KVENNABLAÐIÐ

Hver eru einkenni heilablóðfalls?

Heilablóðfall eða heilaslag er afleiðing skyndilegrar og varanlegrar truflunar á blóðflæði til heilasvæða af völdum æðasjúkdóma. Blóðflæðitruflunin getur orsakast af stíflu í heilaslagæð af völdum blóðtappa (heiladrep) eða því að æð brestur og blæðir í heilavefinn (heilablæðing). Í báðum tilvikum líða heilafrumur, sem æðin nærir súrefnisskort, auk skorts á öðrum nauðsynlegum næringarefnum. Hluti heilafrumanna deyr, en starfsemi annarra raskast. Stundum koma einkenni um heilablóðfall einungis fram í stuttan tíma og er þá talað um skammvinna blóðþurrð í heila. Ýmsir sjúkdómar geta stuðlað að heilablóðfalli. Einkennin sem koma fram eru háð staðsetningu og stærð skemmdarinnar í heilanum.

Tíðni hækkar með hækkandi aldri

Rannsóknir á Íslandi hafa leitt í ljós, að um 600 einstaklingar fá heilablóðfall árlega. Meðalaldur þeirra er tæplega 70 ár og er þorri sjúklinga eldri en 65 ára. Heldur fleiri karlar en konur fá heilablóðfall hérlendis. Tíðni heilablóðfalla er mjög háð aldri. Rannsóknir Hjartaverndar benda til að árleg tíðni um 50 ára aldur sé um 3 af hverju þúsundi en um áttrætt er tíðnin komin upp í 12 af þúsundi. Heilablóðfall er þriðja algengasta dánarorsökin á Íslandi. Það veldur dauða hjá um 8% karla og kvenna.

Auglýsing

MISMUNANDI FLOKKAR HEILABLÓÐFALLS

Heilablæðing

Við heilablæðingu brestur æð í heila svo að blæðir í heilavefinn. Stundum getur blætt á svæði þar sem æðastífla varð í upphafi. Blóðið þrýstir á heilbrigðan heilavef og flutningur um æðina skerðist. Djúpt í heila eru vökvafyllt hólf. Sé blæðingin stór getur hún brotist inn í þetta vökvakerfi. Í sjaldgæfum tilvikum getur blætt frá æðapokum á botni höfuðkúpunnar.

Heiladrep

Heiladrepi er skipt í þrjár gerðir eftir orsök.

  •  Í fyrsta lagi getur kölkuð heilaslagæð lokast vegna staðbundinnar æðakölkunar
  •  Í öðru lagi getur segarek (blóðtappi) sem myndast í öðrum hluta blóðrásar svo sem í stóru hálsslagæðunum, ósæðarboganum eða í hjartanu, lokað slagæðinni. Blóðsegar geta til dæmis myndast í hjarta sem slær óreglulega, í skemmdu hjarta eftir kransæðastíflu eða í nálægð við skemmdar hjartalokur
  • Í þriðja lagi geta kalkaðar smáæðar djúpt í heila lokast vegna þrengingar og valdið starfstruflun einungis á litlu svæði. Þetta nefnist ördrep. Í kaflanum hér á eftir verður heilablóðfall flokkað eftir orsökum, einkennum lýst, sagt frá greiningu, meðferð og áhættuþáttum.

Skammvinn blóðþurrð í heila

Þegar menn fá einkenni heilablóðfalls sem vara skemur en 24 klukkustundir er talað um skammvinna blóðþurrð í heila. Ástæður skammvinnrar blóðþurrðar eru hinar sömu og heiladreps, en blóðrásin nær að opnast aftur í tíma svo að engin varanleg skemmd verður á heilafrumunum. Slík einkenni eru viðvörun og þarf að rannsaka nánar til þess að reyna að koma í veg fyrir hugsanlegt heilablóðfall síðar.

