Er einhver í lífi þínu sem á til að notfæra sér góðvild þína? Einhver sem skapar valdaójafnvægi og lætur þig finnast þú minni máttar?
Prestin Ni, sérfræðingur í samskiptum, hefur búið til átta reglur sem þú átt að tileinka þér hafir þú einhverntíma upplifað slíkt.
Þú átt að kynna þér grundvallarréttindi þín sem manneskju
Þegar þú ert að eiga við manneskju sem er að beita þig andlegu ofbeldi, að ganga yfir mörkin þín verður þú að vita sjálfsögð réttindi þín og hvenær er verið að brjóta á þér. Svo lengi sem þú skaðar ekki aðra hefur þú rétt á að standa upp fyrir sjálfri/sjálfum þér og verja þín mörk, þínar „girðingar.”
Þetta eru réttindi þín:
Þú hefur rétt á að vera virt sem manneskja
Þú hefur rétt á að tjá tilfinningar þínar, skoðanir og þrár
Þú hefur rétt á að setja sjálfa/n þig í forgang
Þú hefur rétt á að segja NEI án samviskubits
Þú hefur rétt á að fá það sem þú greiddir fyrir
Þú hefur rétt á að hafa skoðanir sem eru aðrar en hinna
Þú hefur rétt á að verja sjálfa/n þig gagnvart líkamlegu, andlegu eða tilfinningalegu ofbeldi
Þú hefur rétt á að skapa þitt eigið hamingjusama, heilbrigða líf
Þessi réttindi þín tákna mörkin þín. Samfélagið er því miður fullt af fólki sem vill ekki virða þessi mörk. Þú verður að taka stjórnina í eigin lífi, því það er þú en ekki markalausi einstaklingurinn sem stjórnar þínu lífi.
Haltu fjarlægð
Ein leið til að greina markalausan einstakling (ofbeldismanneskju) er að athuga hvort hann spilar mismunandi hlutverk gagnvart mismunandi fólki í mismunandi aðstæðum. Auðvitað „leikum við” öll mismunandi hlutverk en markalaus einstaklingur tekur þetta skrefinu lengra: Hann á til að vera ofboðslega kurteis við eina manneskju og hreyta síðan í næstu. Hjálparlaus eina mínútuna og aðgangsharður og dónalegur þá næstu.
Þegar þú sérð slíka hegðun skaltu halda þig í öruggri fjarlægð. Þetta er ekki eðlileg hegðun! Reyndu að forðast samskipti nema af ítrustu nauðsyn. Manneskjan er svona af ýmsum, flóknum ástæðum og eru þessir gallar þaulsetnir. Það er ekki á þína ábyrgð að reyna að bjarga eða breyta þessari manneskju.
Forðastu að ásaka sjálfa/n þig
Markalausi einstaklingurinn reynir að finna hjá þér veikleika og benda þér á þá. Það er skiljanlegt að þér líði illa með það og jafnvel ásakir sjálfa/n þig fyrir að standa þig ekki betur. Í þannig kringumstæðum er nauðsynlegt fyrir þig að muna að þú ert ekki vandamálið. Það er verið að reyna að stjórna þér – að láta þér líða illa með þig sjálfa/n svo líklegra sé að þú látir betur að stjórn.
Hugsaðu um sambandið við þessa manneskju og spyrðu þig þessara spurninga:
Er verið að koma fram við mig af alvöru virðingu?
Er þessi manneskja að ætlast til sanngjarnra hluta af mér?
Líður mér (í alvöru) vel í samskiptum við þessa manneskju?
Að svara þessum spurningum hreinskilnislega (bara við sjálfa/n þig) gefur þér góða vísbendingu um hvort það sért þú eða manneskjan sem er „vandamálið.”
Hér eru góðar spurningar til að spyrja markalausa einstaklinginn: Legðu áherslu á hann en ekki þig
Markalaus, stjórnsamur einstaklingur mun krefjast einhvers af þér, fyrr eða síðar. Við erum ekki að tala um venjulegar beiðnir, heldur eitthvað sem þú þarft að fara út fyrir þinn eigin þægindaramma til að gera, eða ganga á rétt þinn á einhvern hátt til að uppfylla.
Ef (og þegar) þú lendir í því skaltu spyrja manneskjuna spurninga varðandi bónina til að sjá hvort hún uppgötvi ekki sjálf hversu langt hún er að ganga:
Finnst þér þetta sanngjarnt?
Finnst þér eðlilegt að biðja mig um þetta?
Hef ég eitthvað um þetta að segja?
Ertu að spyrja mig eða skipa mér fyrir?
Og hvað á ég að fá út úr því (að gera þetta)?
Ertu í alvörunni að ætlast til að ég geri (þetta)?
Ef þú spyrð slíkra spurninga ertu að varpa ábyrgðinni yfir á einstaklinginn – setur upp spegil, svo að segja, til að hann sjái sjálfur hvernig í málunum liggur. Ef þessi einstaklingur hefur einhverja sómakennd eða er ekki algerlega siðlaus mun hann eða hún eflaust draga bónina til baka.
Ef manneskjan er þó algerlega siðlaus (narcissistic disorder eða haldin/n sjálfsástar-persónuleikaröskun) mun hún ekki sjá hvað hún er að gera rangt og halda sínu striki.
Ef þú ert að eiga við slíka manneskju eru hér ráð til að eiga við slíkt:
Notaðu tímann þér í hag
Ef verið er að þvinga þig til að gera eitthvað sem þú vilt ekki gera, skaltu nota eftirfarandi setningar til að vinna tíma, velta því fyrir þér hvernig þú kemur þér út úr aðstæðunum:
„Ég ætla að hugsa málið.” Virkilega öflugt er að gefa ekki eftir óskum markalauss einstaklings um leið. (Hann er nefnilega að reyna að „ljúka sölunni” eins og sölufólk kallar það) Ef manneskjan hefur tak á þér vill hún fá þitt samþykki um leið. Ekki láta hana komast upp með það og gefðu þér tíma til að hugsa málið.
Lærðu að segja NEI – ákveðið en kurteisislega.
Mundu alltaf að þú hefur rétt á að segja nei. Þú hefur rétt á að segja nei án afsakana, án þess að fá hræðilegt samviskubit og þú hefur rétt á þínu eigin lífi!
Segðu að hegðunin muni hafa afleiðingar
Þegar markalaus einstaklingur neitar að virða neitunina þína, settu skýr mörk. „Ég get ekki verið í samskiptum við þig ef þú virðir ekki þegar ég segi nei,” væri til dæmis hægt að segja. Ef þú gerir manneskjunni grein fyrir afleiðingunum neyðir það hana til að skipta yfir úr stjórnsemi í virðingu.
Eineltisseggir eru allsstaðar
Markalaus einstaklingur á til að leggja í einelti. Það sem ber að hafa í huga með eineltisseggina er að þeir leggjast á þá sem eru veikir fyrir, þá sem þeir telja geta meitt og stjórnað. Á meðan þú ert hlýðin/n, eftirlátssamur/söm og spilar með mun manneskjan notfæra sér þig. Hún mun sjá þig sem skotmark. Flestir eineltisseggir eru þó aular inn við beinið. Um leið og „skotmarkið” fer að svara fyrir sig og tekur ekki þátt bakkar eineltisseggurinn oftast.
Heimild: http://nipreston.com/new/publications/