Besta ráðið til að koma í veg fyrir „rauðvínshöfuðverk“ er að sjálfsögðu að sleppa því! Sumir geta þó ekki án hins rauða verið en kvarta yfir höfuðverk daginn eftir. Súlfötum er aðallega um að kenna telja margir en önnur efni gætu líka spilað inn í. Sumar rannsóknir telja að náttúrulegt efni í víninu sem kallast þíramín geti orsakað höfuðverki, sennilega vegna þess hvernig það hefur áhrif á blóðþrýstinginn. Í rauðvíni er sérstaklega mikið af histamíni sem fólk þolir ekki.
Það sem getur þó hjálpað fólki sem fær höfuðverki eftir rauðvínsdrykkju er að taka ofnæmislyf áður en glas er teygað. Tannínið í víninu eykur serótónínframleiðslu og oft kemur höfuðverkur af breytingu á serótónínmagni í heilanum. Einnig má breyta yfir í hvítvín þar sem tannín finnst aðallega í berki og steinum vínberjanna (fjarlægt áður en hvítvín er framleitt) en einnig má skipta yfir í pinot noir sem inniheldur minna tannín.
Skál!