EINKENNI HEILABLÓÐFALLS

Engir tveir einstaklingar fá sömu einkenni jafnvel þótt ástæður fyrir heilablóðfallinu geti verið þær sömu. Staðsetning skemmdarinnar í heilanum er lykilatriði og sömuleiðis hve stór hún er. Aldur og fyrra heilsufar hafa einnig áhrif. Heilinn er stjórnstöð fyrir alla starfsemi líkamans. Staðbundin skemmd á ákveðnum svæðum veldur starfstruflun á ákveðnu líkamssvæði eða á sérhæfðri líkamsstarfsemi. Hægra hvel heilans stjórnar vinstri hluta líkamans og öfugt. Auk þess að stjórna hægri hlið líkamans, hefur vinstra heilahvel að geyma málstöðvar heilans. Því getur skemmd í vinstra heilahveli valdið bæði lömun í hægri hlið líkamans og tjáskiptavandamálum. Ýmis síðbúin vandamál geta komið eftir bráðastigið, svo sem þunglyndi og flogaköst. Afleiðingar og einkenni geta því verið margvísleg.

Byrjunareinkenni og afleiðingar heilablóðfalls

  • Dofi, kraftminnkun eða lömun í annarri hlið líkamans. Einkennin geta verið bundin við handlegg, hönd, fótlegg eða náð yfir alla hliðina
  • Taltruflanir svo sem óskýrmæli, erfiðleikar við að finna rétt orð eða mynda setningar. Stundum skerðist skilningur á töluðu máli. Erfiðleikar við að lesa og skrifa geta einnig komið fram
  • Erfiðleikar við að borða og kyngja
  • Skert sjón í helmingi eða hluta sjónsviðs
  • Skortur á einbeitingu og minnistruflanir
  • Skyntruflanir, svo sem skert tíma- og afstöðuskyn
  • Grátgirni, trufluð tilfinningastjórnun og persónuleikabreytingar Verkstol, þ.e. skert geta til að framkvæma ýmsa hluti
  • Gaumstol, þ.e. menn vilja gleyma þeim líkamshelmingi sem er lamaður og nota hann ekki, jafnvel þótt þeir geti hreyft hann
  • Truflun á þvagstjórn

Mikilvægt er að leita aðstoðar sem fyrst og hefja læknismeðferð. Hringið í lækni, jafnvel þótt einkenni virðist vera að ganga til baka. Hringið á neyðarbíl í síma 112, ef einkenni fara versnandi. Byrjunareinkenni geta verið skyndilegur slæmur höfuðverkur, ógleði, uppköst eða skert meðvitund auk framangreindra atriða.

Auglýsing

GREINING Á HEILABLÓÐFALLI

Þegar grunur vaknar um heilablóðfall er nauðsynlegt að greina hvers konar heilablóðfall er um að ræða. Meðferð og rannsóknir eru mismunandi eftir tilvikum.

Rannsóknir sem eru gerðar

  •  Nákvæm sjúkrasaga og læknisskoðun
  • Tölvusneiðmynd af heila. Rannsóknin greinir á milli blæðingar í heila og heiladreps. Við heiladrep þarf stundum að líða nokkur tími frá því að einkennin komu fram þar til breytingar sjást á sneiðmynd
  • Segulómskoðun af heila gefur góða mynd af staðsetningu og umfangi skemmdar og sýnir smærri skemmdir mun betur en tölvusneiðmynd
  • Rannsóknir á hjarta eru gerðar til að sjá hvort blóðtappi frá hjarta hafi valdið heilablóðfalli
  • Hjartalínurit segir til um hjartsláttaróreglu. Holter er lítið tæki sem tekur hjartlínurit samfellt í heilan sólarhring, gefur vísbendingar um hvort hjartsláttur er stundum óreglulegur en eðlilegur þess á milli
  • Ómskoðanir á hálsslagæðum og innankúpuslagæðum sýna hvort þessar æðar eru þrengdar
  • Æðamyndataka sýnir nákvæmlega útlit æðanna. Nýrri sneiðmyndatækni gerir einnig kleift að skoða slagæðarnar í heila nokkuð nákvæmlega og á auðveldari hátt
  • Ýmsar blóðprufur gefa hugmynd um áhættuþætti svo sem sykursýki og hækkaðar blóðfitur

Heilablóðfall verður að meðhöndla strax.

