðin taki?
Hversu reglulega þyrfti ég að mæta og hvað er hver tími langur?
Hvað kostar hver tími?
Mun ég þurfa að leysa einhver verkefni milli tíma?
Hvað mun mikill tími fara í heimaverkefni?
Sérhæfirðu þig í einhverjum sérstökum vandkvæðum?
Hver er biðtíminn að komast að?
Muntu vera starfandi samfleytt næstu mánuði?
Þegar í meðferð er komið
Rétt er að muna að fyrsti tíminn er jafnan erfiðastur og eftir því sem þú kynnist meðferðaraðilanum betur verður auðveldara að mæta þar sem þú veist við hverju þú mátt búast. Ekki skyldi búast við miklum breytingum eftir aðeins nokkra tíma. Lítið gerist jafnan í fyrsta tímanum annað en að gefa bakgrunnsupplýsingar og fyrir meðferðaraðilann að átta sig á vandamálinu. Þú gætir þurft að taka sálfræðileg próf í einhverjum fyrstu tímanna til að greina vandann og meta hvaða meðferðar er þörf. Þú átt rétt á að fá útskýringu á niðurstöðum þeirra prófa sem þú tekur.
Við upphaf meðferðar er rétt að setja sér skýr markmið í samvinnu við meðferðaraðilann og ræða væntingar til meðferðarinnar. Markmið gæti t.d. verið að draga úr kvíða innan um fólk, hætta að fresta sífellt eða að bæta samskiptin við maka. Ekki er auðvelt í upphafi að segja til um hversu langan tíma meðferðin muni taka, en það fer að sjálfsögðu eftir umfangi og eðli vandans. Milli 10 og 20 skipti eru algengur meðferðartími.
Meðferð er samvinnuverkefni og víxlverkandi ferli milli skjólstæðings og meðferðaraðila sem virkar best þegar opinská tjáning og náin, virk samvinna á sér stað. Mikilvægt er að mæta af kostgæfni í alla tíma, mæta tímanlega og fara gaumgæfilega eftir öllum ráðleggingum, en að öðrum kosti er ekki hægt að meta árangur meðferðarinnar. Heimaverkefni skal leysa af bestu getu og ræða ef þér finnst þau of þung eða teljir þau ekki hjálpleg. Best er að vera hreinskilin(n) og ekki búa sér til afsökun ef maður gerir ekki heimaverkefni. Til að fá sem mest út úr hverjum tíma er gott að vera búinn að koma sér upp hugmynd um hvað maður vill ræða fyrir hvern tíma. Gott getur verið að punkta hjá sér eitthvað sem maður vill ræða ef það er ekki þeim mun ofarlegra í huga manns. Til að góður árangur náist þurfa báðir aðilar að vera sammála um hver helstu vandamálin séu og vinna markvisst að lausn þeirra.
Eðlilegt er að þér sé sýnt jákvætt viðmót í meðferðinni; nærgætni og virðing. Meðferðarstjórnandinn ætti einnig að hafa góðan skilning á vandanum sem hrjáir þig og geta miðlað honum til þín. Eftir nokkra tíma ættirðu að hafa meira innsæi í þitt vandamál og finna að þú mætir skilningi. Ef þér líður illa hjá viðkomandi, þér finnst skilningur þinn á vandamáli þínu ekki hafa aukist eða finnst hann ekki skilja þig eftir nokkra tíma skaltu leita annað. Maður þarf að átta sig á af hverju manni líður illa hjá viðkomandi. Er það kvíðinn eða þunglyndið sem var fyrir sem orsakar það eða er það af því að meðferðaraðilinn er óviðkunnanlegur, kaldranalegur eða skilningslaus? Ef þér finnst þú mæta skilningsleysi og vanvirðingu er ráð að skipta um sérfræðing. Passaðu þig þó að taka ekki skyndiákvörðun um að hætta hjá viðkomandi heldur gefðu honum minnsta kosti séns í einn tíma í viðbót. Almenn neikvæðni gæti litað skynjun þína og hlutlaus eða tvíræð ummæli eða merki verið túlkuð neikvætt af þinni hálfu. Spurðu ef þér finnst eitthvað sem meðferðaraðilinn segir illskiljanlegt eða tvírætt. Ef þú ert ekki sammála túlkun meðferðaraðilans skaltu segja það.
Þó svo að þú teljir fyrsta sálfræðinginn sem þú leitar til ekki henta þér er mikilvægt að útiloka ekki sálfræðimeðferð eða alhæfa að allir sálfræðingar séu ómögulegir heldur leita til annars. Mikilvægt er að hafa í huga að aðrir meðferðaraðilar gætu hentað þér betur.
Þú mátt búast við að upplifa vítt svið tilfinninga í meðferðinni þar sem veikleikar þínir, vanlíðan og erfið reynsla er rædd. Það er jafnan ekki sársaukalaust að horfast í augu við eigin hamlandi hugsanir, tilfinningar og hegðun. Hafa skal hugfast að allir meðferðaraðilar eru bundnir þagnarskyldu um skjólstæðinga sína svo maður á ekki að þurfa að hafa áhyggjur af því að viðkvæmar upplýsingar um mann leki út.
Ef þú upplifir bakslag í meðferðinni skaltu ræða það og ekki ásaka meðferðaraðilann þar sem það er algengur hluti bataferlis. Ef þér finnst þú vera í blindgötum eða skorta aðhald og leiðsögn eða finnst ráðin ekki vera að virka skaltu einnig ræða það. Almennt er ráðlegt að tala um vonbrigði, áhyggjur og svekkelsi í tengslum við meðferðina við meðferðaraðilann sem annað sem á manni hvílir því maður gæti verið að gera of mikið úr hlutunum og gera óraunhæfar kröfur til meðferðarinnar. Mundu að góðir hlutir gerast jafnan hægt. Sýndu þolinmæði.
