KVENNABLAÐIÐ

Berglind S. Heiðarsdóttir: Taubindin eru komin til að vera!

Sumar konur kunna að hvá þegar talað er um taubindi til að nota á blæðingum, en ný vakning á sér stað meðal margra íslenskra kvenna þessa dagana: Fullkomlega endurnýtanleg og umhverfisvæn taubindi!

Sykur kíkti í heimsókn til Berglindar sem saumar taubindi af mikilli natni og verður ekki annað séð en íslenskar konur taki hönnun hennar og framleiðslu af áhuga og gleði.

Flottur „liner" eða þunnt innlegg
Flottur „liner“ eða þunnt innlegg

Berglind segir að taubindin séu sjaldnast auglýst: „Þetta fréttist frekar frá konu til konu. Ég er með Facebooksíðu þar sem ég sel mín og ég hef fengið frábærar viðtökur. Fyrst þegar ég frétti af þessum bindum fyrir nokkrum árum fannst mér þau ekki sjarmerandi en svo fékk ég svona „ljósaperuaugnablik” og hugsaði bara: „Já, auðvitað! Þetta er bara eins og taubleiurnar.” Ég keypti mér nokkra „linera” (þunn innlegg) en fannst þeir eitthvað of litlir og hentuðu mér ekki þannig ég breytti sniðinu og saumaði þá eins og ég vildi hafa þá.“

Berglind segir: „Í dag er ég með þrjár stærðir sem ég sauma: Minnstu eru linerar, 20 cm langir, sem hægt er að nota í lok blæðinga, fyrir þær sem nota bikar, eru með hormónalykkjuna, mikla útferð eða áreynsluþvagleka. Svo er ég með dagbindi sem eru um 25 cm löng. Stærstu bindin eru svo 35 cm, alveg „últra-mega-túrbó-bindi!“ Þau eru annaðhvort næturbindi eða til að nota eftir barnsburð (þegar konur fara á mjög miklar blæðingar).”

 

abind-stelpur_fotor
Berglind var með opið hús þann 1. október síðastliðinn þar sem fjölmargar konur voru eins og krakkar í sælgætisbúð! Atgangurinn var mikill.

 

abind2_fotor

Berglind notar tvenns konar efni: Annars vegar áprentað bómullarjersey sem er svipað efni og í stuttermabolum. Hins vegar handlitaðan bambusvelúr sem er yndislega mjúkur og kósí. Hann litar hún sjálf í baðinu hjá sér og verður að segjast eins og er að henni tekst afar vel upp. „Það er ótrúlega gaman að prófa sig áfram og nota nýjar aðferðir,“ segir hún brosandi.

 

Eitt af bindunum sem Berglind litaði í baðinu hjá sér
Eitt af bindunum sem Berglind litaði í baðinu hjá sér

 

En hvaðan fær hún sniðin og efnin?

„Ég hef verslað efni frá fimm löndum og er mjög vandlát. Hvað sniðin varðar er svosem ekkert nýtt undir sólinni en ég hef auðvitað þróað mín eigin snið eftir öðrum. Ég var fyrst bara með velúrlinerana og svo vatt þetta uppá sig þegar ég varð vör við eftirspurn eftir dagbindum. Þá stækkaði ég í rauninni það snið.”

Berglind saumar bindin í stofunni heima hjá sér. Það sem sést á myndinni hér að ofan segist hún sauma á u.þ.b. einum mánuði. Aðspurð hversu langan tíma tekur að sauma eitt bindi segist hún vera búin að koma sér upp aðferð við að vinna þau í ákveðinni röð. „Fyrst tók þetta mjög langan tíma en nú er þetta komið upp í rútínu hjá mér. Ég sit hér og sauma á kvöldin í stofunni. Við erum fjögur saman í lítilli íbúð og fjölskyldan er afar þolinmóð. Krakkarnir eru orðin vön þessu, – horfa bara á sjónvarpið meðan ég sauma!”

abind3_fotor
Berglind hefur einnig saumað svokölluð innri bindi. „Þessi er hægt að nota annaðhvort sem túrtappa en upphaflega pælingin var að þetta nýttist konum sem fá blæðingar í „gusum”. Þá beina þau blóðinu í bindið, svo það fari ekki út um allt.” Berglind valdi náttúrulegasta efnið sem hún fann: Organic bómull sem er að hennar sögn unnin töluvert öðruvísi en bambusinn.

