Ragnheiður Guðjónsdóttir skrifar: Nú er ég meyr… Síðusta vika hefur tekið á, á milli þess sem ég var ekki í vinnuni hoppaði ég í útkall á kvöldin og nóttinni, þreytan gerði alveg vart við sig en alltaf á maður aðeins meira til að gefa af sér í leitina. Í dag fékk ég frí í vinnunni til að taka áfram þátt í einni umfangsmestu leit sem hefur verið, þökk sé frábærum vinnuveitanda. Svo auðvitað tróð maður tíma þarna inni til að hitta barn og kærasta í mýflugumynd. Elmar Óðinn veit að mamma er úti í verkefni með björgunarsveitinni og Davíð veit hversu mikil skotta ég er, þannig að þetta er ekkert nýtt fyrir honum. Þolinmæðin sem hann hefur.
Um 500 björgunarsveitarmenn og konur voru við leit í dag fótgangandi, á bílum, fjórhjólum, sjóköttum, hundarnir voru auðvitað með. Einnig er leitað með drónum, og úr þyrlu . Þvílík samheldni og fagmennska í þessum hóp. Ég er ótrúlega stolt að vinna með fagfólki sem þessu.
Í björgunarsveitarhúsinu okkar hérna í Hafnarfirði er stjórnstöðin meðan aðgerðin stendur yfir. Allt björgunarsveitar fólk er með aðstöðu þar og er með aðgang að endalausum mat þökk sé fyrirtækjum og stelpunum í slysavarnafélögunum sem smyrja og elda endalaust ofan í okkur og passa að það sé kaffi á könnunni allan tímann og þær hugsa svo vel um okkur að þær eru eins og mömmur manns, passa alveg uppá okkur að allir hafi næga orku.
Ótal fyrirtæki hafa komið með drykki, mat, bakkelsi, ullarsokka, batterí (jújú við þurfum batterí í okkar tæki), einnig var boðin þyrla í verkefni sem auðveldaði okkur leitina á ýmsum svæðum. Svo hefur hinir og þessir komið með nýbakað að heiman. Takk! Þjóðin stendur sko sannarlega saman þegar þörfin er.
Eftir þessa löngu viku hef ég fengið hvatningarorð frá fólki sem ég þekki. Takk og aftur takk, í alvöru þessi orð drífa mann áfram í svona löngu verkefni. Þjóðin hefur ber traust til björgunarsveitarinnar og ég held að ég þá með hreinni samvisku segja að við í björgunarsveitinni erum svo sannarlega til staðar fyrir ykkur eins og þið eruð til staðar fyrir okkur.
Verkefninu er hvergi lokið og leitin heldur áfram.