MEÐFERÐ Á HEILABLÓÐFALLI

Bráðameðferð

Í völdum tilvikum er hægt að beita blóðsegaleysandi meðferð, að undangengnum rannsóknum og greiningu á heiladrepi. Það á einungis við ef viðkomandi kemst þegar í stað undir læknishendur. Segaleysandi lyfið er gefið í æð og eyðir í sumum tilvikum blóðtappanum svo að litlar eða engar varanlegar skemmdir verða á heilavef. Önnur bráðameðferð felst í vægri blóðþynningu eða fullri blóðþynningu séu einkennin að koma og fara eða eru hratt versnandi. Stundum þarf að tæma heilablæðingar út með skurðaðgerð ef þær eru stórar. Ávallt þarf að fylgjast með blóðþrýstingi, hjartslætti og meðvitundarástandi fyrsta sólarhringinn eftir heilablóðfall og stundum yfir lengri tíma.

Frekari meðferð

Greinist hjartsláttaróregla, segamyndun í hjarta, skemmdar hjartalokur eða yfirvofandi lokun á stórri hálsslagæð er fullri blóðþynningu beitt. Þótt litlar sem engar æðaskemmdir komi í ljós við rannsóknir er beitt lyfjum, sem draga úr samloðun blóðflagna. Þekktast þeirra er Magnyl® (acetýlsalisýlsýra). Leiðrétta þarf hjartsláttaróreglu með lyfjagjöf eða rafstuði á hjartað eftir því sem við á. Séu verulegar þrengingar á stóru hálsslagæðunum eru þær stundum hreinsaðar að innan til þess að tryggja opna blóðrás til heilans.

Endurhæfing

Þörf á endurhæfingu fer eftir staðsetningu og stærð heilaskemmdarinnar og þeim einkennum sem hún veldur. Langtímamarkmið endurhæfingar er að gera sérhvern einstakling eins hæfan til þess að starfa í umhverfi sínu og kostur er.

HVAÐ ER TIL RÁÐA?

Er unnt að koma í veg fyrir heilablóðfall?

Forvarnir eru mjög mikilvægar. Sumum áhættuþættum getum við breytt en öðrum ekki. Rannsóknir Hjartaverndar og erlendar rannsóknir hafa sýnt fram á þessa áhættuþætti.

Áhættuþættir sem ekki er hægt að breyta

  • Aldur

Líkurnar aukast með hækkandi aldri. Meðalaldur þeirra sem fá heilablóðfall hérlendis er tæplega 70 ár. Meirihluti sjúklinga er yfir 65 ára aldri

  • Kyn

Fjórðungi algengara hjá körlum en konum

  • Fjölskyldusaga

Vert er að láta fylgjast með blóðþrýstingi og öðrum þekktum áhættuþáttum bæði ef er fjölskyldusaga um heilablóðfall og / eða hjarta- og æðasjúkdóma

  • Fyrri saga um heilablóðfall / skammvinna heilablóðþurrð

Áhættuþættir sem hægt er að breyta

  • Háþrýstingur
  • Reykingar
  • Kyrrseta
  • Offita
  • Sumir hjartasjúkdómar (t.d. óreglulegur hjartsláttur/gáttaflökt)
  • Sykursýki
  • Hækkað kólesteról
  • Áfengismisnotkun
  • Getnaðarvarnapilla (á það einkum við ef konan reykir og er eldri en 35 ára)
  • Streita

Flestir þessara áhættuþátta tengjast ástandi hjarta- og æðakerfis. Með því að hugsa vel um hjarta og æðakerfi minnka líkurnar á heilablóðfalli. Verið meðvituð um þá þætti sem hægt er að hafa áhrif á.

Doktor.is – allur fróðleikur um heilsu og lyf!

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!