KVENNABLAÐIÐ

Grúska Babúska: „Aldrei áður séð áhorfendur dansa við tónlistina okkar!“

Hljómsveitin Grúska Babúska er að grúska margt þessa dagana, en sveitin heldur til Glastonbury í semjubúðir til að semja sína fjórðu plötu nú í október.

“Við fórum í tónleikaferðalag til Bretlands síðast liðinn mars, og einn af tónleikunum var í Glastonbury, sem sagt bænum – ekki á festivalinu :) Tónleikarnir kvöldið áður höfðu verið á tónleikastaðnum the Exchange, sem er 400 manna staður í Bristol, og það hafði verið mikið fjör á þeim tónleikum og viðbrögð áhorfenda svo góð að við fögnuðum fram yfir miðnætti. Við vorum því heldur þreyttar um morguninn þegar við lögðum af stað í strætó til Glastonbury, en áttum að byrja daginn á að koma fram í klukkustunda útvarpsþætti, og svo spila á litlum pöbb sem heitir the King Arthur. Um leið og við renndum inn í bæinn hvarf hins vegar þreytan eins og dögg fyrir sólu! Bærinn er gersamlega yndislegur! Það var vel tekið á móti okkur í útvarpsþættinum, og ekki voru móttökurnar síðri á tónleikunum um kvöldið.” segir Harpa Fönn Sigurjónsdóttir, einn meðlima hljómsveitarinnar.

gr-2

 

Dísa Hreiðarsdóttir, annar meðlima bætir við: “Áhorfendur gersamlega trylltust, ef svo má að orði komast. Við höfðum aldrei áður séð áhorfendur dansa við tónlistina okkar, og varð þetta eitt besta gigg tónleikaferðarinnar. Síðan þá höfum við notað sama frasann á milli okkar stelpnanna alltaf fyrir gigg: “Eigum við ekki að taka Glastonbury á þetta!?”, sem klikkar aldrei og kemur okkur alltaf í stuð.”

Slíkar voru víst mótttkurnar í Glastonbury að stelpunum var boðið að koma aftur, og nota efstu hæð pöbbsins sem vinnuaðstöðu, sem og hljóðmaður tónleikanna bauðst til að aðstoða þær með upptökur. Stelpurnar tóku því boði, og ætla að dvelja í um viku í Glastonbury nú í október og enda semjubúðirnar svo með tónleikum aftur á King Arthur, og þremur tónleikum til viðbótar í grennd við Glastonbury.

“Við erum virkilega spenntar fyrir því að semja í Glastonbury. Þessi staður á svo ótrúlega vel við okkur allar og á klárlega eftir að veita okkur mikinn innblástur fyrir skrifin. Staðurinn er meðal annars þekktur fyrir the Glastonbury Tor og the Abbey og talinn búa yfir miklum töframætti og ríku orskusviði. Það hefur orðið til þess að margir hippar og sígaunar hafa sest að í bænum, sem skapar mikla nýaldarstemningu á staðnum”, segir Íris Hrund, þriðji og síðasti meðlimur sveitarinnar.

Hljómsveitin hefur verið að safna fyrir ferðinni síðan í apríl, og hefur nú þegar fengið styrk frá Tónlistarsjóði Íslands, STEF og Loftbrú. Þó nokkuð vantar samt upp á, og hefur sveitin því efnt til hópfjármögnunar á síðunni Karolina Fund, þar sem styrkgjafar geta veitt verkefninu ákveðinn pening, gegn hinum ýmsu gjöfum.

Auglýsing

“Gegn ákveðinni upphæð er til dæmis hægt að fá heilunarkristal beint frá Glastonbury. Einnig er hægt að fá trébabúsku með niðurhalskóða inn á tónlist Grúsku Babúsku, og einnig ráða hljómsveitina í einkatónleika heima í stofu, svo eitthvað sé nefnt”, segir Harpa. “Það er afar kostnaðarsamt að fara á tónleikaferðalag og því miður ekki mikið sem staðirnir eru að borga, en við þurfum að borga bílaleigubíl, ökumanni, hljóðmanni og einnig græjuleigu beint úr hönd, svo ekki sé talað um að borga aðrar ferðir, gistingu og uppihald, og tekjumissi í því að taka frí frá dagvinnunni. Hver einasta króna og aðstoð skiptir því svo miklu máli, og verðum við ævinlega þakklátar!” bætir Harpa við að lokum.

Hljómsveitin mun nota listamenn frá Glastonbury til að aðstoða við útsetningar nýju hljóðverkanna, og stefnir svo á tónleika einnig hér heima, með kempum frá Glastonbury. Kvikmyndateymið arCus films mun fylgja hljómsveitinni eftir og taka upp efni fyrir væntanlega útgáfu, sem stefnt er að næsta vor. Þess má svo að lokum geta að Grúska Babúska mun vera með upphitunartónleika á Gauknum föstudaginn 7. október, og einnig mun sveitin spila á Iceland Airwaves á föstudagskvöldinu í Iðnó, og aldrei að vita nema að þar heyrist þá nýtt efni, glóðvolgt beint frá Glastonbury. Við óskum hljómsvetinni góðrar ferðar og góðs gengis með söfnunina.

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!