KVENNABLAÐIÐ

Hvað er til ráða við barkabólgu hjá börnum?

Krúpp er algeng sýking, sem oftast er orsökuð af kvefveirum. Er þessi sjúkdómur algengastur hjá 1 – 2 ára börnum, en kemur fyrir upp að 5 ára aldri (getur sést hjá eldri börnum, en óalgengt). Um 2/3 barna sem leita til læknis vegna þessara einkenna eru drengir, en ekki vitað hvað veldur þessum mun milli kynja.

Einkenni

Sjúkdómsmynd er mismunandi eftir aldri. Flest börn fá einkenni að nóttu til, en einkenni koma vegna bólgu og slímmyndunar í barka eða nærliggjandi loftvegum. Bráðaeinkenni eru oft meiri hjá yngri börnunum, þar sem þau hafa tiltölulega þrengri barka heldur en stærri börn. Börnin vakna gjarnan með sáran hvæsandi / geltandi hósta og geta jafnvel átt í erfiðleikum með öndun. Þetta gerist oft um 1 – 2 klst eftir að þau eru sofnuð. Þau eru þá oftast með hæsi og hvæsandi öndunarhljóð sem heyrist við innöndun (sog). Yfirleitt eru börnin hitalaus eða með lágan hita í byrjun sýkingar. Oft fylgir þessu vanlíðan og hræðsla hjá barninu vegna öndunarerfiðleikanna og foreldrum er stundum verulega brugðið.

Gangur sjúkdóms

Ofangreind einkenni standa yfirleitt yfir í einn eða tvo sólarhringa, en sýkingin gengur oftast yfir á 3 – 4 dögum og eru þá kvefeinkenni algeng. Sumir börn fá eingöngu krúppeinkenni og lagast innan sólarhrings. Einkenni endurtaka sig sjaldan, en einstaka barn hefur tilhneigingu til að fá krúpp endurtekið, en þó sjaldan eftir 5 – 7 ára aldur.

Bráðameðferð

Ef barnið vaknar með andþyngsli er mikilvægt að róa það og sjá til að hátt sé undir höfði. Takið þess vegna barnið í fangið. Ef einkenni minnka ekki getur verið gott að láta barnið anda að sér fersku lofti t.d. fara með það út á svalir eða opna glugga uppá gátt. Kalt loft minnkar yfirleitt bólgusvarið í öndunarveginum. Áður var oft látið anda að sér heitri gufu sem í sumum tilvikum hjálpar. Ef einkennin minnka er gott að hafa hátt undir höfði, þegar barnið er lagt út af. Minnstu börnin má t.d. leggja í barnabílstól. Ef einkenni minnka ekki fljótlega eða eftir 30-60 mínútur á að leita til eða hafa samband við lækni. Ekki er hér um lífshættulegt ástand að ræða, en ef börnin hafa öndunarerfiðleika er hægt að gefa þeim lyf (innúðunarlyf eða steratöflur), sem minnka einkennin.

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!