Allir foreldrar sem eiga börn á grunnskólaaldri glíma við spurninguna: Hvað get ég gefið barninu mínu í nesti? Það á að vera hollt, næringarríkt og ekki fullt af sykri og halda barninu í góðri orku fram til hádegis.
Nýleg rannsókn frá árinu 2014 sýnir að flest nestisbox barna á grunnskólaaldri (í Bandaríkjunum) eru með mun minna næringarinnihaldi en skólamáltíðin sjálf.
Til að börn haldist í jafnvægi þurfa þau „smá af öllu,” samkvæmt Jackie Newgent, næringarfræðingi. „Þau þurfa prótein fyrir vöðvana, kolvetni fyrir orku og heilastarfsemi og aðra næringar- og vítamínríka fæðu.”
Þú getur púslað saman þessum fæðutegundum, við höfum einfaldað kostina með að láta ráðandi innihaldsefni í forgang:
Trefjar
Sums staðar er hægt að fá snakk-stykki, s.s. Kellogs eða þessháttar. Það þarf ekki að vera heill bar, stundum er nóg að skera hann í tvennt ef fylgjast þarf með hitaeininga-eða kolvetnainntöku.
Heilhveititortilla
Settu tvær sneiðar af kjúklinga/kalkúnaáleggi ásamt osti og káli. Rúllaðu því upp og skerðu í þægilega bita.
Pastasalat í krukku
Að búa til pastasalat (t.d. úr afgöngum gærdagsins) er einfalt. Settu sitt á hvað harðsoðið egg, núðlur/heilhveitipasta og eitthvert grænmeti, t.d. tómata eða gúrku. Ef sósu er óskað er best að hafa hana í sér krukku (sósa gerð úr grískri jógúrt, AB mjólk eða basalmik edik) og barnið setur sjálft út á þegar þess á að vera neytt (til að koma í veg fyrir að salatið verði blautt).
Prótein
Harðsoðin egg eru frábær próteingjafi fyrir sívaxandi börn. Hafðu salt eða annað krydd með í boxið til að barnið geti kryddað sjálft.
Hummus
Ef barninu þínu líkar hummus, njóttu þess að gefa það í nesti. Brauðbolla eða hrökkbrauð með hummusi er dásamlega trefja-og próteinríkt og er blóðsykursjafnandi á heilbrigðan hátt.
Smá-burritos
Í stað þess að taka eina stóra, skerðu frekar eina niður í tvennt eða þrennt. Gott er að hafa þær úr heilhveiti – taka baunastöppu (refried beans), ost, guacamole og kál. Ekki skemmir að hafa salsa með!
Ávextir og grænmeti
Skerðu gulrætur eða gúrkur niður í „peninga” – láttu krakkana leika með þá, t.d. með því að dýfa þeim í hummus eða aðra góða ídýfu. Gulrætur eru það besta fyrir sjónina, krakkar!
Ber og ídýfa
Taktu jarðarber, hindber eða bláber (krækiber eru líka æðisleg) – settu í krukku með loki og búðu til þinn eigin rétt – mundu að láta skeið með! Settu gríska jógúrt, AB mjólk eða uppáhaldið ykkar. Ber eru frábær uppspretta vítamína sem eru nauðsynleg fyrir ónæmiskerfi krakkanna. Plús – börn borða meira af grænmeti og ávöxtum ef „ídýfa” er með.
Snarl til að hafa með (eða í eftirrétt)
Best er að hafa hnetur og rúsínur…það er virkilega góð blanda. Athugaðu bara innihaldslýsinguna – ef um aukaefni er að ræða skaltu frekar blanda það sjálf/ur. Sólblómafræ eru fín ef um hnetuofnæmi í bekknum er að ræða.
Drykkir
Ekki þarf að taka fram að íslenskt vatn er alltaf langbesti kosturinn! Smá trikk sem við kunnum: Taktu brúsa barnsins og fylltu hann upp að 3/4. Settu nokkra klaka í og þá helst vatnið kalt og ferskt þar til þess er neytt!
Heimild: RealSimple.com