Mörg hreyfum við okkur heilmikið í desember við jólaundirbúninginn í formi þramms á milli verslana, þrifa og ýmissa tilfæringa á heimilinu að ekki sé talað um þá sem drífa sig í ræktina, þrátt fyrir annir. Þegar svo jólin ganga í garð erum við orðin úrvinda, pakkasödd hrynjum við í sófann, í læsta hliðarlegu með bók í hönd og konfektkassa í seilingarfjarlægð. Einmitt þegar síst skyldi verðum við að ægilegum innipúkum og bara nennum ekki út fyrir hússins dyr.
Þetta er einmitt sá tími sem við verðum að huga sérstaklega vel að því að fá góða hreyfingu og útiveru. Ekkert er auðveldara en að klæða sig vel, fara í ullarsokka og góða skó, opna útidyrnar og leggja af stað. Göngutúr þarf ekki að vera nema hálf til ein klukkustund á dag til að skila okkur hressum og glöðum heim á ný. Það góða við göngutúrinn er að hann er hægt að fara í hvaða átt sem er út frá heimilin og gera margt skemmtilegt og spennandi í leiðinni:
- Hægt er að ganga um göturnar í hverfinu og skoða öll fallegu jólaljósin.
- Ef við búum nálægt útvistarsvæði er hægt að skoða trjágróður í vetrarbúningi og horfa á smáfuglana leita sér að æti, ekki er vitlaust að vera með brauðmola eða fuglafræ í vasanum.
- Þeir sem eru svo heppnir að búa í nánd við óspillta náttúru geta fengið sér göngu meðfram sjó eða upp í hlíðar og notið útsýnisins í fallegri desemberbirtunni sem hefur yfir sér einhvern sérstakan ljóma.
- Kvöldgönguferðir bjóða stundum upp á stórkostlegan norðurljósadans og stjörnublik sem enginn fær staðist.
Þeir sem vilja ljúka göngutúrnum í afslöppun ættu endlega að bregða sér í sundlaugina eftir gönguna (ef hún er opin). Það er einstaklega notalegt að slaka á í heitum laugum og láta líða úr sér. Sundlaugarnar eru líka í jólabúningi og sums staðar er jafnvel búið að skreyta jólatré og kveikja á kertum eða kyndlum við heitu pottana. Margir eru með heitan pott í garði sínum og þessi árstími er tilvalinn til að nota hann sem mest, hafa jólaseríu í nánd við pottinn og kveikja á kertum eða luktum.
Maturinn sem við borðum er oft mjög saltur, feitur og sykraður og þegar þetta allt kemur saman og að auki mikil innivera, verðum við mörg hver, þrútin, þreytt og kannski dálítið geðvond. Ofantalið getur gert gæfumuninn þegar kemur að líkamlegri og andlegri vellíðan um hátíðarnar.
Allir út að ganga í jólaskapi!
Doktor.is – allur fróðleikur um heilsu og lyf