Margir eiga eftir að sakna forsetafrúarinnar þegar hún yfirgefur Hvíta húsið. Frá því að Michelle Obama steig fram á sjónarsviðið árið 2007 hefur hún verið ötul talskona ýmissa mála og einnig hefur hún verið afar smekklega klædd! Hún hefur klæðst helstu hönnuðum heims og nú, rétt fyrir brottför hennar úr Hvíta húsinu er hún í flottu viðtali við bandaríska Vogue.
Myndirnar tók engin önnur en Annie Leibovitz og voru myndirnar teknar heima hjá Michelle. Hún klæðist flíkum frá Carolina Herrera og Atelier Versace. Þetta er í þriðja sinn sem forsetafrúin fráfarandi er í blaðinu – fyrst átti hún forsíðuna í mars 2009, svo aftur í apríl 2013.
Þegar Michelle velur sér föt segir hún í viðtalinu að hún velji ekki eftir hönnuðum. Hún segir: „Þetta snýst allt um þægindi. Ef ÞÉR líður vel í fötunum er það allt sem skiptir máli.“ Einnig segist hún vera hrifin af ákveðnum hönnuðum en það skipti máli hvernig þeir hegða sér: „Er þetta gott fólk? Kemur það vel fram við starfsfólkið sitt? Kemur það vel fram við starfsfólkið mitt? Er það ungt? Get ég kannski orðið að liði?“
Henni verður sárt saknað, svo mikið er víst…
Heimild: Fashionista