Það eru meira en sjö ár síðan poppgoðið Michael Jackson lést en nú hefur sonur hans Prince Jackson ákveðið að veita sjaldgæft viðtal um ýmislegt sem hann lærði af föður sínum sáluga.
Aðdáendur muna eflaust vel eftir að MJ lét börnin sín oft vera með grímur þegar þau fóru út á opinbera staði. Paris sem nú er 18 ára og Blanket sem nú er 14 vissu að pabbi þeirra var einunigs að reyna að vernda þau: „Pabbi talaði við mig eins og ég væri fullorðinn. Hann sagði að grímurnar væru leið fyrir okkur að eiga okkar eigið líf án hans,“ segir Prince sem nú er 19 ára gamall í viðtali við Los Angeles Times — og þar af leiðandi gátu þau oft farið út án þess að nokkur þekkti þau.
„Ég hugsaði ekkert út í að önnur börn væru ekki eins og við. En um leið og ég áttaði mig á því að þetta væri ekki eðlilegt…ég man þegar við fórum í Disneyland og ég fór út í glugga og sá að fullt af fólki var að vinka og taka myndir af mér.“
Prince sem vill verða tónlistarmaður talaði einnig um ásakanir um kynferðislegt ofbeldi á hendur föður hans: „Eftir að hann dó sprakk allt í loft upp. Það var áfall, allt kom í einu. En við lærðum að takast á við það eiginlega með því að hunsa áreitið.“