Eðlilega hafa margir velt því fyrir sér hvort rafrettur séu skaðlegar. Rafretturnar eru hins vegar það nýjar á markaðnum að ekki er komin nægileg reynsla til að segja til um langtímaáhrif á heilsu þeirra sem nota rafrettur eða þeirra sem anda að sér rafrettugufu með óbeinum hætti. Þó eru vísbendingar um að efnin í rafrettuvökvanum geti verið skaðleg heilsu og hefur Matvæla- og lyfjastofnun Bandaríkjanna (e. Food and Drug Administration, FDA) gefið út yfirlýsingu þar sem varað er við notkun rafretta[1].
Vitað er að rafrettur geta verið óhollar á nokkra vegu og þá bæði af völdum nikótíns, sem er oftast notað í rafrettum, og vegna annarra efna sem finnast í vökvanum[2]:
Áhrif nikótíns
Notkun rafretta getur aukið nikótínfíkn, sérstaklega meðal unglinga. Þeir unglingar sem hafa notað rafrettur eru líklegri en aðrir til að verða reykingamenn[3]. Hafa má í huga að annar hver reykingamaður lætur lífið af völdum sígaretta.
Nikótín viðist geta örvað vöxt krabbameinsfruma þó það sé sjálft ekki krabbameinsvaldandi[4] [5].
Nikótín getur valdið ýmsum einkennum frá hjarta, heila- og miðtaugakerfi, öndunarfærum og fleiri líffærum. Meðal annars getur það valdið blóðþrýstingsfalli og krömpum[6] [7]. Vitað er að nikótín getur skert heilaþroska ófæddra barna hjá þeim mæðrum sem nota efnið í einhverju formi. Það eykur einnig líkur á fyrirburafæðingu og andvana fæðingu.[8]
Eiturefni
Eiturefni hafa fundist í rafrettuvökva[9]. Í vökvanum hafa fundist krabbameinsvaldandi efni og önnur eiturefni í meira magni en í nikótín-innúðalyfi en þó í minna mæli en í sígarettureyk[10]. Auk þess getur rafrettuvökvi án nikótíns valdið skaða á erfðaefni fruma og frumudauða[11]og vísbendingar eru um að bragðefnin í vökvanum geti haft skaðleg áhrif á fósturfrumur[12]. Efnið díasetýl, sem er venjulega bætt í matvæli til að gefa þeim keim af smjöri eða rjóma, finnst í meirihluta rafrettuvökva[13]. Talið er að díasetýl geti í háum skömmtum valdið svonefndum bronchiolitis obliterans, sem er óafturkræfur bráður lungnasjúkdómur. Þessi sjúkdómur hefur fengið nafnið ‘poppkornslungu’ þar sem tíðni hans var aukin meðal starfsmanna sem unnu í örbylgjupoppiðnaði, en þar er díasetýl notað til að bragðbæta örbylgjupopp[14]. Díasetýl finnst bæði í rafrettuvökva og sígarettureyk.
Eitranir
Rafrettuvökvinn er oft í umbúðum og litum sem höfða til barna og ungmenna sem geta haldið að hann innihaldi sælgæti. Nikótínvökvi getur verið banvænn sé hans neytt á annan hátt en leiðbeiningar segja til um[15] og hafa eitranir af völdum vökvans aukist samhliða aukinni notkun rafretta[16], sérstaklega hjá börnum undir fimm ára aldri[17].
Áhrif rafrettugufu
Rafrettugufa er ertandi fyrir lungun. Lungu unglinga og ungs fólks eru enn að taka út þroska og þar af leiðandi eru þau viðkvæm fyrir efnum sem finnast í rafrettum [18][19].
Rafrettugufa veldur mengun í umhverfinu fyrir þá sem reykja ekki[20]. Efnin í rafrettugufu finnast í umhverfi þeirra sem nota rafrettur og blóðrannsóknir sýna að nikótín og önnur efni í rafrettugufu mælast í blóði þeirra sem anda að sér gufunni með óbeinum hætti [21][22][23]. Þegar fólk reykir rafrettu í kvikmyndahúsum eða veitingastöðum, svo dæmi sé tekið, getur það því valdið ertingu og óþægindum fyrir aðra sem eru í nánasta umhverfi, svipað og óbeinar sígarettureykingar, þó svo að rafrettugufan sé lyktalaus.
Aukinn styrkur af nikótíni, 1,2-própanedíól, glýserín, málmurinn ál og sjö krabbameinsvaldandi pólýcýclísk arómatísk hýdrókarbón hafa fundist í umhverfi þeirra sem nota rafrettur [24]. Einnig var nýlega sýnt fram á að glóðarþráðurinn og lóðuð samskeyti í algengri gerð af rafrettum geta gefið frá sér málmagnir eins og nikkel, króm og tin[25] sem hefur mælst í hærri styrkleika en í sígarettureyk[26].
Styrkleiki nikótíns í umhverfi þeirra sem nota rafrettur virðist þó vera miklu minni en finnst við óbeinar sígarettureykingar [27]. Krabbameinsvaldandi efnið formaldehýð myndast við niðurbrot á própýlen glýkol sem er meginuppistaða rafrettuvökvans og það hefur mælst í hærri styrkleika en í sígarettureyk þegar rafrettan er við háa spennu[28].
