Hildur Máney Tölgyes er engin venjuleg kona. Hún er menntaður Pole fitness og Foam flex þjálfari og á 14 ára dóttur. Hildur hefur sett á stofn Kærleikssöfnun á Facebook þar sem efnaminni og þurfandi fjölskyldur geta leitað til og fengið föt og fleira frá þeim sem þurfa að losa sig við þau.
Við höfðum áhuga á að vita hvernig Hildi Máney datt þetta í hug. Hún svarar: „Ég hef alltaf gert þetta – ég og mínar vinkonur. Við höfum skipst á fötum svo lengi sem ég man eftir mér. Sumar vinkonur mínar safna fötum og ég hef fengið fullt hjá þeim. Við höfum líka alltaf farið með föt og snyrtivörur í Konukot.“
„Pabbi minn er alltaf í útlöndum vegna vinnunar sinnar,” segir Hildur. „Ég hef beðið hann að taka sjampóin og sápurnar á hótelherbergjum sem hann dvaldi í og gefa mér. Ég fékk svo poka frá honum og fór með hann niður eftir til að gefa þeim sem þurftu á honum að halda.. Svo fór ég með föt og dót í Fataland í Krýsuvík – þar er markaður þar sem fólk getur komið og „dressað sig upp.” Ég hef líka gefið í Töfrastafi. Það er ekki meðferð en einskonar samyrkjubú. Fólk leigir herbergi og ég hef farið með föt þangað líka. Þau nefna það „Gullkistuna” en fólk getur tekið föt og sett önnur í staðinn. Þetta er rétt hjá Grímsnesi og kallast Torfastaðir en þau hafa á sniðugan hátt breytt því í „Töfrastaði!”“
Hvernig fékkst þú þessa hugmynd?
Hildur segir: „Jú, ég hef verið að lifa og hrærast í þessu lengi. Ég hef t.d. verið lengi með föt frá fólki – pokadruslur í geymslu og hugsað: „Hvað á ég eiginlega að gera við þetta?” Svo póstaði ég á Beautytips hópinn. Ég held ég hafi fengið skrilljón skilaboð! Þannig ákvað ég að búa til hópinn Kærleikssöfnun 2016. Ég bjóst engan veginn við að þetta myndi vekja svona mikla athygli. Ég var í viðtali við Fréttatímann og ótrúlega margir höfðu samband og vildu gefa föt. Þetta er ekki einu sinni fyndið – viðbrögðin! Ég bjó síðan til aðra síðu sem heitir “Gefins föt fyrir alla” því eftirspurning og framboðið var orðið það mikið.”
Við óskum eftir!
„Nú erum við á þeim stað að við þurfum að biðja fólk um hjálp! Við þurfum aðstöðu – herbergi – rými þar sem við getum geymt eitthvað. Við óskum eftir hjálp frá góðhjörtuðum borgurum sem vilja leggja málefninu lið. Ef þú ert með pláss í geymslu eða herbergi sem þú mátt missa værum við afar þakklátar,” segir stofnandinn Hildur Máney. Helst vildu þær fá herbergi með aðgang að þvottavél ef það væri hægt, en þær eru auðmjúkar í að biðja fólk um hjálp.
Plastkassar
Hildur biðlar líka til almennings að gefa Kærleikssöfnuninni plastkassa sem það þarf að losa þig við. „Við þurfum alls kyns geymsluílát sem er hægt að geyma föt í. Við þurfum að skipuleggja okkur til að hjálpa fjölskyldum í neyð. Ef einhver er til í að hjálpa okkur væri það dásamlegt,“ segir Hildur en hér er Facebooksíðan hennar.
Karlmannsföt
Það sem sárlega vantar eru karlmannsföt. „Við erum ekki að fá eins mikið af karlmannsfötum og er þörf á,” segir Hildur. „Það er mikil þörf og hreinlega neyð í gangi.” Við biðlum til almennings að hafa samband ef viðkomandi þarf að losa sig við karlmannsföt.
Leita konur sér meira aðstoðar en karlmenn?
„Ótrúlegt en satt – það hefur einungis einn karlmaður leitað að aðstoð hjá okkur,“ segir Hildur. „Konur eru í miklum meirihluta og vilja hið besta fyrir börnin sín.“
Það sem Hildi finnst mikilvægast af öllu er að öll samskipti milli gefenda og þiggjenda eru MILLILIÐALAUS. Engin hjálparstofnun tekur „skerf” fyrir að koma samskiptunum á – engin prósenta er til staðar.
Hildur vill að lokum koma á framfæri að neyðin er miklu meiri en hún bjóst við: „Ég hefði ekki trúað þessu. Þetta er búið að vinda upp á sig meira en ég bjóst nokkurn tíma við. Við erum að panta frá ALI Express og viljum kaupa sokka og nærföt til að gefa t.d. hjá Frú Ragnheiði, Konukoti og Gistiskýlinu.“
Við viljum hjálpa þeim þurfandi – þeim sem eru heimilislausir. Það eru mannréttindi að eiga hreina sokka og nærföt.
Hildur er hefur sterkar skoðanir á íslensku samfélagi: „Það á að vera sjálfsögð mannréttindi að eiga föt á sig og sína. Ef þú átt ekki peninga á Ríkið að redda því. Þetta er bara einfalt!”
Aðspurð segist Hildur ekki vita hversu margar fjölskyldur séu í neyð – búi við fátækt og viti ekki hvort það geti gefið börnnum sínum það sem þau þurfi á að halda: „Margar fjölskyldur berjast í bökkum. Fólk sem er að vinna jafnvel. Þau þurfa að borga svo mikið af lánunum sínum, borga af bílnum og þessháttar. Stundum lendir þetta á ömmum og öfum sem þurfa að hjálpa til. Mikið af ömmum eru að biðla til okkar að fá föt fyrir barnabörnin.”
Hvernig verður svo framhaldið hjá Kærleikssöfnuninni?
Hildur segir: „Ég ætla að halda áfram þar til allir eru klæddir! Ég er ofboðslega þakklát fyrir alla hjálpina og sjá hvað náungakærleikurinn er mikill. Fólk er að bjóða sig fram og ótrúlega margir eru tilbúnir að hjálpa. Meðan fólk gefur og þiggur föt held ég ótrauð áfram. Ég tengist þessu á ótrúlegan hátt og er afskaplega þakklát.”