Ekki er hægt að búast við að vandamál sem hefur varað lengi hverfi eftir nokkra tíma. Eftir eins og 10 tíma ætti þó einhver áþreifanlegur árangur að hafa náðst og líðanin að vera betri. Ræddu árangur og væntingar opinskátt við meðferðaraðilann. Maður þarf að vera tilbúinn að leggja talsvert á sig og vinna með meðferðaraðilanum til að árangur náist. Annaðs lagið í meðferðinni ætti að meta framfarir og ræða þær við meðferðaraðilann. Árangur sem sett var upp með að ná í meðferðinni ætti helst að ráða ferðinni hversu lengi meðferðin stendur. Sá sem nær góðu sambandi við meðferðaraðilann ætti smám saman að ná betri tökum á tilverunni og líða betur
Hver er kostnaður og lengd viðtala?
Það er dýrara að leita til sálfræðinga en geðlækna þar sem almannatryggingakerfið hér á landi greiðir niður þjónustu geðlækna en ekki sálfræðinga, en það stendur vonandi til bóta svo kostnaður hindri fólk ekki í að leita sér sálfræðimeðferðar.
Hver tími hjá sálfræðingi er milli 45 mínútur og heillar klukkustundar. Vikuleg viðtöl eru venjan í sálfræðimeðferð til að byrja með, eigi að eiga sér stað einhver almennileg sálræn úrvinnsla, en þeim svo fækkað þegar betur fer að ganga. Fjöldi viðtala fer svo eftir umfangi vandamálsins og er metið í samvinnu við sérfræðinginn. Nokkur stuðningsviðtöl geta nægt en langvarandi meðferðar er þörf ef vandinn er rótgróinn og alvarlegur.
Félagsþjónustan greiðir 10 viðtöl fyrir þá sem eru með mjög lágar tekjur og sum stéttarfélög eru farin að taka þátt í sálfræðikostnaði svo athugaðu réttindi þín ef þú ert í stéttarfélagi. Athugaðu einnig með að fá fjölskylduna til að létta undir með þér ef fjárhagur er hindrun þess að þú leitir þér hjálpar.
Árangur og kostur sálfræðimeðferðar
Sálfræðimeðferð sýnir oft meiri langtímaárangur en lyfjameðferð þar sem fólk lærir aðferðir sem það getur nýtt sér eftir að meðferð lýkur. Einnig eru neikvæðar aukaverkanir fátíðar og hún stendur jafnan styttra yfir en lyfjameðferð. Fólk er líklegra til að eigna árangur af sálfræðimeðferð einhverju sem það sjálft gerði og bæta þar með sjálfsmatið.
Rannsóknir hafa sýnt að atferlismeðferð og hugræn atferlismeðferð sýna hvað mestan meðferðarárangur. Í samanburði eru þær álíka árangursríkar og lyfjameðferð við algengum röskunum eins og þunglyndi, kvíða og fælni. Margar mismunandi meðferðartegundir fyrirfinnast og er það mismunandi eftir meðferðaraðilum hvað þeir stunda, en í dag er algengast að klínískir sálfræðingar stundi hugræna atferlismeðferð. Hún snýst um að bera kennsl á og breyta óraunhæfum og órökréttum hugsunum sem viðhalda vanlíðan. Fólk lærir að skilja tengsl hugsana, tilfinninga og aðstæðna. Áhersla er að leita lausna í núinu en ekki að grafast fyrir um orsakir í fortíðinni.
Consumer Reports gerðu stóra könnun á árangri sálfræðimeðferðar árið 1995 og þar sögðust mikill meirihluti eða 87% þeirra sem höfðu farið í meðferð hafa liðið betur eftir hana. Því lengri sem meðferðin var því betri var jafnan árangurinn. Þeir sem hljóta einhverja sálfræðimeðferð koma jafnan betur út en þeir sem enga meðferð hljóta.
Sálfræðimeðferð er ekki auðveld né sársaukalaus en hún getur margborgað sig. Þeir sem finna sálfræðing sem nær vel til þeirra og þeir treysta, sem leiðir þá kerfisbundið og hnitmiðað gegnum bataferlið og þeir sem eru samvinnufúsir og duglegir að fara eftir ráðum sálfræðingsins ættu að geta náð góðum árangri í sinni sjálfsvinnu. Árangursrík sálfræðimeðferð er ávöxtur náinnar og mikillar samvinnu meðferðaraðila og skjólstæðings. Þegar upp er staðið hefur sjálfsmyndin styrkst, kvíði og önnur tilfinningaleg vanlíðan minnkað, þú lært uppbyggilegar aðferðir til að takast á við lífið og lífsgæði aukist ef vel hefur til tekist.
Maður þarf að muna að engin minnkun eða uppgjöf felst í því að leita sér leiðsagnar við sálrænum vanda. Það felst styrkur í að leita sér hjálpar og er hægt að líta á sem góða fjárfestingu. Ekki berjast ein(n) í bökkum þegar þú getur fengið aðstoð og ráðgjöf fagmanneskju. Okkur finnst sjálfsagt að fara með bílinn okkar í viðgerð ef hann bilar en það ætti að vera jafnsjálfsagt að leita sér sálfræðimeðferðar ef maður finnur fyrir varanlegri vanlíðan.