Svo þú heldur að ein manngerð sé líklegri til að halda framhjá en önnur? Að karlmaður sem haldi framhjá, sé óhamingjusamur með konunni sinni? Ekki endilega. Í könnun sem gerð var á vegum Rutgers University, kom í ljós að 56% þeirra karla sem hafa tekið hliðarspor í hjónabandinu eru hamingjusamir með eiginkonum sínum. Fæstir eru að hugleiða skilnað, en samt enda þeir uppi í rúmi með annarri konu – og í logandi vandræðum heima eftir á. Hér fara nokkrar staðreyndir um framhjáhöld, orsakir og afleiðingar þeirra:
#1: Flestir menn elska enn eiginkonur sínar þegar þeir halda framhjá:
Framhjáhald á sér oft stað þegar sambandið fer að falla í fastar skorður, þegar parið hefur komið sér fyrir – börn eru komin í heiminn og einfaldleiki hversdagsins fer að taka yfir. Karlmaðurinn finnur kannski til sín sem fyrirvinna, en rómantíkin er horfin úr sambandinu. Karlmenn sem halda framhjá undir þessum kringumstæðum eru jafnvel sannfærðir um að þeir geti ekki fullnægt þörfum sínum heima fyrir. En flestir elska þeir enn konuna sína.
Mótsvar: Í Guðs bænum ekki láta rómantíkina lönd og leið. Fáið ykkur barnapíu. Kryddið kynlífið. Takið frá tíma í lok dags til að ræða áætlanir, drauma og markmið – setjið vinnuumræðuna á bannlista á þessum tíma sólarhrings. Sambandið þarf líka sína daglegu næringu.
#2 – Karlmenn halda venjulega framhjá með konum sem þeir þekkja:
Karlmenn pikka venjulega ekki ókunnar konur upp á skemmtistöðum og snara þeim bak við næsta húshorn. Venjulega er um konu sem karlmaðurinn umgengst reglulega að ræða, jafnvel fjölskylduvin, vinnu- eða æfingafélaga. Konur sem taka þátt í framhjáhaldi eru heldur ekki lauslátar drósir – oft hefst framhjáhald á platónskum vinskap. Yfirgnæfandi fjöldi hliðarspora hefjast á vinnustað og einmitt, byrja á saklausu daðri sem svo þróast yfir í eitthvað alvarlegra og forboðið.
Góð hugmynd: Afbrýðisemi skilar engu. Þú þarft að treysta tryggðarböndin við eiginmann þinn og þú þarft að ganga úr skugga úr um að þú eigir nánari vináttu við hann en vinnufélagar hans. Hjón sem fara til vinnu í sitt hvoru lagi á hverjum degi, annast börnin í sameiningu og reka sitt hvort áhugamálið eru oft í áhættuhópi. Farið saman í rúmið á kvöldin. Og faðmist. Oft og innilega.
#3: Karlmenn halda framhjá til að bjarga hjónabandinu:
Eins fáránlegt og það nú hljómar, elska þeir ófáir konuna sína þó um hliðarspor sé að ræða. En vita ekki hvernig best er að leysa vandamálin í sambandinu. Svo þeir leita út fyrir hjónabandið til að fylla upp í innra tómarúmið. Karlmenn vilja líka njóta heildrænnar ástar; þeir halda bara margir að ef þeir fá þörfum sínum fullnægt fyrir utan heimilið muni tómleikinn hverfa. Að þá geti þeir lifað hamingjusamlega með konunni sinni – og hjákonu sinni – til æviloka. Auðvitað án þess að horfast í augu við vandann. Halló, vinur?
#4: Flestir karlmenn fyllast viðbjóði á sjálfum sér eftir framhjáhald:
Karlmenn sem halda framhjá eru ekki allir siðblindir fávitar sem gera það sem þeim dettur í hug, þegar hugmyndinni slær niður. Þeim líður vel meðan augnablikið stendur enn yfir en fyllast örvæntingu og viðbjóði eftir á, því feluleikurinn og lygarnar geta snúist upp í óbærilega sálarangist. Sú vissa að vera elskaður af annarri konu kitlar, en lygarnar eyðileggja líka forðboðna ánægjuna. Það er ekki jafn auðvelt og ætla mætti að ganga á bak orða sinna og ljúga að eigin ástvinum og reyndar er sú tilfinning ömurleg.
#5 – Karlmenn sem halda framhjá verða oft ástleitnari heima í upphafi ævintýris:
Karlmaður sem stendur í framhjáhaldi getur skyndilega orðið gælinn og sólginn í kynlíf heima. Kynhvötin er í hámarki og eiginkona hans er enn sú kona sem honum liður best með í rúminu. Auðvitað á þetta ekki við um heilbrigða kynhvöt og eðlilegt samneyti hjóna, en ef skyndileg breyting verður á – getur verið um hættumerki að ræða. Þegar sambandið við viðhaldið fer svo að styrkjast… getur kynhvötin fjarað út aftur.
#6: Konur halda líka framhjá en þeirra ævintýri eru áhættusæknari:
Bæði kynin halda framhjá. Þar eru konur ekkert undanskildar. En ástæðurnar fyrir því að kynin tvö halda framhjá eru ólíkar. Konur eru líklegri til að halda framhjá til að svala tilfinningalegum þörfum sínum. Framhjáhald á netinu – án þess að um líkamlega snertingu sé að ræða – er ein mest eyðileggjandi gerð framhjáhalds, því með því að tengjast annarri manneskju traustum tilfinningaböndum (annarri en makanum) er í raun og veru verið að myrða hjónabandið. Ef einungis er um kynlíf að ræða, ef bara er verið að svala líkamlegum hvötum – er hins vegar oft um særandi mistök að ræða.
#7: Kona veit yfirleitt ef eiginmaður hennar heldur framhjá:
Flestar konur gera sér grein fyrir því að eiginmaður þeirra stendur í framhjáhaldi. Sannleikurinn er oft bara svo sár að einhverjar konur kjósa að líta í hina áttina þar til staðan verður óbærileg. Afneitun getur verið sterkur þáttur í því að framhjáhald viðgengst í hjónabandi. Sársaukinn við það að horfast í augu við staðreyndir getur orðið svo yfirgnæfandi að konan þarf ákveðinn aðlögunartíma. Jafnvel eru börn í spilinu, húsnæðislán – ábyrgð. Stundum er ekki í stöðunni að slíta sambandinu fyrirvaralaust.
#8: Útilokað er að lagfæra hjónaband meðan á framhjáhaldi stendur:
Ef hann stendur enn í logandi heitu sambandi við aðra konu, er ekkert sem eiginkona hans getur gert til að vinna í hjónabandinu. Staðan er dauðadæmd nema karlmaðurinn ákveði sjálfur að slíta sambandinu við hjákonu sína. Eina móteitrið eru virkar forvarnir – að rækta hjónabandið og að sinna þörfum ykkar beggja. Galdurinn er að umbreytast ekki úr elskandi ástkonu í tilhugalífinu og í nöldrandi, áhugalausa eiginkonu þegar hversdagurinn hvolfist yfir. Þarna mætti svo snúa kynjahlutverkum við, því ástríkir elskhugar geta líka tekið á sig mynd óaðlaðandi og fjarlægs eiginmanns. Báðir aðilar bera virka ábyrgð á að rækta hjónabandið – framhjáhald er aldrei öðrum aðilanum að kenna – heldur er samspil beggja og skrifast á tilfinningalega vanrækslu.
Þessi grein er útdráttur úr grein sem áður hefur birst á Marie Claire og má lesa í heild sinni hér