Haustmánuðir eru frábær tími til að afeitra líkamann og hressa upp á heilsumatseðilinn. Þegar kólna tekur í veðri hægir á efnaskiptunum, en líkaminn fer í eins konar varnarstöðu til að geyma forða til veturs.
Því er haustafeitrunin mikilvægur þáttur í iðkun heilbrigðra venja þar sem þú vilt ekki einungis hreinsa líkamann af eiturefnum, heldur einnig hraða meltingunni og styrkja ónæmiskerfið um leið, allt í þeim tilgangi að hindra óæskilega þyngdaraukningu yfir myrkasta tíma ársins.
Hér fara átta einfaldar leiðir til að afeitra líkamann að hausti, en þó tillagan hljómi einungis upp á viku, er hverjum og einum frjálst að stýra því hversu lengi ferlið stendur yfir, meðan skammdegið gengur yfir – allt í þeim tilgangi að styrkja ónæmiskerfið og örva meltinguna.
Grænt kál:
Grænkál, brokkólí, spínat og agúrkur innihalda gnægt vítamína og minna líkamann á sumarið; reglubundin neysla á grænu káli viðheldur líkamlegri orku yfir myrkasta tíma ársins og hjálpar til við meltinguna, losar um eiturefni og styrkir ónæmiskerfið.
Sætt grænmeti:
Grasker, sætar kartöflur, gulrætur og baunir eru frábær valkostur fyrir hausthreinsunina. Þessi gerð grænmetis, sem iðulega er tekin upp á haustin dregur úr þörf fyrir sætindi og súkkulaði sem hellist oft yfir fólk þegar haustið sækir að. Þetta er tilvalin viðbót á haustmatseðil heimilsins en Beta-Karótínið í gulrótunum og A-vítamínið sem þessi gerð grænmetis inniheldur styrkir líka ónæmsikerfið, verndar hörundið og sjálfa sjónina líka.
Heil korn:
Ef þú vilt hleypa krafti í áætlunina, skaltu bæta heilkornamáltíðum á matseðilinn, samtímis sem þú sneiðir hjá glútenríku fæði og hvítu hveiti. Hafrar, kínóa og fleiri gerðir af hollu korni draga í sig kólestról og óæskileg efni á ferðalagi sínu gegnum meltingarveginn og losa þannig líkamann við eiturefni.
Vatn:
Köld veðráttan á Fróni getur þurrkað upp hörundið, sem er stærsta líffæri líkamans. Til að vernda hörundið gegn ofþurrki í kuldanum og einnig til að hjálpa líkamanum að skola út eiturefni, skaltu því drekka a.m.k. 6 vatnsglös á hverjum degi.
Hreyfing:
Svitinn er besta leiðin til að hita upp líkamann og örva brennsluna, en hreyfing gerir að verkum að líkaminn getur líka brennt og losað sig við öll eiturefni líkamans meðan á afeitrunarferlinu sjálfu stendur. Best er að æfa í ca. 30 – 60 mínútur í einu og til eru fjölmörg líkamsræktarkerfi sem hægt er að velja úr, allt eftir því hvað hentar.
Sykur og sætuefni:
Þú ættir að forðast sykur og gervisætuefni alveg meðan á afeitrun stendur. Sætuefni eru líkamanum ekki holl og innihalda snefilefni sem líkaminn þarf sárlega að losa sig við meðan á afeitrun stendur. Haltu þér því við 2 matskeiðar af Agave sýrópi eða Stevíu á dag að algeru hámarki meðan á afeitrun stendur.
Mjólkurvörur:
Þegar kólnar í veðri, skaltu draga úr inntöku á mjókurvörum í þeim tilgangi að draga úr slímmyndun í öndunarfærum. Eitt glas af léttmjólk ætti að vera nóg á dag, nema skyr eða aðrar mjólkurafurðir verði fyrir valinu. Góð tilbreyting gæti einnig verið að velja möndlumjólk út í kaffið eða í tebollann.
Olíur:
Haltu þér við ólívuolíu meðan á afeitrunarferlinu stendur, til að smyrja líkamann að innan. Ólívuolían inniheldur Omega-3 fitusýrur sem styrkja líkamann og hvetja meltinguna áfram.
Mikilvægasti þátturinn í kerfisbundinni afeitrun er úthald og ákveðni. Gerðu áætlun sem hentar þér best; matar- og æfingaplan sem spannar allan sólarhringinn í heila viku. Þú ákveður upp á eigin spýtur hversu lengi þú vilt halda í við afeitrunaráætlunina, eða detox-planið eins og það er oft kallað í daglegu máli.
Góð leið til að hefja afeitrun er að byrja hvern dag á grænum drykk og hér er frábær uppskrift að einum slíkum frá Unni Pálmars, sem deildi fúslega leyndarmálinu að næringarríkum og hollum morgunverði með lesendum SYKUR nú fyrir skömmu.