Mörgum reynist skammdegið þungt, eiga erfitt með að vakna á morgnana og drungi og leiði hellist yfir. Forfeðrum okkar reyndist þessi árstími líka erfiður og löngu fyrir Krists burð sáu menn ástæðu til að gleðjast eftir vetrarsólstöður, þegar sól hækkaði aftur á lofti eða fæddist á ný að þeirra trú, en vetrarsólstöður voru 25. desember samkvæmt eldra tímatali. Orðið jól er gamalt norrænt orð yfir veisla eða blót. Það var svo seinna að kristnir menn fóru að fagna fæðingu Jesús á þessum sama tíma þar sem hann var sonur Guðs skapara ljóss og sólar. Í gamla daga voru jólagjafir kerti og spil og var það hátíðleg stund þegar kveikt var á kertum sem lýstu upp dimm húsakynni og færði fólkinu von um bjartari daga. Í dag brjótum við upp skammdegið með að lýsa upp með seríum og þær eru jafnvel komnar fram í nóvember og látnar standa fram í febrúar.
Það er ekki að ástæðulausu að við sækjum í ljósið og nú hafa rannsóknir sýnt samband ljóss við svefn og andlega vellíðan. Ljós af ákveðnum styrk hvetur framleiðslu á hormóninu serotonin ( hefur m.a. áhrif á skap, matarlyst og svefn) og dregur úr framleiðslu á svefnhórmóninu melantonin. Það hefur gefið góða raun að meðhöndla skammdegisþunglyndi með ljósameðferð og allt að 75% þeirra sem fá meðhöndlun í 14 daga hafa fengið betri líðan. Notaðir eru sérstakir lampar en hægt er að fá þá í raftækjaverslunum. Styrkur ljóssins er mældur í lux einingum og fer eftir styrk lampans hversu lengi þarf að vera fyrir framan ljósið. Einnig eru til lampar sem herma eftir sólsetri og dagrenningu og auðvelda manni að stjórna dægursveiflunni og vakna. Sumir geta veitt sér þann munað að fara suður á bóginn yfir dimmasta tímann og koma sér þannig í gegnum veturinn. Ýmislegt annað er hægt að gera en leggjast í langferðir til stytta veturinn. Maður er manns gaman og gleðilegar stundir, hlátur og göngutúrar yfir miðjan daginn þegar sólin er hæst á lofti auka einnig framleiðslu á gleðihormónum. Í desember og janúar eigum við að kappkosta við að halda okkur í ljósinu. Hengjum upp seríur, kveikjum á kertum og verum innan um fólk.