KVENNABLAÐIÐ

Heilráð fyrir gæludýraeigendur um áramótin

Sif Traustadóttir dýralæknir skrifar: Ekki eru allir sem hlakka til áramótanna og sprengjulátanna sem þeim fylgja. Hundar eru eðlilega almennt ekki hrifnir af þessum hávaða og látum og sumir eru svo helteknir hræðslu að það er til vandræða fyrir alla fjölskyldunna. Það er einstaklingsbundið hvernig hræðslan lýsir sér. Hundar leita vanalega til eigendanna þegar þeir eru hræddir, en þá er mikilvægt að eigendur ýti ekki undir hræðsluna með látbragði sínu, heldur haldi ró sinni. Í sumum tilfellum er hræðslan svo ofsaleg að dýrið gerir hvað sem er til að komast undan og getur farið sér að voða. Stundum breytist vandinn og hundurinn fer að vera hræddur við öll hvell hljóð og ljós, en ef vandamálið er orðið svo slæmt er rétt að leita til atferlisfræðings, sem getur gefið leiðbeiningar um meðhöndlun.

Hvað á að gera?

Varðandi kisur þá er best að halda þeim alveg innandyra frá morgni gamlársdags og þar til næsta morgun. Kisa sem er úti og verður ofsahrædd við flugelda getur rokið af stað og lent í slysi eða týnst. Það er gott að sjá til þess að kisa hafi öruggt skjól í dimmu skoti sem hún getur leitað í. Það er gott að byrgja glugga og hafa smá ljós til að minnka glampa að utan. Það getur mögulega verið gagnlegt að hafa kveikt á útvarpi með rólegri tónlist eða röddum.

Auglýsing

Ef þetta eru fyrstu áramótin hjá hundinum þínum er mikilvægt að minnka líkur á neikvæðri reynslu. Ekki fara út með hundinn án þess að hafa hann í taumi, jafnvel þótt það sé utan borgarmarkanna. Margir hafa lent í því að missa frá sér hundinn vegna hræðslu og það getur endað með ósköpum þar sem hræddur hundur á flótta passar sig ekki á umferð eða öðrum hættum í umhverfinu. Ef hundurinn sýnir merki um hræðslu þegar byrjað er að sprengja (sem gerist vanalega milli jóla og nýárs, jafnvel fyrir jól) er mikilvægt að eigandinn haldi ró sinni og sýni að engin hætta sé á ferðum með því að látast vera rosalega glaður og ánægður með sprengingarnar en ekki ýta undir hræðsluna með því að vorkenna hundinum, en með því getum við óvart ýtt undir hræðsluna. Það er sniðugt að vera með leikföng og góðbita tilbúin dagana fram að áramótum og á milli jóla og nýárs og leika við hundinn og gefa honum góðbita þegar stakar sprengingar heyrast.

Ef reynsla fyrri ára hefur ekki verið mjög slæm er stundum hægt að afstýra því að vandamálið aukist, með æfingum í desember og gleðilátum í kringum minni sprengingar sem þá verða. Þegar vandamálið er orðið fast í sessi duga þessar æfingar ekki. Þá verður að gera ráðstafanir heima fyrir til að minnka eins og hægt er kvíða dýrsins.

Undirbúningur

Mikilvægt er að útbúa skot þar sem hundurinn getur leitað skjóls ef hann vill en sumir hundar vilja frekar sækja styrk í návist við eiganda. Hugsið um hvert hann hefur leitað áður þegar hann var hræddur, algengt er að það sé inni í herbergi fyrir miðju hússins eða þar sem einhver nákominn dýrinu sefur. Ef til vill er hægt að útbúa skot í búri, stórum kassa eða breiða dúk yfir borð eða rúm svo þar myndist dimm hola. Alls ekki draga hundinn fram ef hann hefur fundið sér öruggan stað, jafnvel þótt þú hafir ekki sömu skoðun og hann á því hvað teljist góður felustaður. Ef hægt er að byrgja fyrir allt ljós í herberginu er best að hafa ljósið slökkt, en ef það eru miklir glampar af sprengingunum er ef til vill betra að hafa kveikt ljós. Gott er að hafa útvarp eða rólega tónlist í gangi til að minnka hljóðin að utan. Ef hundurinn er órólegur við að vera einn þarf ef til vill einhver að vera inni í herberginu, en þá er hægt að skiptast á að vera hjá honum og tala rólega við hann án þess þó að ýta undir hræðsluna með vorkunsemi, best er að sitja róleg/ur og gera eitthvað án þess að veita hundinum of mikla athygli.

