KVENNABLAÐIÐ

Allir gera mistök – hættum að dæma aðra

Karen Lind Harðardóttir skrifar: Nýlega las ég tilvitnun, en það er deilt um hvaðan hún kemur. Hún hljómar í þessa átt: „Munurinn á því að elska eitthvað og líka vel við eitthvað… þegar þér líkar vel við blóm þá tekur þú það upp frá jörðinni… þegar þú hins vegar elskar blómið, þá vökvar þú það daglega.“

Mér finnst þetta einstaklega falleg leið til þess að horfa á lífið. Meginmarkmiðið þegar við virkilega elskum einhvern ætti alltaf að vera „hvað get ég gert til þess að hjálpa þér að blómstra?“. Þá er ég líka að tala um okkur sjálf. Þetta ættum við líka að segja við okkur sjálf. „Hvað get ég gert til þess að hjálpa mér að blómstra?“

Svo getum við yfirfært það á alla þá sem við elskum. Hvernig hjálpum við okkur sjálfum og þeim sem við elskum að líða vel? Hvað getum við gert? Það að líka vel við einhvern er ekki það sama og að elska einhvern, en þetta tvennt er oft misskilið sem sami hluturinn þ.e. ekki í orðræðunni sjálfri heldur hugmyndinni. En það kemur fyrir að fólk heldur að það elski einhvern þegar þeim líkar einfaldlega bara vel við hann. Nærvera einstaklingsins lætur þeim líða vel. En þegar þú virkilega elskar einhvern þá gerir þú þitt besta til þess að hjálpa einstaklingnum að rækta sjálfan sig.

Auglýsing

Þá er ég ekki að meina að gerast sálfræðingur einstaklingsins, alls ekki. Það sem ég er að meina er að sýna umhyggju, skilning, alúð og væntumþykju. Að einstaklingurinn upplifi það að þú sérð, heyrir og skilur hann. Nákvæmlega eins og hann er og ef hann gerir mistök að taka þá ákvörðun að sýna einstaklingnum skilning í því. Í stað þess að byrja á því að pirrast út í einstaklinginn fyrir að gera mistökin, þá er ég með aðra hugmynd. Þegar mistök verða eru þau yfirleitt ekki viljandi, svo í stað þess að hoppa strax í „af hverju þarftu alltaf að gera þetta“ gírinn. Hvernig væri þá að vinna í sameiningu að lausn til þess að koma í veg fyrir að mistökin verði endurtekin. Hjálpa einstaklingnum að fara aðrar leiðir og styðja hann í því. Því við lærum í raun ekkert af því að vera sífellt dæmd fyrir mistökin okkar, við verðum frekar bara hrædd og stressuð við að gera þau aftur. Jújú, það gæti kannski virkað fyrir einhverja en það veldur manni bara enn meiri áhyggjum ef mistökin verða svo óvart endurtekin.

Þegar við vinnum saman að því að bæta úr aðstæðum og erum til staðar alla leið upplifir einstaklingurinn ekki þessa hræðslu og vanlíðan yfir því að gera mistökin. Þetta er ekkert annað en ferli og ferli tekur sinn tíma og þolinmæði. En ef við vinnum saman að markmiðinu verður ferðalagið ekki eins erfitt. Mistök eru bara mistök og þau eru mannleg. En ef við elskum einhvern (okkur sjálf einnig) þá hjálpum við þeim (eða okkur sjálfum) að finna leiðir til þess að bæta úr þeim og koma í veg fyrir endurtekningu þeirra. Engin mistök eða ágreiningur er þess virði að vera það fyrsta sem við segjum við hvort annað þegar við hittumst. Ef við virkilega elskum einhvern þá tökum við alltaf vel á móti honum/henni. Við vitum aldrei hvað einstaklingurinn hefur upplifað yfir daginn, við vitum aldrei hvernig honum líður þegar hann kemur heim. Hvernig vilt þú að það sé tekið á móti þér þegar þú kemur heim? Yfirleitt þegar við viljum hitta einhvern sem okkur þykir vænt um langar okkur að taka utan um þann aðila, heyra hvað hann hefur að segja, sjá framan í hann og finna fyrir nærveru hans. En þá er það ekki gott fyrir neinn að það fyrsta sem þið segið við hvort annað sé hvað þið séuð orðin þreytt á einhverjum mistökum.

Það veldur því bara að einstaklingnum kvíði fyrir að hitta ykkur. Kvíði fyrir að hafa ekki verið nógu duglegur yfir daginn eða í þá áttina. Kvíði fyrir að endurtaka mistök. Það eru ekki góð samskipti. Hvernig væri frekar að taka utan um hvort annað, ræða saman um daginn ykkar og svo eftir smá tíma nefna það kannski við hvort annað að það hafi verið gerð smá mistök, hvort það væri ekki hægt að passa betur upp á það. Þá hefur einstaklingurinn alltaf það hugarfar að sama hvað hefur gerst þá mætir honum alltaf hlýja og skilningur þegar hann hittir þennan einstakling. Þeir vita báðir að ef mistök verða þá geta þeir rætt þau saman í rólegheitum og fundið lausn á því.

