KVENNABLAÐIÐ

Sjálfsskoðun brjósta: Fimm þrep

Þú gerir rétt í að temja þér að skoða brjóstin sjálf í hverjum mánuði eftir tvítugt. Treystir þú þér ekki til að þreifa þau sjálf, skaltu ekki hika við að láta skoða þau reglulega hjá lækni. Þú getur verið ófeimin við að fá leiðbeiningar hjá lækni um hvernig þú skoðar brjóstin sjálf. *Einnig geturðu leitað til Leitarstöðvar Krabbameinsfélags Íslands. Þær konur sem búsettar eru í Reykjavík eða nágrenni geta farið þangað og horft á myndband sem sýnir réttu handtökin eða notað næstu kaupstaðarferð og/eða heimsókn frá leitarstöðinni á heimaslóðir til að fá þá leiðsögn sem þörf er á því myndbandið er einnig með í för í hópleit úti á landi.

sjalfskodun-brjosta-1

Hér á eftir verður reynt að lýsa sem skilmerkilegast hvernig þú átt að fara að því að skoða sjálf brjóstin. Þegar þú þekkir brjóstin orðið vel, verður sífellt auðveldara að skoða þau sjálf:

  • Skoðaðu brjóstin einu sinni í mánuði.
  • Skoðaðu þau alltaf á svipuðum tíma, þ.e. um það bil viku eða tíu dögum eftir að síðustu blæðingar hófust eða í vikunni eftir að þeim lauk. Skoðir þú þau fyrr, kunna þau enn að verið þrútin, viðkvæm eða hnúðótt.
  • Kynnstu brjóstunum vel þannig að þú vitir hvernig þau líta út og eru viðkomu og áttar þig á ef eitthvað breytist. (Brjóstin stækka og verða stinnari á meðan á meðgöngu stendur og þau búa sig undir það hlutverk að gera þér unnt að mjólka barninu sem þú gengur með).
  • Verðir þú vör við breytingar skaltu láta skoða þig hjá lækni eða á leitarstöð.

sjalfskodun-brjosta-2

Þrep 1: Þú byrjar á að standa fyrir framan spegil, nakin að ofan, með hendur fyrir aftan hnakka og   þrýstir saman lófum, hnúum eða fingurgómum. Virtu fyrir þér lögun brjóstanna. Settu nú hendur á  mjaðmir og beittu svolitlum þrýstingi. Athugaðu hvort þú verður vör við einhverjar misfellur. Bungar brjóstið meira út á einum stað en öðrum? Er eins og hafi myndast í því dæld? Er áferð húðarinnar eðlileg? Hefur hún þykknað eða roðnað? Hafa geirvörturnar eitthvað aflagast? Er þroti   í hluta brjóstsins eða lítur annað brjóstið öðruvísi út en hitt. Er verkur í geirvörtu, snýr hún inn á við, er útferð úr henni (önnur en brjóstamjólk) eða roði og þykknandi hörund á brjósti eða  geirvörtu? Allt eru þetta merki sem þarf að taka mark á.

Auglýsing

sjalfskodun-brjosta-4-5

Þrep 2: Lyftu nú öðrum handleggnum yfir höfuð – sömu megin og brjóstið sem þú ætlar að athuga   – og þreifaðu svo með öllum fingrum hinnar handarinnar nema þumlinum. Þú skalt reyna að  þrýsta hvorki of fast né laust. Þú byrjar yst á brjóstinu og þreifar í hringi og færir þig sífellt innar þegar þú ert búin að fara hringinn. Með þessu móti er líklegast að ekkert svæði verði útundan.  Gefðu þér góðan tíma þegar þú þreifar svæðið milli geirvörtu og handarkrika og þreifaðu svo handarkrikann sérstaklega. Í handarkrikanum eru eitlar. Sé allt eðlilegt færast þeir auðveldlega til,   eru mjúkir viðkomu og ekki of aumir þegar þú kemur við þá. Leitaðu að hnúðum sem eru harðir eða óhreyfanlegir Æxli eða mein eru stundum áföst undirliggjandi vöðva eða hörundinu, en það  er sjaldgæft nú orðið.

Þrep 3: Skoðaðu geirvörtuna sérstaklega á meðan þú stendur fyrir framan spegilinn. Kreistu hana létt milli þumal- og vísifingurs til að athuga hvort vessi úr henni blóð eða glær, gulleitur eða bleikur vökvi.

Þrep 4: Þegar þú hefur lokið við að skoða annað brjóstið, skoðarðu hitt á sama hátt.

sjalfskodun-brjosta-3

Þrep 5 : Viljir þú gera þetta ennþá betur geturðu lagst út af og þreifað brjóstin liggjandi á þann hátt sem lýst var hér að ofan. Sömuleiðis getur verið þægilegt og árangursríkt að þreifa brjóstin undir sturtu eða í baði.

Fylgdu ákveðnu mynstri til að vera viss um að þreifa allt brjóstið. Þú getur byrjað við geirvörtuna og farið í sífellt stærri hringi þar til þú kemur að ytri brún brjóstsins. Þú getur líka fært fingurna upp og niður eftir brjóstinu eins og þú sért að slá grasflöt.

Vertu viss um að þú þreifir allan brjóstvef: þann sem liggur undir húðinni með léttri snertingu og þann sem liggur dýpra með ákveðnari og þéttari snertingu svo að þú finnir fyrir honum alveg aftur að brjóstkassanum.

Finnir þú eitthvað af einkennunum sem minnst var á, skaltu leita læknis. Hafir þú fundið hnút og ert enn í barneign getur verið rétt að bíða fram yfir næstu blæðingar með að vitja læknis af því að oft hverfa hnútarnir þegar blæðingum er lokið, en verðir þú vör við glæra eða blóðuga útferð frá geirvörtunni skaltu láta rannsaka þig án tafar til þess að útiloka að um krabbamein geti verið að ræða.

Góðu fréttirnar eru þær að langflestir hnútar eða þétting í brjóstum eru góðkynja, þ.e.a.s. EKKI krabbamein.

 

Doktor.is – allur fróðleikur um heilsu og lyf! 

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!