Þegar ég var ung var einelti ekki jafn mikið í umræðunni eins og það er í dag. Það var ekki fjallað eins mikið um það og ekki tekið jafn vel á eineltismálum. Að sjálfsögðu vissi maður að það mátti ekki stríða og líka að ef fleiri en einn færu upp á móti einhverjum þá væri það einelti. Ég vissi að einelti væri ljótur hlutur en því miður var ég samt gerandi…ekki af því ég var vond, heldur af því að það var eitthvað að hjá mér.
Sem barn var ég mjög blíð og góð. Þegar ég byrjaði í skóla var mér tekið vel af hinum krökkunum og eignaðist vini, ég var opin og aðrir krakkar sóttust í að vera með mér. Þegar ég var búin að vera í þrjú ár í barnaskóla og var í 3. bekk komu upp ýmis áföll í mínu lífi sem urðu þess valdandi að ég varð óörugg og gekk í gegnum erfið tímabil allt sem gerðist var eitthvað sem ég réð ekki við. Það voru hlutir sem ég valdi ekki að myndu gerast. Mér leið mjög illa.
Aðstæðum mínar voru þannig að ég átti erfitt með að höndla. Á þessum tíma byrjaði ég að leggja í einelti.
Sem gerandi gerði ég mér held ég aldrei grein fyrir hversu slæmar afleiðingar þetta hefði á þá sem ég var að leggja í einelti og að þeir hlutir sem ég gerði og sagði myndu fylgja þeim einstaklingum út lífið. Ég hafði á þessum tíma enga hugmynd um að þetta ætti jafnvel eftir að rista djúp sár í hjarta einhvers.
Þetta var mest óöryggi hjá mér sjálfri, ótti við að verða fyrir höfnun, held ég. Ég lét mína vanlíðan bitna á öðrum sem áttu það ekki skilið. Við sem fullorðnir einstaklingar vitum það að stundum þegar okkur líður illa þá bitnar það á okkar nánustu .
Sem betur fer varði þetta tímabil ekki lengi og í dag hef ég beðið þá einstaklinga sem ég lagði í einelti afsökunar. Ég mun alltaf vera mjög miður mín yfir því sem ég sagði og gerði og mér finnst mjög erfitt að fyrirgefa sjálfri mér það .
Oft held ég að saga eineltisgeranda sé öðruvísi en við höldum.Ég held að í mörgum tilfellum þurfi eineltisgerandinn mikla hjálp. Það geta verið margar ástæður eins og áföll, andlegir sjúkdómar og fleira.
Ég held að það sé mikilvægt að við foreldrar tölum jafn mikið um það við börnin okkar hversu slæmt það er að vera gerandi eins og hvað það er sárt og erfitt að vera lagður í einelti.
Við þurfum að spyrja jafn oft að því hvort að okkar barn sé ekki að passa framkomu sína við hin börnin alveg eins og við spyrjum okkar barn hvernig því líði í skólanum.
Höfundur vill ekki láta nafns síns getið