Rafrettur gefa ekki eingöngu frá sér vatnsgufur eins og oft er haldið fram. Enn eru engar reglugerðir til að tryggja það að neytandinn viti hvaða efnum hann andar að sér með rafrettum og óvíst er um öryggi þeirra og langtímaáhrif á heilsu. Þó er vitað að vökvinn í rafrettum getur ógnað heilsu ófæddra barna, sem og barna og unglinga[29].
Tilvísanir:
- S. Food and Drug Administration. 2013.FDA Warns of Health Risks Posed by E-Cigarettes.
- Callahan-Lyon, P. 2014. Electronic cigarettes: human health effects. Tobacco Control. 23:ii36-ii40
- Leventhal, AM. o.fl. 2015. Association of Electronic Cigarette Use With Initiation of Combustible Tobacco Product Smoking in Early Adolescence.JAMA, 314(7):700-707
- Grana, R. o.fl. 2014. Contemporary Reviews in Cardiovascular Medicine.Circulation, 129: 1972-1986.
- Cardinale, A. o.fl. 2012. Nicotine: specific role in angiogenesis, proliferation and apoptosis. Critical reviews in toxicology, 42(1):68-89.
- Ii-Lun C. 2013. FDA Summary of Adverse Events on Electronic Cigarettes.Nicotine & Tobacco Research, 15(2):615-616.
- Nicotine poisoning: MedlinePlus Medical Encyclopedia.
- The Health Consequences of Smoking – 50 Years of Progress.
- Public Health Focus > Summary of Results: Laboratory Analysis of Electronic Cigarettes Conducted By FDA.
- Goniewicz, M.L. o.fl. 2013. Levels of selected carcinogens and toxicants in vapour from electronic cigarettes. Tobacco Control.
- Yu, V. o.fl. 2016. Electronic cigarettes induce DNA strand breaks and cell death independently of nicotine in cell lines. Oral Oncology, 52:58–65.
- Bahl, V. o.fl. 2012. Comparison of electronic cigarette refill fluid cytotoxicity using embryonic and adult models. Reproductive toxicology, 34(4):529-37.
- Allen, JG. o.fl. 2015. Flavoring Chemicals in E-Cigarettes: Diacetyl, 2,3-Pentanedione, and Acetoin in a Sample of 51 Products, Including Fruit-, Candy-, and Cocktail-Flavored E-Cigarettes. Environ Health Perspect.
- Kreiss, K. o.fl. 2002. Clinical Bronchiolitis Obliterans in Workers at a Microwave-Popcorn Plant. The New England Journal of Medicine, 347:330-338.
- Cameron, JM. o.fl. 2014. Variable and potentially fatal amounts of nicotine in e-cigarette nicotine solutions. Tobacco Control, 23(1):77-78
- California Department of Public Health, California Tobacco Control Program. 2015. State Health Officer’s Report on E-Cigarettes: A Community Health Threat.
- New CDC study finds dramatic increase in e-cigarette-related calls to poison centers
- Material Safety Data Sheet – Science Lab.com.
- Acrolein
- Schober, W. o.fl. 2014. Use of electronic cigarettes (e-cigarettes) impairs indoor air quality and increases FeNO levels of e-cigarette consumers.International Journal of Hygiene and Environmental Health, 217(6):628–637.
- Ballbè, M. o.fl. 2014. Cigarettes vs. e-cigarettes: Passive exposure at home measured by means of airborne marker and biomarkers. Environmental Research, 135:76–80.
- Flouris, A.D. 2013. Acute impact of active and passive electronic cigarette smoking on serum cotinine and lung function. Inhalation toxicology, 25(2):91-101.
- Schober, W. o.fl. 2014. Use of electronic cigarettes (e-cigarettes) impairs indoor air quality and increases FeNO levels of e-cigarette consumers.International Journal of Hygiene and Environmental Health, 217(6):628–637.
- Schober, W. o.fl. 2014. Use of electronic cigarettes (e-cigarettes) impairs indoor air quality and increases FeNO levels of e-cigarette consumers.International Journal of Hygiene and Environmental Health, 217(6):628–637.
- Williams, M. o.fl. 2013. Metal and Silicate Particles Including Nanoparticles Are Present in Electronic Cigarette Cartomizer Fluid and Aerosol . PLOS ONE.
- Saffari, A. o.fl. 2014. Particulate metals and organic compounds from electronic and tobacco-containing cigarettes: comparison of emission rates and secondhand exposure. Environmental Science: Processes & Impacts, 16:2259-2267.
- Czogala, J. 2013. Secondhand Exposure to Vapors From Electronic Cigarettes. Nicotine & Tobacco Research.
- Jensen, RP. o.fl. 2015. Hidden Formaldehyde in E-Cigarette Aerosols. The New England Journal of Medicine, 372:392-394.
- S. Department of Health and Human Services. 2014. The Health Consequences of Smoking: 50 Years of Progress. A Report of the Surgeon General. Atlanta, GA: U.S. Department of Health and Human Services, Centers for Disease Control and Prevention, National Center for Chronic Disease Prevention and Health Promotion, Office on Smoking and Health.