Ruby Ibarra García, 15 ára stúlka í Mexíkó hefur sennilega slegið metið um fjölmennustu afmælisveisluna en þúsundir manna mættu í veislu hennar í litla þorpið La Joya í Mexíkó á annan í jólum. Fólk flaug meira að segja frá Bandaríkjunum til að koma í veisluna, fólk sem hún hafði aldrei hitt.
Allt þetta hófst fyrr í mánuðinum þegar faðir Rubyar, Crescencio, setti myndband á Facebook þar sem hann bauð ÖLLUM í afmælisveisluna: „Við bjóðum þér að koma í afmælisveislu Ruby þann 26 desember í (s. Quinceañera) og öllum er boðið.”
Væntanlega var hann að meina alla í þorpinu en þar sem myndbandið var still t á „public” en ekki „private” fóru Mexíkanar að deila myndbandinu innbyrðis. Fengu þau því 1,2 milljón svara frá fólki sem þau kunnu engin deili á.
Faðir hennar áttaði sig á mistökunum og viðurkenndi þau en sagði að hann myndi ekki banna neinum að koma í veisluna. Varð því veislan alþekkt um alla Mexíkó og víðar og notaði fólkið #XvdeRuby til að merkja fréttir og athugasemdir um viðburðinn. Fréttamenn streymdu að til að fá viðtöl, flugfélag fór að bjóða 30% afslátt af flugfargjöldum og frægir einstaklingar sungu um hana lag.
Þegar stóri dagurinn nálgaðist fór fólk að birta myndir af sér á leið í afmælið. Þúsundir tjölduðu í litla þorpinu og faðir Rubyar fór að hafa áhyggjur af því sem hann hafði skapað og bað fólk að haga sér vel.
Fór svo að afmælið líktist frekar risastórri útihátíð en afmæli, hundruðum bíla var lagt hér og þar og lögreglan þurfti að kalla út liðsauka til að hafa hemil á mannskapnum. Ruby fékk lífverði til að fylgja sér í gegnum mannmergðina en allt fór vel fram.
Óhapp átti sér þó stað þegar hefðbundið veðhlaup hesta átti sér stað en einn reiðmanna féll af baki og lést. Önnur kona slasaðist en veislan hélt áfram.
Lögreglan reiknaði með að um 30.000 manns hafi komið, allt í allt.