Sigríður Ýr Unnarsdóttir lætur sér ekki allt fyrir brjósti brenna en í gær staðfesti Heimsmetabók Guinness heimsmet sem hún átti þátt í að setja. Sigríður er meistaranemi í tómstunda- og félagsmálafræði og starfar sem barþjónn á Stúdentakjallaranum.
Sigríður fór ásamt kærastanum sínum, Bandaríkjamanninum Mike Reid og bifvélavirkjanum Chris Fabre, í 2500 kílómetra ferðalag á svokölluðu „pocketbike” hjóli en það er hjól sem hefur þyngdartakmörkin undir 40 kíló. Er þetta í fyrsta skipti sem skrásett er að svo lítið hjól hafi farið jafn langa leið. Hafði Sigríður aldrei stýrt mótothjóli fyrir þessa tilraun og ekki Mike heldur en segir Sigríður að „við kærastinn minn höfum að markmiði að gera tímann okkar saman eins eftirminnilegan og mögulegt er, en hann er búsettur þar ytra.”
Hefur parið skipst á að hittast í Bandaríkjunum og Íslandi og segir Sigríður plönin alltaf verða stærri og stærri: „Síðast þegar við hittumst fórum við 12.000 km hringferð um Bandaríkin til styrktar góðgerðarmálum. Til að toppa það þurfti næst ekkert minna en að setja heimsmet!”
Heimsmetaferðalagið hófst í Ohio þann 5. september síðastliðinn og tók enda í Nýju- Mexíkó þann 17. september. Þar enduðu þau heimsmetatilraunina í mótorhjólarallýi, og þar fóru þau yfir öll gögnin sem þau höfðu safnað í ferðinni og sendu þau svo til Guinness.
Í upphafi voru hjólin hugsuð sem fyndinn ferðamáti en það kom Sigríði töluvert á óvart hversu ótrúlega krefjandi verkefnið varð: „Dagarnir voru langir og verkefnin nánast endalaus. Við tókum 12 daga í ferðina og reiknuðum með að hjóla í 10 klukkutíma á dag. Þessvegna þurftum við að skrá allt ferlið nákvæmlega. Að hjóla frá A til B var bara brot af því sem við þurftum að gera til að fá heimsmetið skrásett og fór allur okkar tími í að skipuleggja og skrásetja ferlið.”
Ferðalagið gekk ótrúlega vel að sögn Sigríðar, allt þar til stutt var eftir af ferðinni: „Þá tókst mér að renna til á lausamöl á hjólinu, datt og tognaði á öxl og fékk stóran skurð á vinstra hné. Þetta varð til þess að ég var lögð inn á sjúkrahús og saumuð saman.”
S
igríður segir þetta ferli hafa verið ótrúlega skemmtilegt, þó „sérstaklega eftir á!” og hefði hún aldrei trúað því hversu gefandi þetta var: „Það má samt segja að á þessum 12 dögum hafi allur tilfinningaskalinn komið fram – hlátur, grátur, vonleysi, gleði og allt þar á milli. Ég hefði aldrei trúað því að ég gæti orðið heimsmeistari, trúi því varla enn, en þetta sannar að hver sem er getur orðið hvað sem er á meðan maður er tilbúinn að vinna fyrir því. Ég mun búa að þessari lífsreynslu alla ævi. ”
Næst á dagskrá hjá parinu er að leita að hugmyndum fyrir næsta ævintýri…við efumst ekki um að það verður eitthvað stórkostlegt!