KVENNABLAÐIÐ

Hef verið veik allt mitt líf: Nú vil ég hjálpa öðrum í sömu stöðu

Helga Lilja Óskarsdóttir er hugrökk fyrirmyndarkona sem hefur gengið í gegnum ýmislegt. Andleg veikindi hennar hófust þegar hún var bara krakki, að eigin sögn. Helga segir: „Ég greindist með ADHD, þunglyndi, kvíða og mikla hegðunarröskun strax þegar ég var 9 ára. Þá hófst lyfjagjöf og mikið „ströggl” hjá mömmu við kerfið. Hlutirnir voru ekki jafn auðveldir fyrir foreldra með „öðruvísi“ börn og þeir eru núna. Hjálpin var minni og lyfjagjafirnar allt öðruvísi.”

Auglýsing

Helga Lilja telur að lyfin sem hún fékk hafi ekki hentað henni, hún lýsir því þannig að aukaverkanirnar hafi verið þannig að hún varð „grindhoruð og veik.” Telur Helga því að hún hafi komið upp hjá sér fordómum gagnvart lyfjunum þar sem hún var ekki eins og hinir krakkarnir að hennar mati: „Þau áttu öll svo auðvelt með þetta að mér fannst. Mér fannst ég heimsk réttast sagt, allir flugu í gegnum bækurnar sínar á meðan ég skildi ekkert. Út frá því þurfti ég að finna mér leið til að láta engan sjá hversu mikil kvölin var innan frá. Ég ákvað að hætta að vera krakki og fór að gera það sem ég taldi vera töff, ég man að ég reykti til dæmis mína fyrstu sígarettu þegar ég var á 11 ári og drakk í fyrsta skiptið árinu eftir.

Ég hætti að mæta í skólann árinu seinna og þegar ég mætti þá reif ég kjaft til að láta henda mér úr tíma og svaf fram á skólaborðið.

Þá fór Barnaverndarnefnd að skerast í leikinn og ákváðu þau að senda mig á fósturheimili. Ég lenti hjá yndislegri fjölskyldu og hugsa ennþá um þau sem svona auka foreldra mína, þau hafa líklega gert mikið til að móta allar þær góðu ákvarðanir sem ég tók seinna meir. Ég hinsvegar fann fyrir miklu fyrir þunglyndi á unglingsárunum og byrjaði þá fyrst að stunda sjálfskaða.”

helga-lilja

Skólaganga Helgu Lilju var ekki bein leið heldur gekk hún frekar brösuglega. „Skólinn var í litlum bæ þar sem að allir stóðu sig vel í skólanum og ekki var mikið um vandræðaunglinga svo ég tengdist ekki mörgum þar. Skólastjórinn hafði sérstaklega litla þolinmæði fyrir mér og hægt er að segja að framkoma hans til mín hafi jaðrað við einelti. Ég man eftir einu skipti þar sem hann hringdi heim til einnar mömmunar hjá eina vini mínum í skólanum og mælti gegn því að hún leyfði honum að fara heim með mér eftir skóla þar sem ég væri fósturbarn og reykti sígarettur.”

Auglýsing

Atvik á borð við þetta gerðu lítið annað en að brjóta Helgu Lilju niður: „Eftir grunnskólagönguna ákvað ég að taka mér frí frá skóla og flytja til Reykjavíkur. Ég flutti út frá mömmu og fór í að fikta við fíkniefni. Síðan þegar ég var 16 ára kom fyrsta stóra áfallið mitt. Ég man að ég var flutt tímabundið aftur heim til mömmu. Ég sat á rúminu mínu og var að fara fram úr þegar mamma kemur heim og bankar á hurðina hjá mér. Ég gat heyrt það á geðshræringunni í tóninum hjá henni að það var einhvað mikið að. Hún bað mig um að koma fram og ég með mína morgunfýlu hreytti í hana „hvað væri nú að henni?”

Orðin sem komu næst sitja föst í hausnum á mér og ég man þetta eins og þetta hafi gerst í gær: „Það er pabbi þinn, hann er dáinn.“

Ég vissi strax að hann hafði tekið sitt eigið líf. Ég hafði áður komið að honum þar sem hann hafði skrifað kveðjubréf til ömmu minnar og afa. Hann hafði barist við mikið þunglyndi og alkóhólisma yfir margra áratuga skeið. Eftir það missti ég mig í neyslu og reyndi að gera allt til að bæla niður hvern snefil af tilfinningum.

Eftir rúmlega ár af þessu líferni varð ég síðan ófrísk og fékk í hendurnar ástæðu þess ég er enn á lífi. Ég tók mig til og hætti öllu, fór á beinu brautina og ákvað að gera allt í mínu valdi stóð til að gefa barninu mínu gott líf.

Hlutirnir gengu ágætlega í smá tíma en síðan með edrú lífinu komu önnur áföll og sem voru einnig stór partur af áfallastreitunni sem ég er greind með í dag. Ég lenti í kynferðisofbeldi og afleiðingar þess eru eitthvað sem ég mun þurfa að eiga við alla ævi.

