Maður var handtekinn í Flórída í Bandaríkjunum í síðustu viku fyrir að þykjast vera tannlæknir og að framkvæma tannviðgerðir í hallandi stól í stofunni heima hjá sér. Hafði hann búið til gervitennur og fjarlægt tennur úr fólki og segir lögreglan að stundum hafi hann gert það án deyfingar.
Robert “Robbie” Rheinlander, 53, dró 11 tennur úr einu fórnarlambanna, Rachel Potter. Í eitt skiptið skildi hann hluta af tönninni eftir í kjálkanum. Eiginmaður hennar lét líka draga úr sér tennur og var hann illa leikinn eftir „tannlækninn.“ Þegar hjónin leituðu að Rheinlander á netinu urðu þau þess vísari að maðurinn var alls ekki tannlæknir.
Annar maður lét fjarlægja 10 tennur og sagðist hafa sparað sér um 200.000 krónur.
Rheinlander sagðist hafa verið tannlæknir í Suður-Karólínuríki þar sem hann bjó áður. Þar var hann með leyfi sem tanntæknir frá 2004-2006 og hafði hlotið ámæli fyrir afglöp í starfi af tannlæknasambandinu í því ríki.
Hefur Rheinlander nú verið ákærður eins og áður sagði og var sleppt út gegn 1500 dollara tryggingu.