Heilbrigðisyfirvöld í Texasríki, Bandaríkjunum hafa nú sætt ámæli fyrir að gefa út bækling með þeim boðskap að fari kona í fóstureyðingu auki hún líkur á að fá brjóstakrabbamein. Allar rannsóknir því tengdu hafa ekki sýnt að um tengsl sé að ræða. Lög Texasríkis krefjast þess að konur sem óska þess að undirgangast fóstureyðingu fái bæklinginn sem kallast „Women’s Right to Know” (ísl. Réttur konunnar til að vita) og þarf heilbrigðisstarfsfólk að gefa konum bæklinginn a.m.k. 24 tímum áður en þær gangast undir fóstureyðingaraðgerð. Inniheldur bæklingurinn ítarlegar upplýsingar um fóstrið, þroska þess og hugsanlegar hættur við aðgerðina.
Stuðningsfólk fóstureyðinga í Austin, Texas þann 8.júlí 2013. (AP/The Daily Texan)
Ein af þessum hættum, og það er þetta umdeilda atriði, er sú staðhæfinga að gangast undir fóstureyðingu geti haft í för með sér auknar líkur á að þróa með sér brjóstakrabbamein. Segir þar einnig að rannsóknir séu í gangi sem skoða möguleikana á þessu tvennu tengdu. Samkvæmt American Cancer Society, bandarísku krabbameinssamtökunum segir að ekki séu vísindalegar sannanir fyrir því að fóstureyðing geti haft í för með sér auknar líkur á brjóstakrabbameini eða nokkru öðru krabbameini.
Brjóstakrabbameinsfélag Bandaríkjanna segir að þessi 24 blaðsíðna bæklingur sé mjög umdeildur en hann var í fyrsta sinn endurskoðaður eftir 13 ár. Önnur atriði í bæklingnum segja að fóstureyðingar séu tengdar þunglyndi og sjálfsvígum og að lög banni fóstureyðingar eftir 20 vikna meðgöngu þar sem fóstrið „hafi þá tilfinningar og geti fundið sársauka.“ Flestir sérfræðingar eru sammála um að á þessu stigi sé fóstrið ekki fært um að finna sársauka.
Donald Trump, eins og kunnugt er, er andvígur fóstureyðingum og hefur þetta óneitanlega áhrif í svo íhaldssömu ríki og Texas er.
Heimild: The Washington Post