Rósanna Valdimarsdóttir er tvítug stúlka frá Skagafirði. Hún er sveitastelpa sem hefur verið í hestum frá því hún man eftir sér og lá því beinast við að stunda nám því tengdu enda er stundar hún nám nún við háskólann á Hólum í hestafræðideild.
Rósanna hafði alltaf reynt að stunda íþróttir með hestaíþróttinni en segir það hafa gengið „upp og niður”: „Ég hafði mikinn áhuga á fótbolta þegar ég var yngri en það er leiðinlegt að stunda hópíþrótt þegar mestur áhuginn var í hestum og þar af leiðandi ósanngjant gagnvart liðsfélögum mínum að vera ekki með allan hugann við fótboltann. Frjálsar var líka eitthvað sem mér fannst gaman að vera í en lítill tími fyrir æfingar þegar maður bjó inni í sveit og því var ég ekki lengi í frjálsum. En núna æfi ég crossfit sem ég hef mjög gaman af!”
Aðspurð um tímabil þegar henni fannst hún of grönn og líðanina svarar hún: „Ég hef alltaf verið grönn, það fór ekkert í taugarnar á mér þegar ég var yngri og fer í rauninni ekkert í taugarnar á mér núna heldur varð ég bara meira meðvitaðari um það hvernig ég leit út, sem er ekki slæmt heldur gott og gaf mér auka „boost” til að verða duglegri að mæta á æfingar.”
Í októbermánuði árið 2012 fékk Rósanna einkirningasótt sem er veirusýking og varð hún afar veik, borðaði lítið sem ekkert og grenntist hratt um mörg kíló sem hún mátti ekki við: „Ég var mjög lengi að jafna mig, mig minnir að það hafi verið um hálft ár. Ég missti allt þol sem ég hafði verið búin að byggja upp og það dró mig svolítið niður, ég vildi ekki mæta í íþróttir í skólanum því ég fékk svo mikla minnimáttarkennd og íþróttir hafa alltaf verið mín sterka grein í skóla og þurfti ég því í rauninni að byrja uppá nýtt að byggja upp þol. Ég gat ekki einu sinni labbað upp stigann heima hjá mér nema taka mér pásu til þess að ná andanum og komast upp. En ég komst nú yfir þessa minnimáttarkennd á endanum og fór að mæta í ræktina sem var einn áfangi í fjölbrautarskólanum og það var þá sem mig langaði virkilega að fara byggja upp einhverja vöðva og hætta að vera bara skinn og bein.”
Hvað hefur þú gert til að þyngjast og viðhalda þyngd?
„Ég hef eins og ég sagði áður prófað nokkrar íþróttir en aldrei fundið einhverja eina sem lét mig verða spennta fyrir næstu æfingu fyrr en mágkona mín dró mig með sér á crossfit æfingu núna um síðustu jól og fannst mér það mjög spennandi,” svarar Rósanna. „Það sem fékk mig til þess að skrá mig á grunnnámskeið í crossfit var að meðan ég var í jólafríi frá skólanum þá var ég líka í fríi frá ræktinni og á meðan í fríinu þá hrundu af mér öll kílóin sem ég var búin að bæta á mig af vöðvum á síðustu önn, bara á nokkrum dögum! Þá eiginlega varð ég bara svo pirruð að ég hafði sambandi við þjálfarann í crossfit stöðinni á Sauðárkróki og skráði mig.”
Rósanna segist ekki sjá eftir því: „Crossfit er eitthvað sem ég elska í dag og ég reyni að mæta á æfingar á hverjum degi – ekki bara af því að ég vil verða sterkari og flottari – heldur líka af því að mér finnst það bara svo gaman. Það er svo mikilvægt að fólk finni sér hreyfingu sem þeim finnst skemmtileg, það er ekkert eins leiðinlegt og að mæta á æfingu/ræktina bara af því að maður þarf þess, ekki af því að maður langar til þess. Svo kynntist ég líka svo frábæru fóki í leiðinni, þjálfarnir eru þeir skemmtilegustu sem ég hef verið með og einn af þeim er ein af mínum bestu vinkonum í dag og hefur hvatt mig svo brjálæðislega áfram, líka á mínum keppnisferli í hestaíþróttum, það er ómetanlegt.”
Mættir þú/mætir þú fordómum vegna þyngdartapsins/ að hafa verið of grönn?
Ég get ekki sagt að ég hafi mætt einhverjum fordómum vegna þess að ég hef verið of grönn en mér finnst alltaf mjög leiðinlegt að sjá fólk deila myndum á netinu sem stendur t.d. „Curvy girls are beautiful…bones are for dogs, meat is for men,“ því það eru ekki allir sem vilja vera bara skinn og bein eins og að vilja ekki vera of feitur. Og ég held að fólk sé ekki að gera sér grein fyrir því að þetta getur sært þó það sé ekki að reyna það. Mér finnst það vera alveg jafn slæmt að segja við manneskju sem er of grönn að hún sé of grönn eins og að segja við manneskju sem er of feit að hún sé of feit af því að það kemur engum við nema sjálfum þér í hvernig líkamlegu ástandi þú ert í.
Að vera of grannur er ekki alltaf val og ekki alltaf frábært, það er miklu meira talað um offitu sem vandamál heldur en að vera of grannur og þess vegna lítur það þannig út að það sé viðurkennt vandamál að vera of feitur en að vera of grannur sé bara lúxusvandamál! Að bæta við sig kílóum getur verið erfitt og eflaust líka að losa sig við þau og dáist ég að þeim sem hafa tekið líf sitt í gegn og breytt því til betri vegar.”
Hvernig finnst þér fjölmiðlaumfjöllun vera um þessi mál? Finnst þér of grannar konur verða útundan?
„Þær verða ekki beint útundan en fjölmiðlaumræðan um grannt fólk getur haft neikvæð áhrif, sérstaklega á ungt fólk. Það er fáranlegt að flestallar fyrirsætur á fatasíðum séu allar grannar, hvað er það? Það eru skilaboð til stelpna að þær þurfi að grenna sig af því að vera grannur er viðurkennda normið í dag. Ég get rétt ímyndað mér hvernig ung stelpa með lítið sjálfstraust tekur því þegar allar fyrirsætur, sem eru yfirleitt rosalega grannar en samt photoshop-aðar til þess að líta betur út. Auðvitað finnst þeim þá að þær þurfi að vera mjóar.”
Hvaða skilaboðum langar þig að koma til kvenna sem eru í sömu sporum og þú?
„Bara koma sér af stað og finna íþrótt sem þær hafa áhuga á og finnst skemmtileg! Og það þurfa ekki allir að vera eins, maður á að vera ánægður með líkama sinn hvernig sem hann er.”