Frá blaðamannafundi lögreglu sem fram fór í dag var upplýst að þyrla landhelgisgæslunnar fann lík við Selvogsvita. Telur lögreglan að um sé að ræða Birnu Brjánsdóttur. Rannsókn á vettvangi er lokið. Ekki er hægt að segja til um dánarorsök en niðurstöður úr bráðabirgðarannsókn munu liggja fyrir innan nokkurra daga. Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn segir að yfirgnæfandi líkur séu á að henni hafi verið ráðinn bani.
Sigríður Guðjónsdóttir lögreglustjóri las upp fréttatilkynninguna og vottaði fjölskyldu Birnu samúð sína. Lífssýni fundust í bílnum sem og á munum úr skipinu. Taldi Grímur að líklegt væri að henni hefði verið ráðinn bani í bílnum.
Eins og kunnugt er fór stærsta leit björgunarsveitanna fram um helgina þar sem um rúmlega 700 manns af öllu landinu tóku þátt í leitinni. Tveir menn eru í gæsluvarðhaldi lögreglu en þeir voru af togaranum Polar Nanoq. Þeir hafa neitað sök en sönnunargögn hafa leitt í ljós að blóð var í bílaleigubíl sem þeir höfðu til umráða um helgina.
Við sendum ættingjum og vinum Birnu Brjánsdóttur okkar innilegustu kveðjur og megi þau hafa styrk til að komast í gegnum þetta hræðilega mál.
Björgunarsveitarfólk og lögregla fá okkar bestu þakkir fyrir ötult og gott starf þeirra.