Hún var einungis 17 ára þegar hún vann milljón pund í lottói: Í fyrsta skipti sem Jane Park keypti sér lottómiða vann hún.
Hún hyggst nú höfða mál á hendur eigendum lottósins sem leyfa ungmennum undir lögaldri að kaupa miða. Telur Jane að peningarnir séu rót alls ills og hafi eyðilagt líf hennar.
Jane er nú 21 árs gömul og segir að peningarnir hafi gert líf hennar tíu sinnum verra. Hún segist þreytt á að kaupa sér merkjavöru, henni leiðist karlmenn sem eru bara á eftir peningunum hennar og hún kýs helst bara að ferðast til Benidorm en ekki á aðra „snobbaða” staði.
„Ég vildi oftast óska þess að ég ætti ekki krónu. Mér finnst oft að lífið hefði verið auðveldara ef ég ætti ekki pening. Fólk horfir á mig og óskar þess að það gæti leyft sér það sem ég leyfi mér, það óskar þess að eiga peninga. Það áttar sig samt ekki á streitunni sem fylgir því að eiga pening af þessu tagi. Ég á allskonar hluti en líf mitt er innihaldslaust. Hver er tilgangur minn hér á jörð?” spyr Jane.
Jane vill að lögum sé breytt þannig að ungmennum sé hamlað að kaupa lottómiða, en þú þarft að vera 16 ára í Bretlandi til að spila með.
Árið 2013 var Jane að vinna í hlutastarfi og þénaði þúsund krónur á tímann og bjó með móður sinni í þriggja herbergja íbúð í Edinborg, Skotlandi.
Hana grunaði ekki hvaða áhrif peningar gætu haft á líf hennar. Amma Jane sagði við hana: „Þú gætir alveg eins hafa fengið þér byssu.””
Jane skildi ekki þá hvað hún átti við og mótmælti því að þetta væri það besta sem gæti komið fyrir hana.
Í dag skilur Jane hvað amma átti við: 17 ára krakki á ekki að eiga svona mikinn pening.
Hefur Jane farið í fjármálaráðgjöf og á hún núna tvær eignir. Hún segir að fjölskyldan hafi stoppað hana af að eyða öllum peningnum og er að reyna að fjárfesta. Hún keypti sér Louis Vuitton tösku og chihuahua hund en það entist ekki lengi því hundurinn er nú í umsjá frænku hennar: „Það var allt of mikið í gangi, hún hataði bílinn minn og ég hafði ekki tíma fyrir hana.”
Jane keypti sér líka fjólubláan Range Rover sem olli henni engu nema vonbrigðum: „Jú, hann var áberandi og fólk horfði á mig. Hann var samt allt of stór.”
Jane ferðast ekki mikið að eigin sögn…bara fjórum sinnum á ári. Hún hefur komið til Bandaríkjanna og Maldíveyja en kýs helst Benidorm og Magaluf eins og sönnum Breta sæmir. „Ég elska Benidorm. Þú getur verið eins fullur og þér sýnist. Á Maldíveyjum getur þú ekki gert það.”
Hún er nýkomin úr 18 mánaða sambandi sem endaði ekki vel: „Ég jós hann gjöfum. Ég hélt það myndi gera hann glaðan. Keypti handa honum Rolex úr, bíl, ný föt í hverri viku. Ég sé eftir því öllu.”
Jane segist veik fyrir skóm og töskum enda klæðist hún Christian Louboutin hælum fyrir viðtalið: „Það er samt engin glóra í því að versla allan daginn. Ég verð veik af því.”
Jane undirgekkst brjóstastækkun þegar hún var átján ára og vildi fara í fleiri aðgerðir, s.s. fitusog en hún var of grönn fyrir slíka aðgerð. Hún hefði eflaust eytt meiri peningum í lýtaaðgerðir hefði hún mátt það.
Í dag á Jane yfir höfði sér dóm vegna ölvunaraksturs sem átti sér stað í McDonalds bílalúgu og fyrir að hafa ráðist á dyravörð. Hún segir að það sé sjálfri sér að kenna, hún hafi orðið of kokhraust af því að eiga svo mikinn pening og hún hafi verið ung.
Í dag skemmtir Jane sér með öllum gömlu vinunum, þrjú kvöld í viku í Edinborg eða Glasgow.
Hún er virk á samfélagsmiðlum en fær sinn skerf af nettröllum sem segja hana feita eða ljóta: „Það versta var samt þegar ég greiddi fyrir ferðatryggingu ungs drengs sem var of veikur til að ferðast. Þá sagði fólk að ég væri að gera allt til að komast í fréttirnar.”
Jane Park reiðir sig á systkini sín til að halda haus í gegnum þetta allt: „Þau hafa stutt mig á allan þann hátt sem þau geta. Þau vernda mig einnig.”
Jane hefur nú aftur flutt til móður sinnar í litla íbúð og gerir mamma hennar allt fyrir hana…þvær af henni og svo framvegis.
„Það er í raun klikkað hversu líf mitt er ólíkt vina minna. Launin þeirra eru brandari. Það er samt enginn sem skilur mig, enginn hefur sömu reynslu og ég. Mér líður eins og ég sé fertug.”
Þegar blaðamaður spyr hana hvort hún vildi ekki losa sig við allan peninginn sem eftir er, til að losna undan byrðinni, segir Jane: „Ha?” og hlær: „Neeei.”
Heimild: The Mirror