KVENNABLAÐIÐ

Beinþynning: Hinn þögli faraldur

Beinþynning er sjúkdómur sem einkennist af því að beinmagn og beinþéttni minnkar, sem leiðir síðan til þess að beinin verða ekki eins sterk og ella. Afleiðingarnar eru aukin hætta á beinbrotum, sérstaklega hryggsúlubrotum , mjaðmarbrotum og framhandleggsbrotum. Fólk sem er með beinþynningu á háu stigi getur brotnað við venjulegar athafnir í daglegu lífi, við lítinn eða engan áverka, jafnvel við handtak eða faðmlag. Margir einstaklingar sem eru með beinþynningu vita ekki af því að þeir eru haldnir sjúkdóminum þar til þeir hafa brotnað einu sinni eða oftar og síðan farið í beinþéttnimælingu. Þetta er því dulinn eða þögull sjúkdómur.

Hver fær beinþynningu?

Talið er að þriðja hver kona eldri en 50 ára sé með beinþynningu. Ungt fólk getur fengið beinþynningu og einnig stór hópur karlmanna. Það er staðreynd að einn af hverjum átta körlum eldri en 50 ára eiga á að hættu að fá þennan sjúkdóm. Helstu áhættuþættir eru:

Kyn og aldur, algengara hjá konum og öldruðu fólki.

Smábeinótt líkamsbygging

Fjölskyldusaga um mjaðmarbrot

Lækkað estrógen

Reykingar

Óhófleg áfengisneysla

Ákveðnir sjúkdómar og langtímanotkun á bólgueyðandi lyfjum

Hreyfingarleysi

Lítil kalkneysla

Afleiðingar

Brot af völdum beinþynningar valda ómældum þjáningum og geta leitt til langvarandi líkamlegrar hömlunar. Margir sem þjást af beinþynningu upplifa endurtekin hryggsúlubrot. Þessi brot eru ekki einungis þjáningarfull og líkamlega hamlandi, heldur valda þau einning smám saman líkamlegum breytingum s.s. líkamshæð lækkar og líkaminn bognar. Mjaðmarbrotin eru alvarlegust. Allt að 20% þeirra sem mjaðmarbrotna deyja innan árs og einungis helmingur þeirra sem lifa lengur endurheimta hreyfanleika sinn. Þetta fólk getur ekki lengur lifað sjálfstæðu lífi heldur verður að treysta á umönnunaraðila, annaðhvort innan fjölskyldu sinnar eða á sjúkrastofnunum.

Greining

Hægt er að greina beinþynningu tiltölulega auðveldlega með beinþéttnimælingu en hún er besta aðferðin til að segja til um hve miklar líkur eru á því að viðkomandi sé í hættu á að brotna af völdum beinþynningar. Beinþéttnimæling gefur þannig til kynna hættuna á beinbrotum af völdum beinþynningar á sambærilegan hátt og blóðþrýstingsmæling getur sagt til um líkur á að einstaklingur fái heilablóðfall. Mikilvægt er að beinþynning greinist snemma til að koma í veg fyrir beinbrotin því rannsóknir hafa sýnt að hættan á brotum eykst eftir því sem beinþéttnin er minni. Fyrir hvert staðalfrávik í lækkun á beinþéttni eykst brotahættan u.þ.b. 50% til 100%. Samkvæmt WHO – alþjóða heilbrigðismálastofnuninni – er einstaklingur með beinþynningu, ef beinþéttnin er 2.5 staðalfrávikum eða meira undir meðal beinþéttni fyrir unga heilbrigða einstaklinga af sama kyni.

Ertu í hættu á að fá beinþynningu? Taktu einnar mínútu áhættupróf!

1. Hafa foreldrar þínir annar eða báðir mjaðmarbrotnað við lítinn eða engan áverka?

2. Hefur þú beinbrotnað eftir lítill eða engan áverka?

3. Fyrir konur: Fórst þú í tíðahvörf fyrir 45 ára aldur?

4. Fyrir konur: Hafa blæðingar stöðvast samfleytt í 12 mánuði eða meira ( af öðrum ástæðum en þungun)?

5. Fyrir karla: Hefur þú einhvern tíma þjáðst af getuleysi, minnkaðri kynorku, eða öðrum einkennum tengdum lágu magni testósteróns (karlkynshormóns)

6. Hefur þú tekið bólgueyðandi lyf (cortisone, prednisone, o.s.frv.) lengur en 6 mánuði samfleytt?

7. Hefur líkamshæð þín lækkað meira en um 5 sm?

8. Drekkur þú áfenga drykki í óhófi?

9. Reykir þú meira en einn pakka á dag?

10. Þjáist þú oft af niðurgangi?

Ef þú svarar “já” við einhverri þessara spurninga hér fyrir ofan, getur þú verið í áhættu á að fá beinþynningu og við mælum með því að þú talir við lækni, sem mun ráðleggja þér hvort frekari rannsókna er þörf.

Upplýsingarnar eru teknar saman úr ársskýrslu alþjóða beinverndarsamtakanna, IOF.

Doktor.is – allur fróðleikur um heilsu og lyf!

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!