Jónasi Breka Magnússyni, íslenskum gullsmið og skartgripahönnuði sem staðsettur er í Kaupmannahöfn, var boðið að sýna og gefa vörurnar sínar til stjarnanna á rauða dreglinum í Los Angeles sem fram fer á næstu dögum. Breki, eins og hann kallar sig iðulega, hafði ekki tíma til að undirbúa sig fyrir þennan tiltekna viðburð, þannig hann hefur fengið fleiri boð um stórar sýningar í borg stjarnanna á næstunni.
Aðspurður segist Breki hafa fengið tölvupóst um daginn frá viðburðafyrirtæki í Los Angeles. Hann segir: „Ég hélt fyrst að þetta væri eitthvað scam og byrjaði að googla á fullu ásamt því að láta bróðir minn tékka á þessu líka. En svo var ekki, þetta er alvöru fyrirtæki sem sérhæfir sig í allskonar eventum. Okkur var semsagt boðið að koma og vera með stand í PRE-gift party fyrir Óskarinn sem er núna í febrúar. Tíminn er þó alltof stuttur svo að við náum þessu ekki að þessu sinni.”
Þó Breki hafi ekki komist í þetta sinn standa margar dyr honum opnar því honum hefur verið boðið á fleiri viðburði þar sem honum gefst tækifæri á að koma hönnun sinni á framfæri. Má þar nefna Coahella hátíðina, Emmy verðlaunahátíðina og AMA (American Music Awards).
Hvernig líður Breka með að vera kominn í þennan útvalda hring hönnuða?
„Við erum náttúrulega bara mega spennt yfir þessu öllu saman og það er heiður að vera boðin að koma. Stefnan er að reyna að mæta á einhvern af þessum viðburðum en við erum ekki alveg búin að ákveða hvaða viðburð við ætlum að mæta á! Við erum að skoða alla möguleika.
Ég er bara á fullu alla daga á verkstæðinu sem ég deili með Gúrý, konunni minni, við fluttum verkstæðið okkar fyrir einu og hálfu ári síðan og erum núna á Højbro Plads sem er við Strikinu. Ég sérhæfi mig í giftingahringum og opnaði nýja heimasíðu um daginn sem heitir www.giftingahringar.is. Aðal-kúnnahópurinn minn er á Íslandi en ég sel samt hringa út um allan heim. Hópur fastakúnna í Danmörku er alltaf að verða stærri og stærri. Ég sel í gegnum netbúðina mína www.brekijewelry.com og Facebook www.facebook.com/BrekiJewelry ásamt því að fólk pantar fundi við mig í gegnum síðurnar, mail eða Instagram www.instagram.com/brekijewelry/ ef það vill koma uppá verkstæði.“
Blaðamann fýsir að vita hvort það sé ekki leiðinlegt að ná ekki að fara í Óskarsverðlaunapartýið en Jónas svarar því að það sé ekki einfalt að verða sér úti um slíkt fjármagn, það kosti sitt að fara út og kynna vörurnar sínar og það sé í raun ekki hægt, eins og staðan er í dag, nema að hafa kostunaraðila í bakhöndinni.