Helga segir: „Ég fann fyrir miklum sveiflum: Ég gat verið æpandi kát aðra mínútuna og öskrandi reið þá næstu. Ég fór að lenda í því að fá óraunveruleika-köst: Ég var kannski að horfa á blaðsíðu í tímariti og leit kannski á höndina á mér og leið eins og ég væri ekki til eða að ég væri í röngum líkama. Þá hófst ferlið mitt í geðheilbrigðiskerfi Landspítalans. Ég fór með minni bestu vinkonu í mitt fyrsta viðtal og þar voru mér gefin þunglyndislyf og einhver önnur við skapsveiflunum. Þau lyf fóru ágætlega í mig í smá tíma. Ég hætti þó á þeim eins og góðum geðsjúkling sæmir því mér var farið að líða eins og ég þyrfti þau ekki lengur.“

Eftir það urðu skapbrestirnir bara verri og kvíðinn sem ég hafði alltaf lifað með varð enn verri en áður. Ég fékk mitt fyrsta ofsakvíðakast eftir að hafa verið í ræktinni, ég hneig niður eftir að ég fékk svima og fór að ofanda. Ég man að allt hringsnérist fyrir augunum á mér og hendurnar og fingurnir byrjuðu að stífna upp. Ég var nokkuð viss um að það væri einhvað mikið að svo að það var hringt á sjúkrabíl og ég endaði uppá spítala. Þar fékk ég að heyra að þetta væri líklegast mikill kvíði og þá ákvað ég að fara aftur í viðtal hjá bráðamóttöku geðdeildar.

Þar hitti ég konu sem að gaf mér bækling um jaðarpersónuleikaröskun (Borderline Personality Disorder) og fannst mér ég vera að lesa bækling um mitt líf. Sótt var um fyrir mig í greiningu uppá geðdeild og við tók biðin endalausa. Því miður í þessari bið missteig ég mig og datt í það. Af þeim sökum endaði ég inni á geðdeild og fór svo þaðan á meðferðarstöðina Hlaðgerðarkot. Þar fékk ég nýtt líf 26. september 2012 og hef ekki neytt fíkniefna síðan þá.

Þar inni var ég sett á þunglyndislyf sem að hentuðu mér alls ekki. Eftir að ég kom út af Hlaðgerðarkoti fór ég í hugræna atferlismeðferð niðri á Teigum á geðdeild. Í miðri meðferð fékk ég mjög erfiðar fréttir og á lyfjunum sem að ég var á var ég það mikið úr jafnvægi að ég reyndi að taka mitt eigið líf, blessunarlega mistókst sú tilraun.

Ég hélt áfram á Teigum, kláraði þá meðferð og fékk greiningu stuttu seinna. Var ég greind aftur með ADHD, almenna kvíðaröskun og ofsakvíða, jaðarpersónuleika einkenni og áfallastreitu. Síðan þá hafa komið mörg áföll. Ein af mínum betri vinkonum tók sitt eigið líf, einn af mínum bestu vinum var bráðkvaddur og núna seinast missti ég mína bestu vinkonu á 25 ára afmælisdaginn minn. Hún hafði gengið í gegnum mikið af andlegum veikindum en var á beinu brautinni þegar hún var bráðkvödd heima hjá sér. Eftir það var ég svakalega týnd.

helga-lilja2

Nokkrum mánuðum seinna sá ég auglýsingu á Facebookgrúppu frá stelpu þar sem hún talaði um að stofna hóp fyrir ungar konur sem hafa gengið í gegnum andleg veikindi eða vanlíðan og kviknaði mikill áhugi hjá mér. Við fórum að tala saman og hjálpaði ég til við að finna stað fyrir fundi og erum við núna að fara af stað með þá núna 18. september.

Hópurinn heitir „Stuðningshópurinn Freyja“ á Facebook og langar okkur að allar ungar konur geti komið saman í vernduðu umhverfi og talað saman um hluti sem eru ekki taldir fitta í „normið“ í samfélaginu. Það er svo mikilvægt að finna fyrir því að maður er ekki ein. Gott öryggisnet er það besta sem maður getur haft þegar erfiðið brestur á.

Ég er svo heppin að eiga yndislega fjölskyldu og yndislegan kærasta sem stendur við bakið á mér sama hvað, ég verð bara að þakka þeim fyrir þann ómetanlega stuðning sem ég hef fengið.

Þrátt fyrir það er nauðsynlegt fyrir okkur konur að vera í samskiptum við aðrar konur sem eru að ganga í gegnum svipaða hluti. Stelpan sem að stofnaði hópinn heitir Birna Kristín Ásbjörnsdóttir og er ég svo þakklát að hafa kynnst henni, hún hefur svo góða og hnitmiðaða sýn á hvernig hún vill hafa hlutina þannig að það komi sem best út fyrir okkur allar í hópnum.

Ég mæli með því að allar þær konur sem haldi að þær eigi erindi í hópinn endilega kíkji á okkur á Facebook. Þar er hægt að fá allar þær upplýsingar sem þarf fyrir þær sem vilja koma og njóta notalegrar stundar með okkur í öruggu umhverfi.“

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!