Farið reglulega með hundinn út fyrripart dags á gamlársdag og hreyfið hundinn og gætið að því að hann sé búinn að gera þarfir sínar til að hann eigi auðveldara með að vera rólegur inni um kvöldið. Gefið honum vel að borða og gerið það tímanlega þar sem það hefur róandi áhrif á hundinn að vera vel saddur.

Má gefa róandi lyf?

Í sérstökum tilfellum þar sem um ofsahræðslu er að ræða getur verið gagnlegt að gefa hundinum eða kettinum róandi lyf. Ef þú heldur að lyf geti hjálpað dýrinu þínu þarftu að tala tímanlega við dýralækninn þinn og ræða hvaða lyf geti hjálpað. Ekki gefa dýri róandi lyf nema í samræmi við dýralækni. Það er einnig mikilvægt að gefa lyfin í réttum skömmtum og áður en ofsahræðsla er komin fram því þá getur virkni verið takmörkuð.

Valkostir við lyf

Annað sem hefur gefið mjög góða raun fyrir hunda eru ferómón eða lyktarhormón (Adaptil). Þau fást án lyfseðils hjá dýralæknum og best er að fá úðakló sem stungið er í innstungu og dreifist þá efnið um íbúðina, en mannfólkið finnur enga lykt af þessu. Þessi efni draga úr streitu og kvíða hjá hundinum, en engin hætta er á aukaverkunum. Hægt er að fá fram einhverja virkni samdægurs, en það gefur besta raun ef úðaklóin er í sambandi frá því um miðjan desember. Það er líka hægt að fá hálsólar sem virka á sama hátt. Samskonar efni fyrir ketti heitir Feliway og virkar á sama hátt. Annað efni sem virkar líka róandi á allskonar dýr, bæði stór og smá, sem hægt er að fá í úðakló heitir Pet Remedy. Sumir hundar róast við að vera vafið inn eða klæddir í þrönga flík og hægt er að fá svokallaða “Thundershirt” sem virkar kvíðastillandi á suma hunda, en ekki alla. Flest þetta fæst hjá dýralæknum.

Auglýsing

Meðferð til lengri tíma litið

Með langtímameðferð er í flestum tilfellum hægt að minnka eða jafnvel eyða flugeldahræðslu hjá dýrum. Hún felst í því að spila af hljóðdiski flugeldahljóð og venja dýrið þannig við hljóðin smám saman. Til að þetta beri árangur er mikilvægt að byrja tímanlega (helst í byrjun árs), hafa vandaðar upptökur og fara eftir leiðbeiningum sem þeim fylgja. Það er mikilvægt að byrja tímanlega að spila upptökurnar, því það tekur marga mánuði að venja hundinn eða köttinn við þessi hljóð svo best er að útvega þær fljótlega eftir áramót til undirbúnings fyrir þau næstu. Það er fyllilega þess virði að leggja á sig dálitla vinnu til að gæludýrinu líði betur um næstu áramót. Vandaðar upptökur af flugeldahljóðum ásamt leiðbeiningum er hægt að fá á heimasíðunni www.flugeldahljod.com

Best er að skilja gæludýr ekki eftir ein um áramótin en hundar sérstaklega eru mjög háðir því að vera nálægt eiganda sínum þegar þeir eru hræddir.

Ég óska ykkur öllum gleðilegs árs og farsældar á nýja árinu!

___________________________________________________________________________________

Ef þú hefur áhuga á að fá reglulega sendar upplýsingar um heilsu, atferli og þjálfun hunda, auk netfyrirlestra og annars fróðleiks um gæludýr þá getur þú skráð þig á póstlistann minn hér.

Höfundur Sif Traustadóttir, dýralæknir og atferlisfræðingur

Sif er dýralæknir að mennt en hefur lengi haft brennandi áhuga á atferlisfræði dýra og sótti sér sérmenntun í faginu. Hægt er að skrá sig á póstlista hjá henni með því að smella hér og fá vikulega sent fræðsluefni og fréttir um gæludýr. Sif býr á Ítalíu með hundinum sínum, henni Sunnu og þær er hægt að finna á snapchat undir heitinu drsif.

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!