KVENNABLAÐIÐ

Smá innsýn inn í það faglega starf sem leikskólakennarar þurfa að sinna á degi hverjum

Kristín Arna Sigurðardóttir skrifar: Ég veit að leikskólakennarar eru ekki bara konur en þær eru í miklum meirihluta. Langar mig að þakka starfssystrum mínum fyrir starf þeirra því við erum alveg magnaðar í okkar starfi.

Það hafa verið miklar umræður um leikskólakennara undanfarna daga og get ég með stolti kallað mig menntaðan leikskólakennara.

Mig langar að gefa ykkur smá innsýn inn í það sem ég, sem fagmaður, þarf að áorka í mínu starfi á hverjum degi.

– Ég þarf að kortleggja 24 börn, finna út hverjir styrkleikar þeirra eru og veikleikar og vinna svo markvisst út frá því til að laða fram það besta í börnunum.

Auglýsing

– Ég þarf að hafa þekkingu til að sjá hvaða börn þurfa ef til vill á aðstoð að halda i formi iðjuþjálfunar, talþjálfunar, snemmtækrar íhlutun.

 

Dæmi um þetta að ofan: barn heldur á skærunum vitlaust (á hvaða aldri halda börnin rétt á skærunum, hvaða hreyfingar eru það sem barnið þarf aðstoð við til að ná þeim fínhreyfingum sem við þurfum til að t.t. beita skærum rétt). Barn á erfitt með að lesa í félagsleg merki annarra barnanna (hvenær byrjar samleikur, hvaða leiðir er hægt að nota til að hjálpa barninu að komast inn í leik barnanna þannig að það sé tekið í sátt).

 

– Ég þarf að finna verkefni sem hentar þeim aldri sem ég er með og þarf því að þekkja þroskaferil barns inn og út ásamt því að finna leiðir til að ýta á þau nægilega mikið (en þó ekki of mikið) til að þau nái sínum mesta mögulega þroska.

– Ég þarf að hafa þá faglegu reynslu að geta talað við foreldra allra barnanna af virðingu þó það þurfi oft að tala um erfið og viðkvæm mál.

– Ég þarf að geta lesið og þekkt merki um allt mögulegt sem gæti verið í gangi hjá barninu, svo sem kvíði, þunglyndi, ofbeldi, oförvun, vanörvun og svona mætti lengi telja.

– Ég þarf að sjá til þess að skipulagið á deildinni gangi upp með 24 börnum og 4-5 starfsmönnum (erum margar því það er nokkuð um stuðning) þrátt fyrir stöðug veikindi eins og gengur og gerist en það þarf samt að ná að vinna markvisst starf þrátt fyrir að það er alltaf eitthvað rask.

– Ég þarf að hafa faglega þekkingu til að vita hvenær og hversu mikið er hægt að ýta á börnin og láta þau fara út fyrir sinn þægindaramma.

Auglýsing

– Ég þarf að hafa faglega þekkingu til að vita hvaða bækur henta hverjum hópi fyrir sig og hvaða lög þau hafa getu til að læra.

– Að lokum þarf ég að hafa þá faglegu þekkingu sem snýr að því að láta þetta allt ganga upp á meðan maður reynir að passa upp á að öllum líði vel án þess að ég sjálf brenni út.

Og ekki halda að mér finnist ég eitthvað merkileg fyrir að gera þetta allt à hverjum degi. Allir leikskólar eru fullir af fólki eins og mér. Við eigum skilið að það sé talað um okkar fagstétt af virðingu og að við fáum borgað í samræmi við þá vinnu sem við vinnu.

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!