Þórdís Guðmundsdóttir er 39 ára kona sem lengi hefur glímt við andleg veikindi. Saga hennar gæti verið saga okkar allra – við ölumst upp við misjafnar aðstæður á misjöfnum tímum. Þórdís er afar hugrökk kona og gaf hún leyfi fyrir að færsla sem hún setti á Facebook yrði birt á Sykri. Gefum henni orðið:
Enn og aftur til fortíðar: Ég heiti Þórdís og er að verða 39 ára gömul. Ég hef lent í ýmsu, einelti og miklum veikindum, andlegum og líkamlegum í gegnum árin. Ég ætla ekki að telja það allt upp, þeir sem þekkja mig vita hvað það allt er.
Í byrjun desember 2016 kom eitthvað fyrir mig, eitthvað áfall sem ekki hefur fengist almennileg skýring á, það sem gæti verið besta skýringin er að ég hafi fengið vægan blóðtappa í höfuðið sem hafi svo leyst upp fljótlega og sást því ekki á öllum þessum rannsóknum sem ég var send í, kallað TIA.
Aðstæður voru þannig að ég bjó ein á eigin heimili og gekk það ágætlega fyrir utan smá þunglyndi. Ég var nýflutt og orðin þokkalega aktív. Fór í Björgina í Keflavík, var með „mentor“ í listasmiðju sem kenndi mér nokkrar aðferðir í listsköpun og hjálpaði mér að setja upp myndlistarsýningu. Ég var með liðveislu sem kom til mín þrisvar í viku og við góðar vinkonur. Ég var umkringd góðu fólki og á yndislega fjölskyldu sem ég get alltaf leitað til og verið með.
Eitt föstudagskvöldið komu foreldrar mínir í mat til mín, og allt var eðlilegt. Við borðuðum soðinn fisk, svo fóru þau og við ákváðum að hittast daginn eftir. Ég ætlaði að fara til þeirra, en þegar mamma var farin að vera áhyggjufull, hringdi hún í mig og heyrði strax að eitthvað væri að og kom strax yfir til mín. Þá fann hún mig á sófanum í stofunni, algjörlega út úr heiminum og gat ekki tjáð mig við hana og vissi ekkert. Við drifum okkur á spítalann í Keflavík sem benti mömmu og pabba að fara með mig á geðdeild sem ég var víst vön að vera á, en þaðan var ég send á slysó, og grunur var að ég hafi tekið inn ofskammt af lyfjum.
Það náðist ekkert samband við mig, ég var alveg úti á sjó. Frá slysó var ég svo send á aðra geðdeild, sem ég hafði verið fastagestur á í mörg ár, sem var eina deildin sem gat tekið við mér þar sem ég þurfti að vera í einangrun og með yfirsetu yfir mér allan sólarhringinn. Ég var alveg rúmföst, þekkti engan, ekki foreldra mína, ekki einu sinni sjálfa mig né neinn af starfsmönnum deildarinnar, ekki einu sinni lækninn minn sem ég hef verið hjá í u.þ.b áratug.
Ég gat ekkert tjáð mig, var í miklu óráði, gat ekkert borðað né drukkið, var með vökva og næringu í æð.
Allir sem komu inn í herbergið voru í hlífðarfötum, með hanska og grímur og stundum var stór hópur sem stóð yfir mér að reyna að ná sambandi við mig og fá mig til að drekka, en það gekk ekki, ég kunni ekki að drekka almennilega, kastaði öllu upp sem fór ofan í mig. Gat ekki tekið nein lyf, svo allt sem ég fékk var í sprautuformi. Í tvær vikur sem ég var föst í þessu herbergi, þekkti ég engan, gat ekki tjáð mig og var mjög ringluð og hrædd, en gat ekki sagt neitt.
Svo fór ég hægt og rólega að geta talað aðeins, mest bara eitthvað rugl, en ég var farin að þekkja sjálfa mig og foreldra mína og systur. Ég kannaðist við ýmis andlit en gat ekki tengt þau við nöfn. Svo rétt fyrir jól var ég farin að geta farið aðeins fram, með stuðningi og „viðhaldinu“ sem var með vökvapoka og næringarpoka og eitthvað annað. Ég gat gengið, en með skrýtið göngulag, sem ég er reyndar enn með, ég bara geng svona án þess að fatta það. Á Þorláksmessu var slangan í hálsinum á mér tekin og ég átti að fara að reyna að borða eitthvað, sem gekk ekki vel…
Aðfangadagskvöld var mjög erfitt þar sem ég mátti ekki fara heim, en svo seint um kvöldið sagði deildarstjórinn mér að mamma og pabbi hefðu fengið leyfi fyrir mig að koma heim í einn dag, og það var rosalegt…. Þar sem allt var gleymt, ég mundi ekki neitt, þá sá ég svo mikið af nýjum húsum útum allt, bílar útum allt og allt bara svo breytt frá því sem ég síðast mundi.