 

Hvað umhverfisþáttinn varðar er Berglind með alveg á hreinu hvað henni finnst um það: „Jú, hver kona notar 8-17.000 dömubindi á ævinni. Og það er bara notkun þegar konur eru á blæðingum, ekki ef þær nota t.d. linera daglega. Svo fer þetta allt í ruslið. Ruslið er mikið, en mengunin við að búa þetta til, flytja út og umbúðir telja líka. Við fáum ekki að vita hvað er notað í þessi einnota bindi – það er ekki skylda að segja neytandanum frá hvaða efni eru notuð, til dæmis til að fá hvíta litinn, er það klór, bleikiefni eða önnur skaðleg efni? Hver eru langtímaáhrifin? Í Bandaríkjunum eru dömubindi skilgreind sem lækningavara þannig hver veit hvað við erum í raun að nota? Einhverjar rannsóknir hafa greint skordýraeitur og jafnvel dioxin í bindum og túrtöppum! ”

abind-skifur_fotor
Berglind saumar líka hreinsiskífur úr bambusvelúr sem nota má eins og hefðbundnar bómullarskífur. Þær fara afskaplega vel með húðina og þær eru þvegnar í þvottaneti þegar þær verða óhreinar.

 

abind-draku_fotor

Drakúla sem býr sér til te úr túrtöppum! „Þetta er svo dýrt efni, en ég bara stóðst það ekki” segir Berglind sem greinilega hefur húmorinn í lagi. „Þessi sel ég í sérpöntunum!”

Berglind mælir með að setja notuð bindi í PUL-poka og þvo þau við 60°C: „Þú skolar þau fyrst í köldu vatni til að ná blóðinu úr. Svo þværðu þau bara eins og venjulega.”

Lítið bindi séð aftan frá - flísið hjálpar til við að halda því á réttum stað ásamt því það dregur mikið í sig
Lítið bindi séð aftan frá – flísið hjálpar til við að halda því á réttum stað ásamt því sem það hrindir frá sér vökva og er því sem næst vatnshelt

 

Hversu mörg bindi þarf kona og hvað kostar að koma sér upp startpakka?

„Það er mjög einstaklingsbundið,” segir Berglind. „Fer mikið eftir hversu þungar blæðingarnar eru og hversu lengi þær standa yfir. Það má hinsvegar taka það fram að þegar konur skipta yfir í tauið minnka oft blæðingar, tímabilið styttist og verkir minnka. Ástæðan er ekki ljós, enda hafa stórfyrirtækin engan hag af slíkum rannsóknum.”

Þetta gæti verið venjulegur startpakki fyrir eina konu
Þetta gæti verið venjulegur startpakki fyrir eina konu

 

„Ég mæli reyndar ekki með að konur kaupi sér strax mörg bindi sömu tegundar, ef þau skyldu ekki henta. Það er betra að prófa sig áfram og kaupa svo meira af þeirri tegund sem hentar best.“

Berglind segist ekkert spara í framleiðslunni: „Ég reyni að vanda mig og nota bara vönduð efni. Það er t.d. ekki sama hvernig tvinni er notaður. Ég ætlaði mér aldrei að vera með ódýrustu bindin en ég vil bjóða uppá gæðavöru. Ég vil líka taka fram að þar sem um afar persónulega vöru er að ræða veiti ég líka mjög persónulega þjónustu. ”

abind1_fotor
Sigga dóttir Berglindar með húfur sem Berglind saumar líka

 

abind-morg_fotor
Ekkert bindi er eins og þau eru sjúklega flott!

 

Húfurnar sem Berglind hannar og saumar
Húfurnar sem Berglind hannar og saumar

Hlakkar til að fara á túr!

Hildur Máney er mikill aðdáandi bindanna sem henni leist að vísu ekkert á í fyrstu: „Mér fannst þetta eitthvað hálf-fáránlegt. En svo prófaði ég þetta, keypti mér pakka. Það komu minni verkir og minni blæðingar. Ég er mikill umhverfissinni og vil ekki til þess hugsa að það gæti verið eitthvað á borð við skordýraeitur í dömubindunum sem ég nota.“

Vinkonurnar Hildur (t.v.) og Berglind
Vinkonurnar Hildur (t.v.) og Berglind

Hildur heldur áfram: „Þegar ég prófaði þetta var þetta ekkert skrýtið! Lyktin sem er alltaf af bindunum kemur ekki með taubindunum. Það er til svo ofsalega mikið af fallegum bindum og maður bara hlakkar til að fara á túr! Dóttir mín er nýbyrjuð á blæðingum og vill ekkert annað en þessi bindi. Ég mæli með þeim.”

Facebooksíða Lauf – sölusíða Berglindar 

Taubindatjattið er vettvangur á Facebook fyrir konur sem vilja tjá sig um bindin

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!