Sigurveig Káradóttir skrifar: Það var til alveg sérlega fallegur en þó frekar lítill hvítkálshaus í ísskápnum sem ég gat ekki með nokkru móti hugsað mér að steikja eða bæta við eitthvað bragðmikið, þannig að úr varð hrásalat.
Sem ég borða vanalega ekki og finnst frekar ólystugt í dósum úti í búð og eins þegar það er borið fram á veitingastöðum. Af hverju – veit ég ekki. Kannski var of mikið af hrásalati í æsku? En það var svo sem færra til þá.”Í gamla daga!“
Iceberg, gúrka og tómatar eða hrásalat. Og ekkert Internet. Til dæmis.
Hvítkálshausinn góði kom hingað heim með eiginmanninum í vikunni sem leið, eftir ferð í Hveragerði. Kom úr gróðurhúsi konu að nafni Ljúba, sem sendi hann einnig heim með alveg dásamlegt basil og fleira góðgæti.
Hér er einfaldasta „uppskrift” í heimi og kannski sú ferskasta:
1 lítill hvítkálshaus
4 frekar litlar gulrætur
1 grænt epli
1 dós grísk jógúrt (400 gr minnir mig)
væn sletta eða tvær af hvítvínsediki (eða þrjár eða fjórar)
safi úr einni lítilli appelsínu
sjávarsalt og pipar – smá af hvoru
Hvítkál, gulrætur og epli lentu í mandólíninu og rifust þar alveg heil ósköp áður en þau lentu í skál með jógúrt, ediki, appelsínusafa, salti og pipar.
Þessu var síðan hent í ísskápinn og leyft að jafna sig á meðan ýmislegt annað gerðist
Eins og til dæmis þessir kjúklingaleggir í teryaki.
Verði ykkur að góðu!