Ég mundi ekki eftir að hafa verið mikið á geðdeild í mörg ár, greind með þunglyndi, kvíða, geðhvörf, persónuleikaraskanir og fleira. Kannaðist ekkert við það að hafa nokkru sinnum reynt að enda líf mitt. Ég mundi ekki það sem hefur gerst undanfarin ár og margt er enn á huldu fyrir mér. Hlutir eru byrjaðir að rifjast upp, en það eru bara glefsur af hinu og þessu og stundum meikar það ekki sens. Ég man lítið eftir fólki sem hefur verið í kringum mig í langan eða stuttan tíma.
Ég vissi ekki að systir mín væri gift kona með þrjú börn. Ég vissi ekki að amma mín og afi væri dáin, og þurfti að syrgja þau aftur. Allir voru orðnir mikið eldri en ég mundi eftir þeim. Ég vissi ekki hvað væri að gerast í heiminum. Nema það litla sem ég sá í sjónvarpinu og það voru alltaf rosalegar fréttir af stríðum og morðum útum all, heimurinn er svo grimmur orðið. Ég gleymdi fullt af fólki sem ég hef umgengst í gegnum árin, sum komu aftur, ég þurfti og þarf enn að kynnast vinum og ættingjum upp á nýtt.
En þetta er ekki það eina skipti sem ég hef misst minnið svona. Þetta er versta tilfellið, en árið 2008 hvarf ég af geðdeildinni sem ég var á. Fór út að reykja og hvarf bara. Ég man ekkert eftir þessu, þetta er bara það sem mér hefur verið sagt… Löggan fann mig eftir margra tíma leit, niðri á bryggju með fæturnar í vatninu, við það að fara að hoppa útí. Löggan fór með mig á slysó vegna gruns um ofkælingu og mamma og pabbi komu þangað til mín, en ég þekkti þau ekki. Svo rambaði ég bara út af slysó og týndist aftur, en löggan fann mig fljótlega aftur og fór með mig niður á deild, sem ég kannaðist ekki við og þekkti engan þar, þó ég hafi verið þar fyrr um daginn. Ég vissi ekkert hvar ég var, hvað fólk héti, hvað ég væri að gera þarna. Fólki fannst þetta asnalegt og sagði mér að hætta að láta eins og kjáni. Svo vildi til að læknirinn minn var í leyfi og kom ekki aftur fyrr en tveim dögum seinna og sá strax að ég var ekki að láta neitt, þetta væri í alvöru, bara svo mjög sjaldgæft og hefur ekki gerst hérna á Íslandi áður, en hann hafði séð svona þegar hann var í sérnámi í útlöndum.
Svo bjó ég víst um tíma á Selfossi, sem ég man ekki eftir einu sinni núna. En þar leigði ég íbúð í blokk og eitt kvöldið um miðjan vetur, fannst ég fyrir utan blokkina á náttfötunum einum í snjónum og vissi ekkert hver eða hvar ég var. Löggan fann út hvar foreldrar mínir áttu heima og keyrðu mig til þeirra. Þetta var vægasta „gleymskutímabilið“ ef svo má kalla sem ég hef lent í af þeim þrem.
Það veit enginn af hverju þetta gerist. Þetta er sjaldgæft, ég held að ég sé sú eina hérna á Íslandi sem hefur lent í þessu. Læknirinn minn skrifaði grein í Læknablaðið um fyrsta áfallið, þegar ég fannst niðri á bryggju.
Núna er ég enn að læra allt upp á nýtt. Nota farsíma sem eru ekki einu sinni með takka heldur setur maður puttana á skjáinn til að eitthvað gerist. Ég þurfti að læra að nota tölvur almennilega upp á nýtt, skoða Facebook sem ég skildi lengi vel, ekki hvað væri. Og er enn að reyna að skilja það. Ég er að venjast því að búa ein, en fæ mikla hjálp, bæði frá foreldrum mínum og svo félagskerfinu og geðteymi hérna á suðurnesjunum
Ég á hús sem ég kannaðist ekkert við, hund sem ég þekkti ekki. Systrabörn sem ég þurfti að kynnast aftur, sem og önnur börn í fjölskyldunni. Suma ættingja þekki ég strax, þá sem ég þekkti þegar ég var krakki. Margir eru dánir sem ég er að syrgja aftur núna.
Í dag er ég þunglynd og mjög kvíðin, bæði fyrir því sem ég þekki ekki, en á að gera, allt nýtt vekur hjá mér mikinn kvíða. En mest er ég þó hrædd um að svona minnisleysisköst og óráð komi aftur.
Ofan á allt þetta er ég líka að eiga við mikla líkamlega sjúkdóma sem valda miklum sársauka, eins og vefjagigt og hrygggigt. Legslímuflakk og átti að fara í legnám, en því var frestað. Síðasta sumar fór ég í fimm stórar kviðaðgerðir, vegna garnaflækju, kviðslits, sýkinga, samgróninga og alls konar vesen. Það seinkaði því að legnámið yrði framkvæmt.
Ég man ennþá ekki allt sem gerst hefur undanfarið en mér hefur verið sagt frá miklu hvað hefur verið að gerast. Og þið öll sem þekkið mig, en ég ekki ykkur, þá bið ég ykkur afsökunar og bið ykkur um að vera þolinmóð, þetta kemur allt hefur mér verið sagt, og ég vona að það verði þannig.
Takk fyrir lesturinn, ef þú hefur náð að lesa alla þessa runu,
Kær kveðja, Þórdís