Í júní árið 1983 var Madonna metnaðargjörn, ung kona. Hún var 24 ára og vann hörðum höndum að koma sér á framfæri í hringiðu New York. Þegar ljósmyndarinn Richard Corman hitti þessa ungu söngkonu sem í dag er 58 ára bjó hún í lítilli „bóhemaíbúð“ og bauð hann velkominn með því að gefa honum tyggigúmmí og espresso á silfurbakka.
Mánuði eftir að Richard tók þessar myndir af Madonnu gaf hún út sína fyrstu plötu sem bar einfaldlega heitið: Madonna. Á henni voru lögin Holiday, Lucky Star og Borderline. Henni skaut strax upp á stjörnuhimininn og ári seinna gaf hún út Like A Virgin.
„Við höfðum engar stafrænar myndir eða iPhone svo við höfðum Polaroid myndir. Ég tók um 66 myndir. Hún ætlaði að nota þær til að sækja um aðalhlutverkið í söngleiknum Cindy Rella. Prince eða Michael Jackson áttu að leika aðahlutverkið, Aretha Franklin vondu stjúpuna. Aldrei varð neitt úr þessu og handritið og þessar myndir voru týndar í 30 ár. Ég var að fara í gegnum geymsluna mína um daginn og var að hreinsa út úr síðasta horninu og myndirnar voru bara þarna. Í fullkomnu lagi,“ segir ljósmyndarinn.
Segir Richard einnig að ef þessar myndir væru teknar í dag væru um 30 manns í íbúðinni en þennan dag voru þetta bara þau tvö: „Hún var svo yndisleg, fyndin og kynþokkafull. Virkilega svöl með góða nærveru. Myndirnar áttu að vera af Madonnu sem Öskubusku – að þrífa húsið og gera sig svo reiðubúna að fara á ballið.“
Madonna stíliseraði sig sjálfa fyrir myndirnar – hár, förðun, fötin og allt. Hún vissi nákvæmlega hvað hún vildi sýna. Sjáðu þessar myndir sem gleymdust í 30 ár:
Heimild: i-D