Ekki dæma. Því yfirleitt þegar við erum dæmd fyrir að gera einhvað hefur það neikvæð áhrif á okkar eigin sjálfsmynd. Sýnum frekar skilning og aðstoðum hvort annað. Ekki vera sífellt að rifja upp mistök hvors annars. Reynið að vinna saman að því að bæta úr þeim. Því mistökin eru yfirleitt ekki viljandi. Hvers vegna að vera að rifja þau upp. Mistök eru til þess að læra af þeim, ekki til þess að vera nýtt sem vopn gegn manni seinna meir. Hjálpist að ef einhvað þarf að laga, ekki gagnrýna. Höldum vel utan um þá sem okkur þykir vænt um og minnum þá á að það er alltaf hægt að finna einhverja lausn frekar heldur en að einblýna alltaf á vandamálið sjálft. Hugsum í lausnum en ekki vandamálum og hjálpum hvoru öðru ef við erum í vandræðum. Því ástin snýst um umhyggju og hlýju. Að vera alltaf til staðar, sama hvað. Að geta fyrirgefið hvoru öðru fyrir það sem við gerum vitlaust og reynum í sameiningu að bæta það sem við getum bætt. Ástin snýst ekki um samanburð eða keppni um hver stendur sig betur. Alls ekki. Ástin snýst um að hjálpa hvort öðru að líða vel og vera örugg með eigin ákvarðanir og okkur sjálf almennt. Lífið er alltaf að kenna manni einhvað nýtt.

Auglýsing

Við kunnum ekki að bregðast við öllu um leið og við fæðumst. Allt lærist. Líka það hvernig við getum gert hlutina betur. En það langar engum að læra ef hann er dæmdur hvert sinn sem hann gerir villu. Hins vegar myndi það ekki vera eins leiðinlegt og erfitt ef í hvert sinn sem hann gerði villu sé honum sýnt leiðir til þess að gera hlutina öðruvísi og sagt að þetta sé allt í lagi. Sama þó svo hann skilji það ekki fyrst. Það er bara eins og við segjum við börnin. „þá er bara að æfa sig“. Ef þú elskar einhvern njótið frekar ferðalagsins saman og sigrist í sameiningu á öllum hindrunum sem lífið getur hent á ykkur. Ég ákvað að skrifa niður nokkur viðmið sem mér finnst eiga við

1. Engin mistök/ágreiningur eru þess virði að vera það fyrsta sem þið nefnið við hvort annað þegar þið hittist ef þið elskið hvort annað.

2. Takið alltaf vel á móti hvoru öðru og sýnið hvoru öðru væntumþykju og hlýju.

3. Sýnið hvoru öðru skilning óháð því hvort þið séuð sammála eða ekki.

4. Minnið ykkur á að þó svo einhvað hafi ekki neikvæð áhrif á ykkur þá gæti það vel haft neikvæð áhrif á næsta mann.

5. Takið tillit til þess að það fólk bregst mismunandi við ólíkum aðstæðum.

6. Það að hafa rétt fyrir sér er ekki mikilvægara en eigin líðan og líðan annara. 7. Hjálpist að við að leysa vandamál ef þau eru til staðar, ekki gagnrýna eða dæma. Það gerir ekkert gagn.

8. Aldrei lofa einhverju sem þið getið ekki 100 % staðið við.

9. Það hefur enginn rétt á því að segja þér að líðan þín eigi ekki rétt á sér. Allir hafa rétt á því að líða eins og þeim líður. Óháð því hvað raunverulega gerðist.

10. Ræðið hvers vegna ykkur líður eins og ykkur líður, oft gerir maður sér ekki grein fyrir því að maður hefur gert einhvað rangt. Þá er bara hægt að ræða málin.

11. Gefið öllum aðilum tækifæri til þess að segja frá sinni upplifun til þess að hægt sé að finna út hver orsökin fyrir ágreiningnum var og hjálpist svo að við að finna lausnir til þess að leiðrétta orsökina.

12. Elskið hvort annað óskuldbundið.

13. Aldrei nota einhvað sem þið tókuð sjálf ákvörðun um að gera fyrir hinn aðilann sem einhvað vopn til að nota seinna meir.

14. Komið hreint fram við aðra og treystið því að aðrir geri það sama. 1

5. Gerið ykkur grein fyrir því að ekkert er fyrr en það verður. Þ.e. að hugsanir verða ekki að raunveruleika fyrr en þær verða að raunveruleika. Ekki lifa í „hvað ef“ eða „kannski er“ hugmyndum, lifum í því sem„er“.

16. Finnið út á hverjum degi hvað sé það mikilvægasta sem þið getið gert þann daginn fyrir ykkur sjálf og þá sem ykkur þykir vænt um og gerið það fyrst og fremst. Eftir það er hægt að gera allt hitt.

17. Ekki gagnrýna upplifanir annara, þið getið aldrei vitað hvernig þeim líður. 18. Þakkið fyrir alla litlu hlutina í lífinu. Stundum gleymast þeir.

19. Minnið ykkur á að þið vitið aldrei hvað getur gerst. Njótið augnabliksins og hugsið vel um þá sem ykkur þykir vænt um (ykkur sjálf meðtalin).

Bestu hjartans kveðjur, Karen Lind Harðardóttir

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!